Það er hagkvæmara að leigja íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu nú um stundir en að kaupa, að minnsta kosti ef viðkomandi ætlar sér að fjármagna kaupin með óverðtryggðu láni. Mánaðarlegar greiðslur af slíkum lánum í dag eru allt að 40 prósent umfram leiguverð á svæðinu. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS).
Ástæðan liggur í mikilli hækkun stýrivaxta sem hefur leitt af sér mikla hækkun vaxta á íbúðalánum. Fyrir tæpum þremur árum voru stýrivextir 0,75 prósent en í dag eru þeir 9,25 prósent. Fyrir vikið hafa vextir á óverðtryggðum lánum, sem voru 3,3 til 4,3 prósent í apríl 2021, hækkað gríðarlega og í dag eru nú um og yfir ellefu prósent hjá stærstu viðskiptabönkunum. Fyrir vikið hefur vaxtakostnaður heimila hækkað gríðarlega. Á fyrstu níu mánuðum síðasta ár greiddu þau samtals 91,5 milljarða króna í vexti af lánum sínum. Árið áður voru vaxtagjöldin 59,6 milljarðar króna á sama tímabili. Þau hækkuðu því um 53,5 prósent á milli ára, eða um 31,9 milljarða króna. Búast má við því að þegar árið 2023 verði gert upp í heild muni sú tala verða um 40 milljörðum krónum hærri en á árinu 2022.
Borga rúmlega 100 þúsund meira á mánuði
Í greiningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar kemur fram að sá sem tekur 30 ára óverðtryggt lán fyrir 70 prósent af kaupverði gæti þurft að borga 40 prósentum meira í fyrstu mánaðarlegu afborgun af henni en hann þyrfti að borga í leigu af sambærilegri íbúð á höfuðborgarsvæðinu.
Þar segir að mánaðarleg leiga af 80 fermetra íbúð sé nú um 275 þúsund krónur á mánuði. Greiðslubyrði óverðtryggðs láns fyrir slíka íbúð á svæðinu, að ofangreindum forsendum gefnum, sé hins vegar komin upp í 360 til 390 þúsund krónur á mánuði. „Því er greiðslubyrði óverðtryggðs láns þessa stundina rúmlega 100 þúsund krónum meiri en leiga sambærilegrar íbúðar í hverjum mánuði.“ Það þýðir að greiðslubyrði óverðtryggðra lána á síðustu sex mánuðum hafi verið 130 til 140 prósent af meðalleiguverði á höfuðborgarsvæðinu.
Verðtryggð lán enn með lægri greiðslubyrði
Mikill flótti hefur verið yfir í verðtryggð lán síðustu mánuði og er nú svo komið að meirihluti íbúðareigenda á Íslandi er með slík lán, en hlutfall þeirra hríðféll árin á undan þegar peningar voru afar ódýrir vegna stýrivaxtalækkanna Seðlabanka Íslands, sem ætlaðar voru til að örva hagkerfið á meðan að á kórónuveirufaraldrinum stóð og í kjölfar hans. Þótt meðalgreiðslubyrði verðtryggðra lána hafi hækkað umtalsvert á síðustu árum þá er hún samt sem áður lægri en meðalleiguverð, eða 70 til 80 prósent af því. Á móti gefa þeir sem taka verðtryggð lán eftir eignamyndun sem á sér stað hjá óverðtryggðum lántökum enda leggjast verðbætur ofan á höfuðstól lána í takti við verðbólgu, sem mælist nú 6,7 prósent.
Í greiningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar segir hlutfall greiðslubyrði bæði verðtryggðra og óverðtryggðra lána af meðalleiguverði hafi ekki verið svona hátt í þrettán ár, eða frá upphafi árs 2011.
Í frétt frá 7. febrúar síðastliðnum sem fyrrverandi starfsmaður ykkar skrifar segir:
"Líkt og sjá má á mynd hér að neðan má sjá marktækan mun á verði á fermetra eftir stærð íbúða og er það t.d. yfir 3.500 kr. fyrir tveggja herbergja íbúð á höfuðborgarsvæðinu en undir 2.500 kr. fyrir fjögurra herbergja íbúð á sama svæði."
Samkvæmt verðlagseftirliti Leigjendasamtakanna er fermetraverð á 4ja herb. (70-110fm íbúð) á höfuðborgarsvæðinu í kringum 3.800 kr. eða 52% hærri. Skráðar voru rúmlega 300 auglýsingar um húsaleigu í janúar, þær flokkaðar eftir póstnúmeruim og stærðum. Niðurstöður þess sína að leiguverð er að jafnaði 20-30% hærra en þær tölur sem HMS birtir.
Ásetningur HMS er skýr. "Leigusalar.!..við stöndum með ykkur, þið getið hækkað leigu um 40%... en við munum samt sýna lækkun á vísitölunni því að nú eru engin gögn lengur opinber og við getum framreitt hvað sem er til að styðja okkar framsókn í húsnæðismálum"
HMS er að nota tölur sem eru í engu samræmi við veruleikann gagngert til að viðhalda því narratívi að fullt tilefni sé fyrir hækkunum á húsaleigu. Fjölmiðlar verða að setja filter á svona skaðlegann og einhliða fréttaflutining frá stofnun sem ítrekað gerist sek um að halda frammi sama sjónarhorninu þó að opinberar tölur vitni til um allt annan og skaðlegan veruleika.