„Náttúran á mjög veika rödd í stjórnmálum í dag, bæði á landsvísu og í sveitarstjórnum,” segir Björg Eva Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar. „Í sveitarstjórnum eru talsmenn náttúrunnar gerðir tortryggilegir. Það eru fengin heilu lögfræðiálitin til að kanna hæfi fólks sem er í stjórn náttúruverndarsamtaka.“
Þar vísar Björg Eva sérstaklega sérstaklega til máls í Múlaþingi þar sem sveitarstjórinn, Björn Ingimarsson, fékk lögfræðing til að vinna álit um framtíðarhæfi sveitarstjórnarfulltrúans Ásrúnar Mjallar Stefánsdóttir. Ásrún er fulltrúi Vinstri grænna í sveitarstjórninni. Sveitarstjóranum þótti hins vegar þörf á álitinu vegna formennsku hennar í Náttúruverndarsamtökum Austurlands. „Þarna er verið að rugla með hvað eru hagsmunir,” segir Björg Eva. „Náttúruverndarsamtök eru ekki hagsmunasamtök. Þau eru verndarsamtök fyrir náttúruna.“
Að því er fram kemur í fundargerð sveitarstjórnar Múlaþings frá því í desember síðastliðnum var Ásrún ekki upplýst um að verið væri að vinna álit um hæfni hennar. Í bókun Péturs Heimissonar, sem einnig er fulltrúi VG í sveitarstjórninni, kemur ekki fram í lögfræðiálitinu að Ásrún Mjöll sé mögulega vanhæf vegna fjárhagslegs ábata. „Við teljum ámælisvert frá persónuverndarlögum og lýðræðissjónarmiðum að fulltrúar minnihluta lendi ítrekað til skoðunar vegna mögulegs vanhæfis án þeirra vitneskju.“
Í ítarlegu viðtali við Björgu Evu í Heimildinni segir hún svipaða sögu blasa við víðar. Hún þekki til margra dæma um hótanir og þöggunartilburði í þessu samhengi. Sveitarstjórnarmenn sem eiga sæti í stjórnum náttúruverndarsamtaka séu jafnvel sagðir talsmenn öfgahreyfinga. „Þetta er eitt af því sem náttúruverndarhreyfingin þarf að passa upp á. Við þurfum að passa upp á hvert annað. Þegar það er reynt að ráðast gegn fólki sem er að verja náttúruna sem getur ekki varið sig sjálf þá þurfum við passa upp á það fólk. Þessa framkomu verður að stöðva.“
Hér getur þú lesið viðtalið við Björgu Evu í heild. Í því fer hún yfir pólitíkina og stöðu náttúruverndar á Íslandi.
Þetta virðist ætla að gera með því að sameina Umhverfisráðuneytið öðrum stofnunum sem starfa á öðrum vettvangi er stangast iðulega á við hagsmuni náttúru og umhverfi.