Hraun hefur flætt yfir stofnlögn HS Veitna sem sér Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ, Grindavík og Vogum fyrir heitu vatni. Vísir greinir fyrst frá.
Almannavarnir og HS Veitur hafa lýst yfir miklum áhyggjum af ástandinu. Ein versta sviðsmyndin virðist vera að raungerast.
Í tilkynningu frá almannavörnum segir að unnið sé hörðum höndum að því að koma bráðabirgðalausn í gagnið.
Miðlunartankar geyma heitt vatn á svæðinu. Án hitavatnsleiðslunnar er það eina vatnið sem eftir er á svæðinu. „Í markvissum sparnaði endast miðlunartankar væntanlega í 6 til 12 klukkustundir. Miðað við hefðbundna daglega notkun endast tankarnir í 3 til 6 klukkustundir,“ segir þar.
Spurð hvaða þjónustu hitavatnsleysið muni hafa áhrif á sagði Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna, í samtali við Heimildina að það væri flest sem hægt væri að ímynda sér. „Það er mikið undir. Þess vegna skiptir máli samtakamáttur fólks að spara vatnið svo að álagið á kerfið sé sem minnst.“
„Almannavarnir ítreka skilaboð til íbúa á Reykjanesi að bíða með að hefja rafkyndingu eins lengi og hægt er. Íbúar og fyrirtæki eru beðnir um að lækka í hitakerfum í húsum sínum og ekki nota heitt vatn til böðunar í sturtu, baði eða heitum pottum. Er það gert til að spara heitt vatn. Mikilvægt er að allir leggist á eitt,“ segir í tilkynningu.
Athugasemdir