Ásdís Halla Bragadóttir, ráðuneytisstjóri í háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu, sagði sig frá því að taka fyrir eineltismál í Menntasjóði vegna þess að eiginmaður hennar er dómari við Landsrétt þar sem systir framkvæmdastjóra sjóðsins starfar einnig. Settur ráðuneytisstjóri í eineltismálinu í stað Ásdísar Höllu er Stefán Guðmundsson, sem er ráðuneytisstjóri umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu. Þetta kemur fram í svörum frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu.
Karlmaður á fimmtudagsaldri tilkynnti einelti
Líkt og heimildin greindi frá fyrr í febrúar þá er rannsókn háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins á meintu einelti framkvæmdastjóra Menntasjóðs námsmanna, Hrafnhildar Ástu Þorvaldsdóttur, í garð starfsmanns lokið. Málið er nú komið inn á borð áðurnefnds Stefáns Guðmundssonar sem mun taka ákvörðun um framhaldið.
Blaðið greindi frá málinu fyrir tæpu ári og stóð rannsókn ráðuneytisins þá yfir en var stutt á veg komin. Maðurinn sem um ræðir hefur aldrei stigið fram opinberlega eða verið nafngreindur í fjölmiðlum.
Auk þessa tiltekna máls greindi blaðið frá öðru tilfelli þar sem starfslokasamningur var gerður við starfsmann sem hafði kvartað undan meintu einelti Hrafnhildar Ástu. Þetta mál var hins vegar ekki hluti af rannsókn ráðuneytisins.
Eignmaðurinn dómari og systirin forseti
Í svari ráðuneytisins kemur fram að Ásdís hafi talið að unnt væri að draga óhlutdrægni hennar í málinu í vafa vegna þess að Aðalsteinn Jónasson eiginmaður hennar er samstarfsmaður Hervarar Þorvaldsdóttur, forseta Landsréttar og systur Hrafnhildar Ástu. Í svarinu kemur fram að í málinu liggi ekki fyrir ótvírætt vanhæfi en að Ásdís Halla hafi samt valið að segja sig frá málinu.
Orðrétt segir í svarinu: „Halla Bragadóttir, ráðuneytisstjóri háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis, lýsti sig vanhæfa í málinu sökum þess að eiginmaður hennar er dómari við Landsrétt og forseti réttarins er systir framkvæmdastjóra Menntasjóðs námsmanna. Vegna þessa taldi Ásdís Halla rétt að lýsa yfir vanhæfi sínu til áskvarðana í máli er varðar kvörtun yfir meintu einelti og áreitni framkvæmdastjórans. Þessi afstaða byggist á tengslum og aðstæðum sem eru til þess fallnar að unnt væri að draga óhlutdrægni í efa. Þrátt fyrir að ekki liggi fyrir ótvírætt vanhæfi í lagalegum skilningi var ákveðið að hæfi í þessu máli skyldi yfir allan vafa hafið.“
Heimildin hefur ekki fengið nánari svör um stöðu málsins í ráðuneytinu.
Athugasemdir