Donald Trump á um þessar mundir í margvíslegu stappi í bandarískum réttarsölum og berst þar á mörgum vígstöðvum. Meðal lögfræðinga hans er Alina nokkur Habba og er óhætt að segja að hún hafi vakið heilmikla athygli með vasklegri en ekki að sama skapi ígrundaðri frammistöðu. Dómari við ein réttarhöldin hefur margoft sett ofan í við hana og jafnvel hæðst að þekkingu hennar og framgangi.
En þótt lögfræðikunnátta Alinu Habba sé kannski ekki ýkja merkileg, þá er bakgrunnur hennar athyglisverður. Hún heitir fullu nafni Alina Saad Habba, verður fertug eftir mánuð og er dóttir innflytjenda frá Írak.
En Habba er þó ekki múslimi, heldur tilheyrir örfámennri kaþólskri kirkjudeild sem rekur uppruna sinn allt aftur til frumkristninnar og fyrstu postulanna en hefur þó farið sem um sjálft völundarhús sögunnar í tvö þúsund ár.
Kirkjudeild Habba kallast „kaþólskir Kaldear“ og flestallir þeir sem aðhyllast hana telja sig Assýringa, það er að segja afkomendur þeirra Assýríumanna og Babýloníumanna sem öttu mjög kappi í Mesópótamíu (Írak) á árunum kringum 1000 FT (fyrir upphaf tímatals okkar eða fyrir Krist).
Persar (Íranir) lögðu undir sig Mesópótamíu um 500 FT en Assýringar bjuggu áfram á svæðinu og þá helst kringum rústir gömlu höfuðborgarinnar Níníve, en þar heitir nú Mósúl í norðanverðu Írak
Eftir að kristindómur tók að breiðast út frá Palestínu á fyrstu öld ET festi hin nýja trú fljótt rætur í Mesópótamíu. Þar spruttu upp nokkrar kirkjudeildir sem smátt og smátt þróuðust í svolítið ólíkar áttir hvað snerti bæði kenningu og helgisiði. Stórveldin sem réðu Mesópótamíu þá — fyrst Parþar og síðan nýtt ríki Persa — sýndu kristnum mönnum yfirleitt umburðarlyndi. Ólíkt því sem gerðist í Rómaveldi voru ofsóknir gegn þeim voru fátíðar.
Eftir að kristnin varð opinber trú Rómaveldis á fjórðu öld ET urðu Róm og síðan Konstantínópel helstu borgir kristindómsins en kristnir menn í Persaveldi urðu út af fyrir sig. Þeir héldu áfram að þróast í sínar sérstöku áttir. Þeir voru til dæmis hallari undir kenningar kirkjuföðurins Nestoriusar en kirkjurnar í Rómaveldi en kristnir menn deildu þá af mikilli heift um þær kenningar.
Þær gengu í stuttu og einfölduðu máli út á Jesúa frá Nasaret hefði ekki verið guðlegur allt frá fæðingu, heldur hefði hann í byrjun verið mannlegs eðlis.
Um hinar aðskiljanlegu náttúrur Jesúa gátu kristnir menn deilt, barist og dáið öldum saman.
Múslimar tóku svo öll völd í Mesópótamíu, Persíu og Miðausturlöndum á sjöundu öld og var það vitaskuld mikið högg fyrir kristindóminn á svæðinu. Kristnum mönnum var þó áfram leyft að iðka trú sína. Þeir fengu stöðu „dhimmi“ — en það merkti „fólk lögmálsins“ og nutu kristnir menn (og Gyðingar) sérstakrar verndar en sóru ríki múslima í staðinn hollustu og borguðu skatta sem múslimar voru undanþegnir.
Reyndar færðist nú á sinn hátt mjög aukinn þróttur í „austurkirkjuna“ eins og hún er yfirleitt kölluð.
Trúboðar frá austurkirkjunni náðu miklum árangri næstu aldirnar á Indlandi, í Mið-Asíu og jafnvel í Kína þar sem spruttu upp kristnir söfnuðir sem urðu býsna þróttmiklir töluvert fram yfir árið 1000.
Þegar opinber vinslit urðu með kirkjunum í Róm og Konstanínópel á 11. öld og til urðu annars vegar hin grískættaða rétttrúnaðarkirkja og hins vegar hin kaþólska kirkja í Róm, þá hafði sá klofningur lítil áhrif á austurkirkjuna. Hún hélt áfram að eflast í Mið-Asíu og Kína og naut sérstakrar velvildar Mongóla framan af þegar útrás þeirra hófst á 13. og 14. öld.
Kristnir spekingar, ráðgjafar og trúboðar höfðu til dæmis gjarnan háar stöður við hirðir Mongóla og þar var um austurkirkjumenn að ræða.
Einmitt um það leyti var austurkirkjan hins vegar farin að missa fótanna í Miðausturlöndum. Kristnir menn höfðu margir komist að því að hagstæðara væri fyrir þá að undirgangast íslam en halda í kristindóminn svo fækka fór ansi hratt í söfnuðum austurkirkjunnar við Miðjarðarhafið, í Sýrlandi, Palestínu, Egiftalandi og á Norður-Afríkuströndinni.
Þegar Tímur halti náði völdum á svæðum Mongóla rétt fyrir 1400 þrengdi hann mjög að kristnum mönnum og á sama tíma hófu Búddistar gagnsókn gegn kirkjunni á Indlandi og múslimar í Mongólíu, Mið-Asíu og Kína.
Um miðja 16. öld var svo komið að austurkirkjan var eiginlega eingöngu bundin við nyrðri hluta Mesópótamíu (kringum Mósúl) og svo eina afstekkta og einangraða kirkjudeild á Indlandi.
Austurkirkjan brást við þessum erfiðleikum með innbyrðis deilum og 1552 klofnaði hún í tvennt. Annar hópurinn hafði þá samband við páfann í Róm og batt á endanum trúss sitt við hann og því fékk þessi hópur nafnið „kaþólskir Kaldear“ en hluti Mesópótamíu var stunduð kallaður Kaldea.
Þessi ákvörðun „kaþólikkanna“ sætir nokkurri furðu því austurkirkjan hafði ekki verið í miklum tengslum við Rómarkirkju svo öldum skipti og ýmislegt í helgihaldi og trúarsetningum var orðið býsna ólíkt því sem þótti gott á Tíberbökkum.
En þetta gerðu „kaþólikkarnir“ nú samt. Hinn hluti austurkirkjunnar var sjálfstæður næstu aldirnar en viðurkenndi að lokum yfirráð rétttrúnaðarkirkjunnar og tilheyrir nú henni að nafninu til en raunar í tvennu lagi.
Kirkja hinna kaþólsku Kaldea skrimti svo undir ægishjálmi múslima í Írak en á 19. og 20. öld tóku margir þeirra að flytjast úr landi, og helst til Bandaríkjanna, rétt eins og foreldrar Alinu Habba gerðu um 1980.
Nú teljast rúmlega 600.000 manns til þessarar fornu kirkjudeildar og flestir (eða um 250.000) í Bandaríkjunum. Örlitlu færri búa í Írak og svo búa um 50.000 í Tyrklandi, 10.000 í Sýrlandi, 30.000 í Kanödu og 20.000 í Ástralíu.
Óhætt er að segja að Alina Habba er langfrægasti meðlimur þessarar ævafornu kirkjudeildar í mjög, mjög langan tíma. Hún hefur reyndar lýst því yfir að hún sé mjög trúuð og fylgi kenningum kirkju sinnar ákaflega. En spurning hvort kirkjunni þykir sómi að því.
Athugið að ekki má rugla hinum kaþólsku Kaldeum saman við söfnuð Yazidía sem einnig er upprunninn í Írak. Yazidíar eru gjarnan taldir á mörkum kristindóms og íslams en mundu seint láta kenna sig við páfann í Róm!
Athugasemdir