Hagstofa Íslands mun gefa út mannfjöldatölur byggðar á endurbættri aðferð í mars 2024 þar sem viðmiðunartíminn er 1. janúar 2024. Er það vegna þróunar á nýjum aðferðum við að fá réttari niðurstöður á fjölda íbúa á landinu.
Nýja aðferðin sem Hagstofa notast við verður kynnt í mars. „Hún felur í sér að við höfum samband við fleiri stofnanir og erum að grafa upp snertingar,“ segir Þorsteinn Þorsteinsson, deildarstjóri samskipta og miðlunar hjá Hagstofu Íslands. Hagstofa muni kanna „lífsmörk“ eða snertingar einstaklinga með nokkrum mismunandi aðferðum eins og með upplýsingum úr opinberum skrám.
„Til viðbótar við Þjóðskrá nýtum við gögn frá Skattinum og nemendaskrár af öllum skólastigum frá leikskóla til háskóla auk fjölskyldutenginga sem við fáum úr þjóðskránni. Ef engin „lífsmerki“ eða hreyfing er í þessum skrám fyrir viðkomandi eða fjölskyldu þeirra yfir 6 mánaða tímabil lítum við svo á að viðkomandi sé búsett(ur) erlendis,“ segir í skriflegu svari frá Steini Kára Steinsson, sérfræðingur á greiningarsviði hjá Hagstofu.
Mögulegar ástæður þess að fólk skrái sig ekki úr landi getur verið vegna sterks hvata „fyrir fólk að skrá sig inn í landið þegar það flytur til Íslands heldur en að tilkynna flutning úr landi þegar það flytur burt. Þetta er vegna þess að kennitalan er nauðsynleg til að geta nýtt ýmsa þjónustu en það hefur engar neikvæðar afleiðingar fyrir fólk ef það flytur burt án þess að tilkynna flutninginn,“ segir Steinn Kári.
Tölurnar verða aldrei alveg 100% réttar
Einstaklingar sem eru í námi erlendis en vinna á sumur og jól á Íslandi geta talist með sem íbúar í landinu, þrátt fyrir að búa erlendis. Þjóðskrá heldur utan um fjölda Íslendinga meðal annars með skráningu á lögheimili en einstaklingar í námi erlendis geta haldið sínu lögheimili á Íslandi. „Við tökum þessa einstaklinga til hliðar því við erum að tala um íbúa, þá sem að búa í landinu og námsmenn sem búa erlendis eru sannarlega fólk sem býr ekki í landinu,“ segir Þorsteinn.
Mannfjöldatölur með viðmiðunardagsetningu 1. janúar 2024 verða gefnar út í mars á þessu ári. „Við erum að vinna í þessari aðferð og erum að fínpússa hana, þess vegna dregst þetta.“ Þorsteinn segir að tölurnar verði aldrei alveg 100% réttar. „Þetta er nær því sem er rétt. Við erum að skoða einstaklinga sem að koma ekki fram í kerfinu í einhverja mánuði. Þá tökum við út því að það eru mestar líkur á að þeir séu ekki á landinu,“ segir Þorsteinn.
Athugasemdir