Sýrivextir verða áfram 9,25 prósent samkvæmt ákvörðun peningastefnunefndar sem opinberuð var í morgun. Þetta er í þriðja sinn í röð sem vöxtunum er haldið óbreyttum á þeim stað á vaxtaákvörðunardegi en fyrir það höfðu þeir verið hækkaðir á 14 fundum í röð, úr 0,75 í áðurnefnd 9,25 prósent.
Í yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands, sem ákveður vaxtastígið í landinu, segir að áhrif peningastefnunnar séu að koma æ skýrar fram. „Raunvextir hafa hækkað og verðbólga hjaðnað nokkuð frá nóvemberfundi nefndarinnar. Undirliggjandi verðbólga hefur einnig minnkað. Vísbendingar eru um að hraðar dragi úr vexti efnahagsumsvifa en áður var talið. Samkvæmt nýrri spá Seðlabankans fer spennan í þjóðarbúinu minnkandi og snýst í slaka undir lok ársins. Verðbólguhorfur hafa því batnað.“
Langtímaverðbólguvæntingar hafi þó lítið breyst og haldist nokkuð yfir markmiði. „Þótt hægt hafi á vinnumarkaði er spenna þar enn til staðar. Verðbólga gæti því áfram reynst þrálát. Þá er einnig óvissa um niðurstöður kjarasamninga og mögulegar aðgerðir í ríkisfjármálum tengdar þeim og vegna jarðhræringa á Reykjanesi. Mótun peningastefnunnar á næstunni mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga. “
Vísitala neysluverðs, sem mælir verðbólgu, lækkaði um 0,16 prósent milli desember og janúarmánaða. Tólf mánaða verðbólga mælist nú 6,7 prósent en hún mældist 7,7 prósent í desember. Hún hefur ekki mælst minni síðan í mars 2022 en hæst fór verðbólgan í tveggja stafa tölu í febrúar í fyrra.
Staðan er því þannig að þrátt fyrir að verðbólga sé að hækka milli mánaða er tólf mánaða verðbólgan að lækka skarpt. Ástæða þess liggur í því að verðbólga mældist mjög há í lok árs 2022 og byrjun árs 2023 og þeir mánuðir eru nú að detta út úr tólf mánaða verðbólgutölunum.
Í tilkynningu á vef Hagstofunnar sem birt var í byrjun síðustu viku vegna þessa sagði að kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði hafi hækkað um 0,9 prósent milli mánaða og að sú hækkun hafi haft mest áhrif á aukna verðbólgu milli mánaða. Kostnaður vegna rafmagns og hita hækkaði um 3,7 prósent milli mánaða en á móti toguðu vetrarútsölur þar sem föt og skór lækkuðu um 9,2 prósent frá því í fyrri mánuði. Húsgögn og heimilisbúnaður lækkuðu sömuleiðis um fimm prósent og flugfargjöld til útlanda um heil 11,4 prósent. „Athygli skal vakin á þeirri breytingu að í stað þess að taka inn verðbreytingar á „044 Annað vegna húsnæðis“ nú í janúar verður það gert í febrúar þegar fyrsta greiðsla skv. nýjum gjaldskrám fer yfirleitt fram. Undir þennan lið fellur sorphreinsun, holræsi og kalt vatn.“
Niðurfelling á virðisaukaskattsívilnun af rafbílum hafði áhrif til hækkunar á verði þeirra en tekið var tillit til rafbílastyrkja Orkusjóðs við útreikninga.
Mikil áhrif á greiðslubyrði
Hækkandi stýrivextir hafa haft mikil áhrif á greiðslubyrði heimila og fyrirtækja og hratt hefur dregið úr lántökum þeirra. Hærri greiðslubyrði heimila, sem hefur í mörgum tilvikum allt að tvöfaldast hjá þeim sem eru með óverðtryggð lán, hefur leitt til þess að sífellt fleiri færa sig úr því lánaformi og yfir í verðtryggð íbúðalán. Þau hafa þann kost að greiðslubyrðin er lægri en þann vankant að verðbætur leggjast á höfuðstól lána í mikilli verðbólgu.
Á því vaxtahækkunartímabili sem hófst 2021 og stóð óslitið fram að síðasta vaxtaákvörðunardegi Seðlabankans voru raunvextir óverðtryggðra lántakenda lengi vel neikvæðir. Það þýðir að vextirnir sem þeir borguðu voru lægri en verðbólgan. Sömu sögu er að segja að innlánsvöxtum. Vextirnir sem fólk fékk fyrir að geyma peninganna sína í banka voru almennt lægri en verðbólgan og því rýrnaði raunvirði sparnaðarins.
Á síðustu mánuðum hefur það snúist við og raunvextir eru nú ekki lengur neikvæðir.
Sú staða, ásamt því að mörg fastvaxtalán á óverðtryggðum vöxtum hafa verið að losna, hefur stóraukið flutning heimila yfir í verðtryggð lán. Í nýjustu mánaðarskýrslu HMS kemur fram að í fyrra hafi hlutdeild verðtryggðra lána heimila aukist á kostnað óverðtryggðra. Sér í lagi fóru heimilin frá óverðtryggðum lánum á breytilegum vöxtum yfir í verðtryggð lán á breytilegum vöxtum. Í byrjun síðasta árs voru tæplega 44 prósent íbúðalána heimila landsins, sem eru í heildina rúmlega 2.576 milljarðar króna, verðtryggð. Í lok þess var hlutfallið komið í 51 prósent. Verðtryggðu lánin hafa aftur náð yfirhöndinni.
Mun halda áfram
Búast má við að tilfærslan yfir í verðtryggð lán muni halda áfram næstu ár að óbreyttu. Allt í allt eru um 706 milljarðar króna af óverðtryggðum lánum á föstum vöxtum með endurskoðunarákvæði. Fram til loka árs 2025 munu 569 milljarðar króna, 80 prósent allra þeirra lána, losna og lántakarnir að óbreyttu færðir úr mjög lágum vöxtum yfir í mjög háa vexti. Vegnir meðalvextir lána sem losna á ír ár eru 4,5 prósent en lán sem koma til endurskoðunar árið 2025 bera 5,1 prósent vegna meðalvexti. Í dag eru lægstu breytilegu óverðtryggu vextir hjá bönkunum í kringum ellefu prósent.
Í nýjustu mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar segir að heimili með háa greiðslubyrði séu þegar byrjuð, og eigi væntanlega eftir í miklum mæli, að færa sig yfir í verðtryggð lán þegar til fyrrnefndrar endurskoðunar kemur. Vilji þeir ekki færa sig yfir í slík lán að öllu leyti eða hluta stendur einnig til boða að lengja í lánum, greiða sparnað inn á lán eða semja um að færa hluta af vöxtum á höfuðstól.
Athugasemdir