Forstjóri norsku Fiskistofunnar (Fiskeridirektoratet) segir að tölur um slysasleppingar sem laxeldisfyrirtækin í Noregi senda frá sér á opinberum vettvangi bendi til þess að þau viti oft og tíðum ekki hversu margir eldislaxar séu í sjókvíunum hjá þeim eða þá að gefnar séu rangar upplýsingar um fjöldann. Frá þessu er greint í grein í norska viðskiptablaðinu Dagens Næringsliv. „Það eru mörg dæmi um það að laxeldisfyrirtækin gefi upp tölur um eldislaxa í kvíum þar sem það eru fleiri fiskar í kvínni eftir slysasleppingu en fyrir hana,“ segir fiskistofustjórinn, Frank Bakke-Jensen, við Dagens Næringsliv.
Laxeldisfyrirtæki getur haft hagsmuni af því að hafa eins margra eldislaxa og það getur í sjókví þar sem það þýðir hærri tekjur fyrir fyrirtækið. Fyrirtæki hafa hins vegar bara leyfi til að vera með ákveðið marga fiska í hverri sjókví þar sem það fer betur með eldisfiskinn að það sé rýmra um hann í kvínni og það hefur yfirleitt í för með sér minni afföll á fiski.
„Matvælastofnun krefst þess að fyrirtækið rýni mismun á tölum“
Tilfellin eru kómísk
Fiskistofustjórinn útskýrir orð sín með þeim hætti að í einu tilfelli hafi laxeldisfyrirtæki í Noregi sagt frá því að 168 þúsund laxar væru í sjókví. Svo hafi átt sér stað slysaslepping hjá fyrirtækinu. Í kjölfarið hafi komið í ljós að það voru 190 þúsund eldislaxar í kvínni. „Slík dæmi búa til kómedíu frekar en vissu,“ segir hann í viðtalinu og bendir á að bæta þurfi eftirlit með sjókvíaeldinu til muna.
Í orðum hans felst að að lítið eða ekkert mark sé takandi á tölum um slysasleppingar á eldislöxum í sjókvíum ef ekki er sagt réttilega frá því upphaflega hversu margir eldislaxar eigi að vera í sjókvíunum til að byrja með. „Staðreyndin er sú að það veit eiginlega enginn hversu margir laxar hafa sloppið,“ segir Frank Bakke.
Í orðum hans felst að hann telur að það sé erfitt að taka mark á tölum sem eru birtar um fjölda laxa sem sleppa úr sjókvíum. Þetta byggir á því að það sé líklegt að upphaflegur fjöldi laxa sem sagt er að hafi verið í sjókví sé ekki endilega réttur.
Arnarlax: Mismunur á upplýsingum um fjölda fiska
Þessi orð fiskistofustjórans norska vekja athygli í íslensku samhengi þar sem það hefur komið fyrir hér á landi við eftirlit opinberra stofnana með sjókvíaeldinu að mismunur sé á fjölda laxa sem sagður er hafa verið í kví og þeim fjölda sem er talinn upp úr kvínni.
Í eftirlitsskýrslu frá laxeldisfyrirtækinu Arnarlaxi frá því um miðjan nóvember síðastliðinn kom til dæmis í ljós mörg þúsund fiska munur á þeirri tölu fiska sem sagður var hafa verið í sjókví og þeirri tölu sem í reynd var í kvínni. Í eina kví vantaði tæplega 13 þúsund fiska og í annarri kví komu upp tæplega 39 þúsund fleiri fiskar upp úr kví en sagðir voru vera í henni.
Í eftirlitsskýrslunni stendur orðrétt: „Við uppgjör á eldissvæðinu Eyri í Patreksfirði þar sem stuðst er við upplýsingar úr framleiðsluskýrslum Arnarlax kom í ljós mismunur í kvíum 8 og 9. Í kví 9 vantaði 12.849 fiska og úr kví 8 komu 38.542 fleiri fiskar en fóru í kvínna.“
Matvælastofnun bað Arnarlax um skýringar á þessu misræmi og fékk eftirfarandi svar: „Í svörum Arnarlax kom fram að notast hefði verið við tölur úr FishTalk kerfi seiðastöðvar sem sýndi að samtals hefðu farið 246.653 fiskar í kvíar 8 og 9. Talning í brunnbát hafi aftur á móti sýnt að fjöldi fiskanna var 272.346. Arnarlax kaus að notast við tölur úr FishTalk kerfi seiðastöðvar sem upphafsfjölda í kvíum 8 og 9 og því voru ekki gefnar réttar upplýsingar um upphafsfjölda seiða í kví 8 og kví 9 á Eyri í Patreksfirði.“
Þetta dæmi sýnir að það vandamál sem norski fiskistofustjórinn talar um er einnig vandamál hér á landi: Tölur um fjölda eldislaxa í sjókvíum eru á reiki. Í skýrslunni segir að Matvælastofnun hafi látið Arnarlax vita að þetta gengi ekki: „Matvælastofnun krefst þess að fyrirtækið rýni mismun á tölum úr Fisktalk kerfi seiðastöðva og talningu úr brunnbát og uppfæri tölur um fjölda fiska í Fisktalk kerfi sjókvíaeldisstöðvarinnar þannig að notaðar verði nákvæmustu tölur sem eru tiltækar hverju sinni.“
Íslensku slysasleppingarnar
Laxeldi í sjókvíum er tiltölulega ung atvinnugrein hér á Íslandi. Dæmin um slysasleppingar úr sjókvíum eru því ekki mjög mörg. Þekktasta og eitt alvarlegasta dæmið um slysasleppingu hér á landi kom hins vegar upp síðsumars á síðasta ári þegar eldislaxar sluppu úr sjókví Arctic Fish í Patreksfirði og um 3500 eldislaxar sluppu úr kvínni, að sögn. Hluti þessa eldislaxa veiddist svo í ám víða um landið næstu vikur á eftir. Þessi slysaslepping vakti alþjóðlega athygli, leiddi til fjöldamótmæla á Austurvelli sem og lögreglurannsóknar sem síðan var látin niður falla.
Vandamálið sem fiskistofustjórinn norski bendir á snýst um það að ef tölur um fjölda eldislaxa í sjókvíum eru ekki endilega réttar hvernig er þá hægt að vita hversu margir eldislaxar hafa sloppið úr sjókví þar sem slysaslepping hefur orðið?
Lausnin sem hann kallar eftir í frétt Dagens Næringsliv er að laxeldisfyrirtækin íi Noregi taki upp betra kerfi til að þekkja og rekja uppruna eldislaxa sem eru í sjókvíum þar í landi.
Athugasemdir