Þessi grein birtist fyrir rúmlega 8 mánuðum.

Halda áfram undirbúningi metan- og vetnisverksmiðju á Reykjanesi

Ít­rek­uð eld­gos og jarð­skjálfta­hrin­ur hafa ekki gert að­stand­end­ur áform­aðr­ar met­an- og vetn­is­verk­smiðju á Reykja­nesi af­huga því að halda und­ir­bún­ingi henn­ar áfram. Gas­lögn neð­anjarð­ar milli Svartseng­is og Reykja­nes­virkj­un­ar er með­al fram­kvæmda­þátta og loka­af­urð­in, ra­feldsneyti í formi fljót­andi met­ans, yrði flutt úr landi.

Er starfsmenn Skipulagsstofnunar voru að vinna að áliti sínu á umhverfismatsskýrslu um áformaða metan- og vetnisframleiðslu á Reykjanesi spurðu þeir framkvæmdaaðilann hvort hann vildi halda áfram með ferlið „eins og ekkert hefði í skorist“ eða doka við og setja málið „í biðstöðu þar til málin hafa skýrst“.

Þetta var í lok nóvember. Öflug jarðskjálftahrina hafði staðið frá því í október og aðeins nokkrum dögum áður en stofnunin sendi fyrirspurnina hafði verið tekin sú ákvörðun að rýma Grindavíkurbæ. Sagði starfsmaður stofnunarinnar að „vegna atburða við Svartsengi og Grindavík“ væri „ástæða til að hugleiða hvort og þá hvernig tilhögun framkvæmdarinnar breytist vegna breyttra aðstæðna“.

Svar barst sama dag. „Afstaða framkvæmdaaðila er sú að halda málinu áfram eins og áætlað var. Ef aðstæður breytast seinna þá myndum við takast á við það og þá hvaða leiðir væru fýsilegar og hverjar yrðu fyrir valinu.“ Að óbreyttu væri vilji ráðgjafa og framkvæmdaaðila sá að ljúka umhverfismati fyrir áramót.

Og það var gert. Rétt fyrir jól gaf Skipulagsstofnun út álit sitt á umhverfismatsskýrslunni. Nordur PTX Reykjanes, fyrirtækið sem áformar byggingu metan- og vetnisverksmiðju í þeim tilgangi að framleiða rafeldsneyti til útflutnings, er þar með einu skrefi nær því að geta hafið framkvæmdir. Ef allt væri eðlilegt.

En allt er ekki eðlilegt.

„Tímabil eldvirkni er hafið en engin leið er að spá fyrir um hversu lengi það stendur eða hvar virknin verði mest eða hvort og þá hvar gosefni berist til yfirborðs þegar jörð skelfur.“
Úr áliti Skipulagsstofnunar á framkvæmdinni

Aðeins þremur dögum áður en Skipulagsstofnun gaf út álit sitt hófst eldgos í Sundhnúksgígaröðinni. Því lauk fljótt en mikið landris hófst þegar í stað við Svartsengi, þaðan sem til stendur að flytja helsta hráefnið, koltvísýring, til framleiðslunnar með neðanjarðarleiðslu að auðlindagarði Reykjanesvirkjunar þar sem sjálf verksmiðjan yrði byggð. Einnig hefur komið til greina að byggja gashreinsistöð verksmiðjunnar við Svartsengi þótt aðalvalkostur fyrirtækisins sé að hafa hana í auðlindagarðinum við Reykjanesvirkjun.

„Afstaða framkvæmdaaðila er óbreytt frá því sem fram kemur í svörum til Skipulagsstofnunar,“ sagði fulltrúi Nordur PTX í svari við fyrirspurn Heimildarinnar þann 10. janúar. „Líkur á jarðhræringum og eldsumbrotum á Reykjanesskaga hafa legið fyrir frá upphafi verkefnisins og verður undirbúningi þess haldið áfram samkvæmt áætlun og að teknu tilliti til þeirrar áhættu,“ sagði enn fremur í svarinu.

Varnargarðar voru reistir með hraði umhverfis virkjun HS Orku í Svartsengi til að freista þess að verja hana hraunrennsli ef til enn eins eldgossins á þessum slóðum kæmi.

Og þeirri framkvæmd var ekki lokið er jörðin opnaðist enn á ný. Að morgni sunnudagsins 14. janúar hófst eldgos suðaustan við Hagafell, í  innan við 3 kílómetra fjarlægð frá orkuverinu í Svartsengi.

Fimm eldgos hafa orðið á Reykjanesskaga á þremur árum og telja margir vísindamenn að eldgosatímabil, sem gæti staðið í nokkra áratugi, sé hafið. Að Reykjanesskaginn sé „vaknaður“ af 800 ára blundi. Síðasta gostímabil varði í nær þrjár aldir. Á skaganum eru fimm eldstöðvakerfi sem þó eru samtengd. Þau hafa yfirleitt ekki verið virk samtímis heldur hefur gosvirkni flust á milli þeirra eitt af öðru. Vestasta kerfið er kennt við Reykjanesið sjálft og það austasta við Hengil.

Í upphafi viku spurði Heimildin Nordur PTX aftur hvort áformin hefðu breyst í ljósi enn eins eldgossins þar sem gossprungur opnuðust á tveimur stöðum, mikil gliðnun mældist í Grindavík og fjallið Þorbjörn færðist um 20 sentímetra á nokkrum klukkustundum. „Svör þeirra eru óbreytt frá síðustu viku“, var svarið. Sem sagt: Áfram verður haldið með undirbúning verksmiðjunnar.

En hvað er það nákvæmlega sem Nordur PTX Reykjanes ehf., sem er í eigu svissnesks félags, hyggst gera og hvar?

Í jarðvarmavirkjuninni í Svartsengi verður til það sem kallast afgas og er ríkt af koldíoxíði (CO2). Koldíoxíð er gróðurhúsalofttegund og til mikils er að vinna að lágmarka slíkan útblástur á heimsvísu í þeirri viðleitni að stemma stigu við áhrifum manna á loftslag jarðar. Það sem Nordur PTX vill gera er að nýta afgasið til framleiðslu á fljótandi metangasi sem aftur yrði nýtt sem rafeldsneyti á mörkuðum erlendis. Íslensk mengun (CO2), íslensk orka og íslenskt vatn yrði með þessum hætti flutt úr landi til að draga úr mengun annars staðar.

Gasið yrði, samkvæmt aðalvalkosti fyrirtækisins, flutt með neðanjarðarlögn frá Svartsengi að iðnaðarsvæði við Reykjanesvirkjun sem er vestarlega á Reykjanesskaga. Þar yrði reist verksmiðja  sem þyrfti 56 MW afl til að framleiða gastegundirnar metan og vetni. Sú orka á að koma úr virkjunum HS Orku í nágrenninu.

Fyrirtækið leggur fram fleiri valkosti í mati sínu á umhverfisáhrifum, m.a. að gashreinsistöð verksmiðjunnar verði byggð í Svartsengi en ekki við Reykjanesvirkjun og að meðhöndlað gas verði flutt þaðan og til verksmiðjunnar eftir neðanjarðarlögn eða í flutningabílum.

Forsendubreytingar

„Ekki er hægt að neita því að nýlegar jarðhræringar á Reykjanesi munu hafa áhrif á hvernig lagt er mat á einstaka matsþætti umhverfismatsins,“ sagði í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands. „Nú þegar er nær öruggt að forsendubreytingar hafi orðið á skipulagi framkvæmdarinnar vegna jarðhræringanna og almennt mat jarðvísindamanna að hafið sé nýtt eldsumbrotatímabil á Reykjanesskaga sem getið staðið yfir í tugi ára.“

Stofnunin benti einnig á að ekki væri nóg að mannvirki verksmiðjunnar myndu standast jarðskjálfta heldur þurfi að taka tillit til gliðnunar og jarðsigs sem tengst hafa ítrekað jarðhræringum síðustu missera. „Þó Reykjanessvæðið sé eldvirkt svæði sé talið einstaklega ólíklegt að hraun komi upp beint undir verksmiðjunni eða þá að hraun renni þar yfir“, sagði í svörum Nordur PTX.

ReykjaneseldarEldstöðvakerfin á Reykjanesi gjósa yfirleitt ekki samtímis en sagan segir okkur að þau tengist og gjósi eitt af öðru þegar gostímabil ganga yfir á 900-800 ára fresti.

Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands bentu í sinni umsögn á að vissulega ætlaði fyrirtækið sér að nýta koldíoxíð til framleiðslunnar sem í dag færi óhindrað út í andrúmsloftið frá Svartsengi. En í staðinn yrði framleitt metan sem sé margfalt sterkari gróðurhúsalofttegund. „Ef slys yrði og metan læki út í andrúmsloftið væri skaðinn fljótt meiri en ávinningurinn.“

Nordur PTX segir að útbúin hafi verið viðbragðsáætlun sem farið yrði eftir ef náttúruvá ógnaði öryggi á lóð verksmiðjunnar, sér í lagi vegna sprengifimra efna. Með þeim aðgerðum séu eld- og sprengifim efni að mestu leyti fjarlægð úr verksmiðjunni og öryggi starfsmanna tryggt.

Tímabil eldvirkni er hafið

Umhverfisstofnun sagði í umsögn sinni mikilvægt að gera grein fyrir áhrifum mögulegs hraunrennslis á hina áformuðu gaslögn „í ljósi yfirstandandi atburða á Reykjanesi“.

Framkvæmdaaðili svaraði þessu á þann hátt að engin umhverfisleg áhætta fælist í því ef gas frá Svartsengi kæmist ekki til verksmiðjunnar, aðeins rekstrarleg. Þá væri mögulega unnt að nýta afgas frá Reykjanesvirkjun í staðinn þótt slíkt væri kostnaðarsamt og myndi draga úr framleiðslu.

„Ítrekuð eldgos, jarðskjálftar og kvikuhlaup sem urðu til þess að rýma þurfti Grindavíkurbæ þann 11. nóvember sl. eru afgerandi áminning um virkni svæðisins“, sagði í áliti Skipulagsstofnunar sem gefið var út í lok desember. „Tímabil eldvirkni er hafið en engin leið er að spá fyrir um hversu lengi það stendur eða hvar virknin verði mest eða hvort og þá hvar gosefni berist til yfirborðs þegar jörð skelfur.“

Jarðhræringarnar kunni að leiða til þess að Nordur PTX þurfi að breyta tilhögun framkvæmdarinnar á einhvern máta og minnir stofnunin á að þá gæti fyrirtækið þurft að gera nýtt mat á umhverfisáhrifum.  

Kjósa
9
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (2)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • TM
    Tómas Maríuson skrifaði
    Það mætti gjarnan fjalla meira um þetta fyrirtæki og leita eftir áliti fróðra manna.
    Ég er að velta fyrir mér:
    Það þarf orku til að breyta koltvísýringi í metan. Þurfum við þessa orku ekki frekar til orkuskipta hér heima?
    Með þessu ferli hverfur koltvísýringurinn ekki, það er bara einu þrepi skeytt inn á milli. Á endanum verður metanið brennt og þá losnar kolefnið endanlega út í lofthjúpinn. Hvar er ávinningurinn fyrir umhverfið? Er þetta ekki bara grænþvottur?
    Nú, skuli samt vera vit í þessu, af hverju að flytja metanið út? Við erum með nægilega stóran skipaflota sem gæti notað þetta metan til orkuskipta í eigin landi.
    Einnig væri hugsanlegt að landbúnaðurinn noti metan fyrir tækin sín, hvernig líta orkuskiptin út í þeim geira?.
    Hvað er áætlaða framleiðslan mikil miðað við hugsanlega innlenda eftirspurn (eftir orkuskiptin)?
    Og enn og aftur hangir í lofti að flytja verulegt magn með vörubílum ("meðhöndlað gas verði flutt þaðan og til verksmiðjunnar eftir neðanjarðarlögn eða í flutningabílum."). Erlendis virðist fyrsti kosturinn og sá hagkvæmari vera sá að flytja gas eða vökva með leiðslum. Eru álagningar á vörubíla hér á landi kannski of lág? Væri hægt að setja skilyrði að nota ekki flutningabíla fyrir slíka starfsemi? Mér er í því samhengi einnig hugsað til sementsverksmiðjunar við Þórlákshöfn.
    2
  • Gunnar Björgvinsson skrifaði
    Hvar á þetta fyrirtæki að fá orku? Nýverið var verið að skerða orku til stórnotenda??
    1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Jarðhræringar við Grindavík

Íbúum leyft að dvelja næturlangt í Grindavík þótt lögreglan mæli ekki með því
FréttirJarðhræringar við Grindavík

Íbú­um leyft að dvelja næt­ur­langt í Grinda­vík þótt lög­regl­an mæli ekki með því

Frá og með morg­un­deg­in­um verð­ur íbú­um og fólki sem starfar hjá fyr­ir­tækj­um í Grinda­vík heim­ilt að fara í bæ­inn og dvelja þar næt­ur­langt. Í ný­legri frétta­til­kynn­ingu lög­reglu­stjór­ans á Suð­ur­nesj­um er greint frá þessu. Íbú­ar eru þó var­að­ir við að inn­við­ir bæj­ar­ins séu í lamasessi og sprung­ur víða. Bær­inn sé því ekki ákjós­an­leg­ur stað­ur fyr­ir fjöl­skyld­ur og börn.
Tímabært að verja Reykjanesbraut
FréttirJarðhræringar við Grindavík

Tíma­bært að verja Reykja­nes­braut

Þor­vald­ur Þórð­ar­son eld­fjalla­fræð­ing­ur seg­ir að það sé tíma­bært að huga að vörn­um fyr­ir Reykja­nes­braut­ina og aðra inn­viði á Suð­ur­nesj­um. At­burða­rás­in á fimmtu­dag, þeg­ar hraun rann yf­ir Grinda­vík­ur­veg og hita­vatns­leiðslu HS Veitna, hafi ver­ið sviðs­mynd sem bú­ið var að teikna upp. Hraun hafi runn­ið eft­ir gam­alli hraun­rás og því náð meiri hraða og krafti en ella.
Í Grindavík er enn 10. nóvember
VettvangurJarðhræringar við Grindavík

Í Grinda­vík er enn 10. nóv­em­ber

Það er nógu leið­in­legt að flytja, þeg­ar mað­ur vel­ur sér það sjálf­ur, hvað þá þeg­ar mað­ur neyð­ist til þess. Og hvernig vel­ur mað­ur hvað eigi að taka með sér og hvað ekki, þeg­ar mað­ur yf­ir­gef­ur stórt ein­býl­is­hús með tvö­föld­um bíl­skúr fyr­ir litla íbúð með lít­illi geymslu? Fjöl­skyld­an á Blóm­st­ur­völl­um 10 í Grinda­vík stóð frammi fyr­ir þeirri spurn­ingu síð­ast­lið­inn sunnu­dag.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár