Ísraelskir hermenn í dulargervum sem almennir borgarar og heilbrigðisstarfsmenn réðust inn á spítala á Vesturbakkanum í nótt og skutu þrjá palestínska menn til dauða. Ísraelsher segir mennina hafa verið meðlimi Hamas-samtakanna.
Aðgerð Ísraelshers átti sér stað aðfaranótt þriðjudags á Ibn Sina-spítalanum í borginni Jenin á Vesturbakkanum. Á myndbandi sem tekið var á síma, af tölvuskjá öryggismyndavéla spítalans, má sjá stóran hóp manna, klædda í gervi palestínskra almennra borgara, þar á meðal gervi kvenna og sem heilbrigðisstarfsmenn með þungavopn undir höndum, stilla fólki á ganginum upp við vegg og hrópa skipanir fram og til baka.
„Þeir voru drepnir í svefni“
Forstjóri spítalans, Naji Nazzal, sagði við fjölmiðla að hópur ísraelskra hermanna hafi komist inn á spítalann á leynd og tekið mennina þrjá af lífi. Til þess hafi hermennirnir notað byssur með hljóðdeyfum.
Blaðamaður Al Jazeera, Rory Challands, segir að aðgerðir gegn spítölum á Vesturbakkanum hafi átt sér stað undanfarið, frá því að stríðið hófst 7. október. „En að fara inn á spítala sem dauðasveit til að drepa fólk inni á spítala, það hefur ekki gerst síðan átökin brutust út.“
Ísraelsher segir einn mannanna hafa átt þátt í „stuðningi við verulega hryðjuverkastarfsemi“ og að hann hafi verið að fela sig á spítalanum. Þá kom einnig fram að ein byssa hafi fundist í fórum mannanna þriggja.
Challands segir aðgerðina greinilega hafa haft það skýra markmið að drepa mennina. „Það lítur ekki út fyrir að nein tilraun hafi verið gerð til að handtaka þessa menn. Þeir voru drepnir í svefni.“
Athugasemdir (1)