„Náttúruverndin á enga rödd í stjórnmálum lengur“

Græn póli­tík er ekki áber­andi á Al­þingi, að mati Bjarg­ar Evu Er­lends­dótt­ur, sem flutti sig úr stóli fram­kvæmda­stjóra Vinstri grænna til Land­vernd­ar í haust. Í nýja starf­inu tel­ur hún sig geta gert nátt­úru­vernd meira gagn. „Land­vernd er bless­un­ar­lega ekki í rík­is­stjórn­ar­sam­starfi, þar sem hags­mun­ir stór­fyr­ir­tækja eru ráð­andi.“

„Náttúruverndin á enga rödd í stjórnmálum lengur“
Framkvæmdastjóri Björg Eva Erlendsdóttir flaug úr einu starfi framkvæmdastjóra í annað, úr Vinstri grænum og til Landverndar. Hún segir stóra verkefnið framundan að sameina náttúruverndarhreyfinguna á tímum þar sem sótt er að íslenskri náttúru sem aldrei fyrr. Mynd: Golli

Fólk sér stöðuna í loftslagsmálum og sér að hún er ekki góð. Og það sér að stjórnvöld tala eins og það sé hægt að bæta úr henni með mjög miklum framkvæmdum út um allt. Sem er alls ekki raunin. Það er ekki hægt að virkja sig frá loftslagsvandanum. Hins vegar er það eitthvað sem gæti skilað auknum hagvexti til skamms tíma og stjórnvöld horfa mest á það þótt þau segi annað.“

Þannig kemst Björg Eva Erlendsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs og núverandi framkvæmdastjóri Landverndar, að orði um ástæður þeirrar miklu samstöðu sem ríkir meðal fólks sem brennur fyrir náttúruvernd hér á landi. 

„Ég hef aldrei, á öllum þessum árum, litið á mig sem hluta af ríkisstjórnarliðinu“

Þegar hún hóf störf hjá Landvernd í haust, eftir að hafa verið í hringiðu stjórnmálanna í mörg ár, kom það henni skemmtilega á óvart hversu náttúruverndarhreyfingin á Íslandi er fjölmenn og sterk. „Um allt land eru félög fólks á öllum aldri. Sum hafa verið til lengi en undanfarið hafa ný verið að spretta upp. Náttúruvernd er orðin mjög útbreidd hugsjón.“

Og á morgun, laugardag, ætla fulltrúar þessarar fjöldahreyfingar að stilla saman strengi. Þétta raðirnar og kortleggja brýnustu baráttumálin framundan. Bíta í skjaldarenndur? Björg Eva tekur ekki beinlínis undir að verið sé að undirbúa stríð en vissulega sé nauðsynlegt að verjast. Því eitt segir hún víst: Ásókn í náttúruauðlindir Íslands hefur aldrei verið meiri. „Villtustu hugmyndir“ fái undirtektir og athygli séu þær settar fram í nafni loftslagsmála eða ferðaþjónustu. Stjórnvöld hafi enga yfirsýn yfir allt það sem til standi og í ofanálag fari orðið lítið fyrir „grænni pólitík“ á Alþingi. 

Upplýsingaóreiða í boði stjórnvalda

„Þingmenn eru náttúrlega sjálfir að drepa hlutum á dreif,“ svarar hún spurð hvort að kjörnir fulltrúar séu ef til vill fórnarlömb hinnar margumtöluðu upplýsingaóreiðu í þessum efnum, rétt eins og þorri  almennings. „Það er ekki aðeins það að þeir sjái ekki í gegnum upplýsingaóreiðuna, þeir búa hana til.“

Hún heldur áfram: „Náttúruverndin á enga rödd í stjórnmálum lengur. Þess vegna er svo mikilvægt að öll náttúruverndarhreyfingin taki höndum saman.“ 

Björg Eva var þar til fyrir skemmstu framkvæmdastjóri VG, stjórnmálaflokks sem er í ríkisstjórn. Í það starf var hún ráðin árið 2016 eftir að hafa í sex ár stýrt framkvæmd samstarfs vinstri grænna flokka í Norðurlandaráði. Hún hefur því tengst störfum fyrir VG í vel á annan áratug. En náttúruvernd hefur átt hug hennar mun lengur.

„Ég vona að ég geti gert náttúrunni meira gagn hjá Landvernd,“ svarar hún spurð um ástæður vistaskiptanna. „Ég var ekki þátttakandi í ríkisstjórnar pólitíkinni sem framkvæmdastjóri flokksins en nú get ég auðveldar látið í mér heyra. Gert það sem Landvernd og önnur náttúruverndarsamtök vilja. Landvernd er blessunarlega ekki í ríkisstjórnarsamstarfi, þar sem hagsmunir stórfyrirtækja eru ráðandi.“

Segja þarf sannleikann

Og á þessum nýja vettvangi ætlar hún ekki að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur. Til verksins vill hún sameina krafta þeirra þúsunda manna sem eru tilbúnir að berjast fyrir vernd náttúrunnar. „Brýnasta málefnið er að fólk fari að segja hlutina eins og þeir eru,“ segir hún um samráðsfund morgundagsins. „Það verður að hætta að slá ryki í augu fólks með því að segja að virkja eigi til orkuskipta, þegar sannleikurinn er sá að það eigi að virkja fyrir landeldi, gagnaver og allt mögulegt.“

Það mikilvægasta sem náttúruverndin geti sameinast um núna sé að fá réttar upplýsingar fram í sviðsljósið. „Því það er ekki hægt að taka réttar ákvarðanir út frá röngum eða tilbúnum forsendum sem þjóna ákveðnu fyrirtæki og hagvexti.“

Nauðsynlegt sé að fá svör við lykilspurningum áður en áfram verði haldið. Til hvers og fyrir hverja? Þær geta virst einfaldar og oft látið líta þannig út að svörin séu þegar á reiðu. En svo er oft alls ekki. „Fyrst þarf að virkja sannleikann,“ segir Björg Eva. „Virkja staðreyndirnar“.

Skoða allar virkjanahugmyndir með opnum hug

Náttúruverndarhreyfingin horfi fram á veginn og sjái fyrir sér framfarir í víðum skilningi þar sem maðurinn geti lifað í jafnvægi með náttúrunni. Landvernd hafi að hennar sögn skoðað allar virkjunarhugmyndir og aðrar stórframkvæmdir með opnum hug. Annað væri óábyrgt. En þar sem ekki sé hægt að fá upplýsingar um nákvæmlega í hvað raforkan okkar fer í dag og eigi að fara á næstunni „finnst mér ekki tímabært að tala um nýjar virkjanir,“ segir hún. „Á meðan við fáum ekki að vita það þá má kannski segja að það sé samfélagslega ábyrgt að vera á móti öllum nýjum virkjunum.“

Dæmi um stórar framkvæmdir sem áform eru uppi um víðsvegar um landið eru rafeldsneytisverksmiðjur, tugir vindorkuvera, plássfrekar landeldisstöðvar, tómatastóriðja og umfangsmikil námuvinnsla. Tvöföldun gagnavers í Eyjafirði var, svo dæmi sé tekið, samþykkt í vikunni. 

Einhverjir hafa kallað þetta áhlaup á íslenska náttúru og Björg Eva tekur undir það. „Ég hef engan hitt sem fagnar þessu öllu saman. Því er haldið fram að allt sé þetta í þágu loftslagsins. En það er ekki satt.“ 

Þau eru sögð græn og umhverfisvæn. Oft líka sjálfbær. Mörg þessara áforma eru skreytt þessum orðum og hafi að hennar mati þar með týnd upprunalegri merkingu sinni. Þannig sé ekki aðeins hugmyndum í nafni loftslagsins lýst heldur einnig stórkarlalegum áformum um uppbyggingu fyrir ferðamenn.

„Til stendur að nema lönd alls staðar í hagnaðarskyni,“ segir Björg Eva. „Meira að segja inni á hálendi. Byggja hótel. Gera baðlón. Leggja fleiri og meiri vegi. Svo að hingað komi enn fleiri ferðamenn. Það er sagt  nauðsynlegt til að skapa gjaldeyri og byggja samfélagið upp.“ 

Sá mikli fjöldi ferðamanna sem þegar streymi hingað til lands árlega valdi álagi á alla innviði - þótt margir reyni að skella þeirri skuld nær eingöngu á flóttafólk. Það er að mati Bjargar Evu enn eitt dæmið um upplýsingaóreiðuna.

Náttúruverndarfólk gert að óvinum loftslagsins

Fyrir nokkrum árum varð viðsnúningur í umræðunni um umhverfismál. Allt í einu varð eitthvað til sem kallað er loftslagsmál og á sama tíma segir Björg Eva náttúruverndina hafa verið gerða að aðalóvini loftslagsins. „Það er ein ástæðan fyrir mikilvægi þess að allir umhverfissinnar vinni saman og sjái út úr þessari þoku sem er búið að skapa. Því í þokunni er reynt að etja hreyfingum saman.“  Hún tekur dæmi um rangfærslurnar í umræðunni: „Þið viljið ekki þessa virkjun. Þið eruð á móti loftslaginu. Þið eruð á móti því að bjarga jörðinni.“ Þannig sé þetta teiknað upp. „En er auðvitað alrangt.“ 

ÁhlaupiðNáttúran og almenningur er að mati Bjargar Evu ekki í forgrunni þeirra fjölmörgu verkefna sem áformuð eru á Íslandi, verkefna sem mörg hver eru kennd við loftslagsmál.

Hún segist ekki hissa á því því að þessi staða sé komin upp. Hins vegar segir hún það vissulega skjóta skökku við að metnaðarfull markmið íslenskra stjórnvalda um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda séu látin líta út fyrir að vera kveikjan að þeirri miklu framkvæmdagleði sem nú ríki. „Þessi markmið ættu að vera kveikjan að einhverju öðru. Þau ættu að verða kveikjan að betri upplýsingum og betur ígrunduðum ákvörðunum líka.“ 

Hver bað um baðlón á hálendinu?

En ef áhlaup er hafið á náttúruna, hvað hrinti því eiginlega af stað?

„Þetta er markaðsdrifið,“ svarar Björg Eva. „Hugsunin er ekki í þágu almennings og náttúrunnar.“ Hugsunin sé í þágu stórfyrirtækja. 

„Það er eins og hver einasti sveitarstjóri telji það skyldu sína að breyta sveitinni sem hann stjórnar í borg,“ segir hún um þau allra handa uppbyggingaráform tengd ferðaþjónustu og öðrum greinum sem dregin hafi verið fram í dagsljósið. Dæmi séu um lítil sveitarfélög sem ætli sér að margfalda umsvif og íbúafjölda á stuttum tíma. „Baðlón í hvern dal. Hótel og spa. Þetta á allt að vera svo rosalega stórt og teygja sig inn á hálendið. Ef aðeins brot af þessum hugmyndum yrði að veruleika þá værum við með gjörbreytt samfélag. Og ég veit ekki hver hefur beðið um þetta. Það fólk sem ég þekki og býr í sveit, það býr þar einmitt af því að það vill búa í sveit.“ 

Stjórnleysi er að hennar mati einkennandi og gæðastjórnun yfirvalda engin. „Einhver fær villta hugmynd og þá er hafist handa við að skipuleggja hana.“ Dæmi um slíkt séu öll þau vindorkuver sem eru á teikniborðinu. Vissulega verði þau aldrei öll að veruleika. „En það er samt sem áður verið að leggja þrotlausa vinnu í þetta þótt mörg þessara áforma séu rugl, leyfi ég mér að segja.“

Af hverju farið sé af stað af svo miklu kappi og með miklum tilkostnaði sé illskiljanlegt. „En það er alveg greinilegt að þarna eru fyrirtæki og fjárfestar að merkja sér svæði. Og þeim virðist auðvelt að kjafta sig inn á oddvita í sveitarstjórnum og fá svæði undir nánast hvað sem er.“

Hættuspil að auka vald sveitarfélaga

Það sé staðreynd að sveitarstjórnir hafi margar hverjar ekki burði til að takast á við jafn stór verkefni og nú eru komin á þröskuldinn hjá þeim. Enda séu það oft framkvæmdaaðilarnir sjálfir sem sjái um allt mat, alla kynningu og gerð skipulagstillagna. „Að einfalda og stytta ferla til að hraða framkvæmdum ennþá meira og gefa sveitarfélögum aukið vald, eins og nú er mikið talað um, finnst mér hljóma eins og mikið hættuspil. Það þyrfti að minnsta kosti að vera einhvers staðar samræming, yfirsýn. Hún er ekki til staðar í dag.

Vitum við til dæmis hversu miklum náttúruverðmætum við erum að tapa á hverju ári? Dag frá degi? Það er margt sem ákveðið er í sveitarfélögum sem kemur aldrei inn á borð stjórnvalda á landsvísu. Hvernig eigum við að vita hvert landið er að fara?“

Þetta er einmitt eitt af því sem Björg Eva vill sjá náttúruverndarfólk sameinast um. Að góð yfirsýn fáist yfir allar framkvæmdir og áform í landinu, að það sé samræmi, vitneskja, forgangsröðun, stefna og sýn. 

„En við höfum í raun ekki sagt að við séum á móti neinu. Við viljum hins vegar vita til hvers standi til að gera þessa hluti og fyrir hverja. Að samþykkja allan fjandann, án þess að vita það, getur ekki verið í þágu annarra en þeirra sem ætla að græða á því.“

Getum ekki séð um orkuskipti heimsins

Enginn greinarmunur virðist að mati Bjargar Evu gerður á orkufrekum framkvæmdum til útflutnings á rafeldsneyti og framkvæmdum sem eigi að styðja við innlend orkuskipti. Það sé ágætt dæmi um upplýsingaóreiðu sem greiða þurfi úr. „Ætlum við að sjá um orkuskipti heimsins? Við getum ekki gert það.“ 

Tala þurfi skýrt og greinilega við hvað er átt en byrja þó á því að tryggja almenningi raforku líkt og Guðlaugur Þór Þórðarson, ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála, hyggst gera. „Einhverjir segja það ekki hægt, að orka sé á markaði og ekki hægt að taka einn hóp fram yfir annan. En það er víst hægt,“ segir Björg Eva með áherslu. „Og það á að gera það.“  

Annað gott dæmi um upplýsingaóreiðuna sé þegar talað er um að fiskimjölsbræðslurnar þurfi að brenna olíu út af því að það sé orkuskortur. „Þær kaupa ekki forgangsorku. Þess vegna þurfa þær að brenna olíu,“ segir Björg Eva. „Á þetta hefur ítrekað verið bent. En áfram er þessu haldið fram. Hreinum lygum vil ég meina.“ 

Stundum spila stjórnvöld með

Á sama tíma og talað hafi verið um neyðarástand í orkumálum, að engin orka væri fyrir hendi til orkuskipta, hafi verið sótt um tvöföldun á gagnaveri í Eyjafirði og um nýtt gagnaver sem ætlar sér að stunda eingöngu rafmyntagröft. „Það gengur ekki að fólk segi að það sé brjálæðislegur orkuskortur því það sé ekki til orka í fimmtánda rafmyndaverið.“ Engar upplýsingar fáist um það hversu stór hluti af gagnaverum sé enn í rafmyntavinnslu. „Það er óþolandi,“ segir Björg Eva. „Við viljum ekki heyra minnst á orkuskort á meðan við fáum ekki að vita í hvað orkan sem nú er virkjuð fer og á meðan orka fer til spillis í miklum mæli líkt og sýnt hefur verið fram á.“ 

„Við vitum um hagsmuni tiltekinna stjórnmálaflokka og manna inn í stórfyrirtæki í landinu, fyrirtæki sem velta miklu.“

Þú talar um að þessi upplýsingaóreiða sé í boði stjórnvalda, er hún vilja verk eða ómeðvituð?

„Ég held að það sé blanda af báðu. Þegar ásóknin í náttúruauðlindir er orðin eins og hún er núna þá held ég að það sé ekki auðvelt fyrir þessa 63 einstaklinga á alþingi að fá almennilega yfirsýn. En svo held ég líka að stundum spili stjórnvöld með og séu í liði með þessum fyrirtækjum. Það er pínulítið ískyggilegt hversu margir stjórnmálamenn fara beint í hagsmunabaráttu fyrir fyrirtæki þegar þeir hætta á þingi.“ 

Finnst þér það vísbending um að tengsl stjórnmálanna og fyrirtækjanna séu mikil?

„Já, það finnst mér. Við vitum um hagsmuni tiltekinna stjórnmálaflokka og manna inn í stórfyrirtæki í landinu, fyrirtæki sem velta miklu.“

Hvað ertu að tala um þar?

„Við getum nefnt fyrirtæki nátengt stjórnmálamönnum, kvótaeigendur, sem haslar sér völl í atvinnugreinum óskyldum sjávarútvegi, eins og ferðaþjónustu. Við getum nefnt Kynnisferðir. Svo veit ég ekki betur en fyrrverandi stjórnmálamenn séu komnir í það hlutverk að tala fyrir laxeldið og vindorkuna. Við höfum líka séð þetta í virkjanamálum. Dæmi um sveitarstjóra sem fóru beint í vinnu hjá álfyrirtækjum þegar þeir voru búnir að greiða götu þeirra.“

RíkisstjórnarsamstarfiðBjörg Eva segist hafa séð hætturnar í stjórnarsamstarfi Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. En fyrra kjörtímabilið hafi verið sérstakt, og gengið betur en hún hafði búist við. Aðra sögu sé að segja um síðara tímabilið.

Rétta leiðin 

Þú hefur undanfarin ár gegnt starfi framkvæmdastjóra Vinstri grænna og verið meðal innstu koppa í búri á þeim bæ. Hvernig hefur þetta ferðalag inn í Landvernd verið, samtaka sem hafa m.a. það hlutverk að veita stjórnvöldum aðhald? Var ekki flókið að fara þarna á milli? 

„Mér fannst það fínt. Og ég vissi að þetta væri rétta leiðin fyrir mig. Á sínum tíma fór ég inn í VG, ekki síst af því að hann var grænn flokkur. Svo finnst mér að græn pólitík þurfi að vera pólitík jöfnuðar. Þannig að persónulega sé ég ekki að hægri stefna sem trúir á markaðinn geti verið raunhæfur möguleiki.“

Hvernig hugnaðist þér þá þetta ríkisstjórnarsamstarf Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks þegar það var ákveðið?

„Ég sá alveg hætturnar í því. En svo var þetta svo sérstakur tími. Með covid og öllu því. Þannig að samstarfið gekk nú betur en ég hafði búist við. Þá er ég að tala um fyrra kjörtímabilið. En svo hefur nú leiðin ekki legið upp á við eins og allir sjá.“

Hefur þetta samstarf og það sem út úr því hefur komið verið vonbrigði fyrir þig sem hefur lengi tengst náttúruvernd, málefni sem VG hefur allt frá stofnun sett á oddinn?

„Mig hefur alltaf langað til að vera á þeim stað að geta unnið í þessum grænu málum. Að vera framkvæmdastjóri flokks snýst að mörgu leyti um að reka skrifstofu og tala við fólk. Það er margt gott grænt fólk í VG en það hefur mismikil áhrif á ríkisstjórnina. Ég hef aldrei, á öllum þessum árum, litið á mig sem hluta af ríkisstjórnarliðinu. Ég horfði til grasrótar flokksins. Á stefnu flokksins og framtíðarsýn. En öll aðlögun að ríkisstjórnarstefnunni - ég lét hana nú bara framhjá mér fara.“

Hálendisþjóðgarður og ferðamannaofbeitin

Grasrótin hefur nú einmitt verið gagnrýnin á þetta samstarf og að stór mál VG hafi ekki komist í gegn. Við getum nefnt hálendisþjóðgarðinn. Heldurðu að hann verði að veruleika í þessu stjórnarsamstarfi?

„Nei, það held ég alls ekki. En ég held að hann verði einhvern tímann að veruleika ef fólkið í landinu krefst þess. Mín tilfinning er sú að miklu fleiri vilji hálendisþjóðgarð í dag heldur en þegar reynt var að koma honum á fyrir nokkrum árum. Þá tókst nú andstæðingum hans að egna einum hópi upp á móti öðrum í mengi sem þó á sameiginlega hagsmuni. Bændur, sveitarstjórnir og jeppamenn risu upp. En ég lít svo á að náttúruverndin eigi mjög mikla samleið með þeim sem nýta náttúruna á hefðbundinn hátt, hálendið líka. 

Vissulega hefur á köflum verið ofbeit sauðfjár og gengið hart að hálendinu. En það er mun auðveldara að ganga í takt með þessum hefðbundnu nytjum heldur en öllu því sem er að skella á núna. Ferðamannaofbeitin er langtum stórkostlegri. Baðlón við Bárðarbungu og í Landmannalaugum er dæmi um eitthvað sem bændum dytti nú ólíklega í hug. Að þær tryllingslegu hugmyndir kæmu fram var þó ef til vill ekki alslæmt því fólk hrökk við og spurði: Viljum við þetta? Þetta skapaði meiri samstöðu.

Náttúruverndin, bændur og útivistarfélög: Þetta eru allt saman hópar sem þurfa að taka sig saman og passa hálendi Íslands. Og ég veit að allt þetta fólk vill það. Það veit hvað er í húfi.“

Ekki andstaða við allar virkjanir

Vindorkuver, með vindmyllum sem ná jafnvel 200 metrum í hæstu stöðu, eru áformuð um allt land. Sum eru áformuð innan miðhálendislínunnar, eins og Búrfellslundur, og önnur á fjöllum og heiðum ofan við sveitir landsins. 

„Það er mjög margt sem er vont við Hvammsvirkjun. Hún er skólabókardæmi um ákveðið ofbeldi í garð fólks og náttúru“

Nýverið voru kynnt drög að stefnu og frumvarpi um nýtingu vindorku á Íslandi og í greinargerð starfshópsins sem fór fyrir þeirri vinnu kemur ítrekað fram að eigi Ísland að ná því lögbundna markmiði að verða kolefnishlutlaust innan fárra ára verði vindorka að vera hluti af lausninni. Björg Eva segist ekki geta tekið afstöðu til þeirrar fullyrðingar þar sem upplýsingar um í hvað orkan sem þegar er framleidd fari og í hvað eigi að nota þá orku sem áhugi er á að afla til viðbótar. 

„Landvernd hefur ekki lýst yfir andstöðu við öll vindorkuver sem hugsanlega komast á kortið í framtíðinni. Ekki frekar en aðrar virkjanahugmyndir. Það væri óábyrgt af því að við vitum ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. Við segjum hins vegar: Þetta fer eftir því í hvað orkan á að fara, hvar orkuverin eiga að vera, hverju þau myndu spilla.“ 

Margt vont við Hvammsvirkjun

Þú segir að Landvernd vilji ekki slá einstaka virkjunarkosti alfarið út af borðinu en þú hefur persónulega gagnrýnt Hvammsvirkjun. Þú átt rætur í þeirri sveit og ert meðal stofnanda samtaka sem barist hafa gegn virkjuninni. Hvað er svona ómögulegt við Hvammsvirkjun?

„Það er mjög margt sem er vont við Hvammsvirkjun. Hún er skólabókardæmi um ákveðið ofbeldi í garð fólks og náttúru. Það hefur komið fram rosalega mikil andstaða við hana frá fyrstu tíð þótt öðru hafi stundum verið haldið fram af stjórnmálamönnum. Á einhverjum tímapunkti fannst um 90 prósentum landeigenda við ána þetta slæm hugmynd. En það var legið í fólki til að fá það til að semja. 

Vinnubrögðin í kringum þetta allt sýndu mér að náttúruverndarbarátta og mannréttindi eru nátengd. Í þessu máli hefur margsinnis verið notað orðið mútur sem aðrir kalla liðkunarfé og enn aðrir mótvægisaðgerðir. Mér er svo sem alveg sama hvað þetta er kallað. Í gegnum árin hefur verið reynt að freista sveitarstjórna með því að gera hluti fyrir sveitirnar sem koma þessari virkjun ekki neitt við. Brú hér og farsímasamband þar.

Þannig verða sveitarstjórnir stundum viðskila við almenning. Því þær þurfa oft peninga. Allt þetta ferli hefur verið þannig að um Hvammsvirkjun getur aldrei orðið sátt og það liggja margir sárir eftir. Fólk hefur misst spón úr sínum aski. Fólk hefur misst vinnu.

Vissulega geta alls konar mótvægisaðgerðir sem framkvæmdaaðilar bjóða hagnast ákveðnum svæðum eða einstaklingum. Og það er skiljanlegt að þeim sé tekið af þeim sökum. En svona vill maður ekki að framkvæmdir séu undirbúnar.“ 

Hún segir andrúmsloftið í kringum Hvammsvirkjun er ekkert ólíkt því sem var í kringum Kárahnjúkavirkjun á sínum tíma. „Þetta hefur farið mjög illa með nærsamfélögin. Hvammsvirkjun yrði bókstaflega inni í samfélaginu. Hún yrði í hlaðinu hjá fólki. Það er nýtt að byggja svo stóra virkjun í byggð.“ 

Það kom henni á óvart að heyra stjórnmálamenn gera lítið úr lögum þeim sem úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál sagði framkvæmdina ekki í samræmi við. Lög um stjórn vatnamála séu lög, líkt og hver önnur. Kærur og úrskurðir og álit stofnana hafi verið kallaðar „tafaleikir“. „Við í náttúruverndinni hljótum alltaf að passa upp á að það sé farið eftir lögum. Og það finnst mér að stjórnmálamenn ættu að vera með okkur í að passa.“ 

Ertu að tala um VG sérstaklega í því samhengi?

„Ég er ekki að gera það. Ég er að tala um þá sem hafa talað fyrir einföldun ferla og þá sem hafa talað eins og þessi úrskurður sé einhver óþarfa töf. VG hefur ekki talað þannig en flokkurinn samþykkti vissulega Hvammsvirkjun í nýtingarflokk rammaáætlunar.“

Hvernig tilfinning var það?

„Hún var ekki skemmtileg. Og ég sagði mínum félögum það. Ég skrifaði  umsögn, mjög reiðilega, sem var vitnað til úr ræðustól Alþingis. Og mér var bent á að ég hefði getað sofið á.“

Einnig var samþykkt að setja Holta- og Urriðafossvirkjun, tvær aðrar virkjanir í neðri hluta Þjórsár, í biðflokk sem nú eftir ítarlega skoðun er lagt til að fari í nýtingarflokk. „Þá verðum við komin með virkjanaþrennu í byggð og það er algjörlega óþolandi. Þetta yrði ofboðsleg breyting á heilli sýslu, tveimur jafnvel. Fólk beggja vegna Þjórsár er verulega ósátt.“ 

Lón og stíflurLandsvirkjun hefur í fleiri ár stefnt að því að reisa Hvammsvirkjun í neðri hluta Þjórsár. Neðar í ánni áformar fyrirtækið svo tvær virkjanir til viðbótar.

Græna pólitíkin ekki áberandi

 Ertu með einhver skilaboð til þinna gömlu félaga í VG?

„Ég er með skilaboð til þeirra og annarra líka: Takið virkari þátt í náttúruverndarhreyfingunni. Þá sjáið þið hvað í húfi er. Við búum yfir mjög miklum upplýsingum, höfum innanborðs fjölbreyttan hóp sérfræðinga úr ýmsum áttum. Komið í Landvernd af fullum þunga - það eru mín skilaboð!

Píratar hafa verið einna mest áberandi í Landvernd upp á síðkastið og nokkrir úr Samfylkingunni og fáeinir úr VG. En að mínu viti ættu miklu fleiri úr stjórnmálunum að taka virkan þátt í Landvernd. Og tala máli náttúruverndar. Að taka undir með náttúruverndinni. Það eiga allir grænir flokkar að gera og grænt stjórnmálafólk. Það þarf að standa við hliðina á okkur.“ 

Finnst þér þau ekki hafa gert það?

„Nei, mér finnst það ekki. Mér finnst græn pólitík ekki vera áberandi inni á Alþingi. Það er einn og einn stjórnmálamaður sem talar fyrir vernd náttúrunnar. Matvælaráðherra hefur stigið þó fram með nýjar umhverfisáherslur en mætt mikilli andstöðu samstarfsflokka. 

Þingmenn Vinstri grænna telja sig væntanlega í þeirri aðstöðu að þurfa að fara varlega áður en þeir tjá sig um eitthvað sem þeirra ríkisstjórn er að hrinda í framkvæmd.“

Samstarfið skaðlegt náttúruverndinni

Telur þú þetta ríkisstjórnarsamstarf beinlínis hafa verið skaðlegt fyrir náttúruverndina?

„Já. Ríkisstjórnin hin fyrri var ekki skaðleg fyrir náttúruverndina þótt að hálendisþjóðgarðurinn, sem þá var á dagskrá, yrði ekki að veruleika. En í tíð hennar sást að verið var að vinna í umhverfismálum, það var verið að reyna að efla umhverfisvernd á ýmsan hátt. Þannig að það tímabil var ekki afleitt, þótt ekki gengi nú nærri allt upp. En þannig er það nú.

En seinna tímabilið er allt öðruvísi. Eftir að auðlinda-, orku- og umhverfisráðuneyti var slegið saman, þykir mörgum að umhverfisráðuneytið hafi beinlínis horfið. En líka vegna þess að nú snýst þetta miklu meira um að þeir sem gerðir hafa verið ábyrgir fyrir allri sjálfbærninni og náttúruverndinni eru fyrirtæki. Ég trúi ekki á það fyrirkomulag. Fyrirtækjum þarf að veita aðhald frekar en að færa þeim einhverja sjóði svo að þau geti sjálf skilgreint sig sjálfbær með grænar lausnir. Þetta er hreinlega stórhættulegt og komið á vondan stað. Og það er ekki aðeins gagnrýni á Guðlaug Þór. Það er gagnrýni á allt heila batteríið. Alla ríkisstjórnina. Í rauninni allt alþingi líka. Því þótt að það heyrist í einum og einum þingmanni þá er það ekki nóg.

„Þegar það er reynt að ráðast gegn fólki sem er að verja náttúruna sem getur ekki varið sig sjálf þá þurfum við passa upp á það fólk“

Náttúran á mjög veika rödd í stjórnmálum í dag. Bæði á landsvísu og ekki í sveitarstjórnum. Í sveitarstjórnum eru talsmenn náttúrunnar gerðir tortryggilegir. Það eru fengin heilu lögfræðiálitin til að kanna hæfi fólks sem er í stjórn náttúruverndarsamtaka.“

Þar vísar Björg Eva sérstaklega til máls í Múlaþingi en segir svipaða sögu blasa við víðar. „Þarna er verið að rugla með hvað eru hagsmunir. Náttúruverndarsamtök eru ekki hagsmunasamtök. Þau eru verndarsamtök fyrir náttúruna.“  

Hún þekkir til margra dæma um hótanir og þöggunartilburði í þessu samhengi. Sveitarstjórnarmenn sem eiga sæti í stjórnum náttúruverndarsamtaka séu jafnvel sagðir talsmenn öfgahreyfinga. „Þetta er eitt af því sem náttúruverndarhreyfingin þarf að passa upp á. Við þurfum að passa upp á hvert annað. Þegar það er reynt að ráðast gegn fólki sem er að verja náttúruna sem getur ekki varið sig sjálf þá þurfum við passa upp á það fólk. Þessa framkomu verður að stöðva.“

Kjósa
39
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (5)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár