Spilamennska íslenska landsliðsins á EM í handbolta karla hefur valdið nokkrum vonbrigðum, jafnvel sest ögn á þjóðarsálina, auk þeirra hamfara sem hafa átt sér stað við Grindavík. Síðasti landsliðsþjálfari, Guðmundur Þórður Guðmundsson, segist í samtali við Heimildina ekki vilja tjá sig um gengi liðsins á mótinu til þessa. Það geri hann á síðari stigum, ekki núna.
Um landsliðið sagði hann þó, áður en leikurinn gegn Þýskalandi á fimmtudag fór fram: „Liðið hefur alla burði, þeir eru með breidd og þeir eru með getuna. Ég óska þeim alls hins besta.“
Hann segir sérstakt að fylgjast með mótinu utan frá. „Ég skal játa það,“ segir Guðmundur en hann hefur tekið þátt í 26 stórkeppnum, EM og HM í handbolta og Ólympíuleikum, á sínum ferli. Þar af hefur hann tekið þátt í nítján mótum sem þjálfari þriggja landsliða, Íslands, Danmerkur og Barein.
„Frá 2010 hef ég tekið þátt í fjórtán stórkeppnum. Það er sérstakt að upplifa það að vera í fyrsta skipti í langan tíma ekki í stórkeppni,“ segir Guðmundur. „Ég er að horfa á eins marga leiki og ég get og njóta keppninnar. Ásamt því er ég svo að þjálfa mitt félagslið hér á sama tíma, sem ég hef ekki getað gert á meðan ég þjálfaði bæði félagslið og landslið. Það er það sem er öðruvísi og það má segja að það sé ný tilfinning fyrir mig og ný upplifun að geta fylgst með þessu og horft á mikið af leikjum.“
Farinn út að horfa á Dani
Guðmundur er á leið til Þýskalands í dag, föstudag, að horfa á Dani spila við Svía, sem áhorfandi á stórmóti í handbolta. „Ég hef aldrei gert það áður,“ segir hann og kemur einnig inn á það í samtali við blaðamann að Danirnir séu að hans mati í sérflokki.
„Þeir eru ansi margir og hafa sterkar og margar skoðanir“
„Það er augsýnilegt að þeir eru með stórkostlegt lið,“ segir Guðmundur um liðið sem hann þjálfaði frá 2014–2017 og gerði að Ólympíumeisturum 2016.
Hann ætlar ekki að tjá sig um íslenska landsliðið, sem áður segir. „Ég tjái mig einhvern tímann seinna en ekki núna, ég hef ákveðin prinsipp hvað það snertir. Það er nóg til af sérfræðingunum til þess að tjá sig um þetta.“
Eru þeir of margir, kannski?
„Þeir eru ansi margir og hafa sterkar og margar skoðanir,“ segir Guðmundur Þórður um handboltaumræðuna.
Athugasemdir