Ragnar Þór Ingólfsson, formaður stéttarfélagsins VR, sakar leigufélagið Ölmu um tvískinnung. Í færslu sem Ragnar birti á Facebook-síðu sinni segir hann að stuðningur leigufélagsins til Grindvíkinga sé einungis almannatengslabrella.
Félagið komi aðeins til móts við leigjendur þegar vakin er athygli á málum þeirra opinberlega. Í færslunni segir Ragnar að það hljóti að vera „einhver sérstakur staður fyrir fólk sem hagar sér ítrekað með þessum hætti eftir að jarðvist þess líkur“.
Leigufélagið Alma hefur séð mörgum íbúum frá Grindavík fyrir bráðabirgðahúsnæði eftir að rýma þurfti bæinn 10. nóvember í fyrra.
Rebekka Saidy, íbúi í Grindavík, greindi opinberlega frá slæmri reynslu sinni af viðskiptum við Ölmu, eftir að hún tók of litla íbúð á leigu fyrir sig og fjölskyldu sína vegna bráðabirgðaaðstæðna í hamförunum en fékk lítinn hljómgrunn fyrir því að fá að skipta yfir í stærra langtímahúsnæði án þess að klára þriggja mánaða uppsagnarfrest. Eftir að frásögn Rebekku birtist opinberlega fékk hún tölvupóst frá Ölmu leigufélagi að kvöldi með samþykkt á undanþágu frá uppsagnarfresti. Samfélagsmiðlafærsla Rebekku hvarf í kjölfarið og sagði hún í samtali við Vísi.is að það „margborgaði sig að hafa hátt“.
Í kjölfarið hélt framkvæmdastjóri Ölmu leigufélags, Ingólfur Árni Gunnarsson, því fram að málið væri byggt á misskilningi. Hann sagði að félagið muni leyfa öllum fyrrverandi íbúum Grindavíkur sem leigja íbúðir hjá félaginu að skila af sér íbúðum án uppsagnarfrests.
Þessari framsetningu mótmælir Ragnar Þór.
„Framkvæmdastjóri Ölmu leigufélags segir það vera bæði ósanngjarnt og óheiðarlegt að halda því fram að félagið hafi ekki lagt sitt af mörkum til að standa með og styðja við íbúa Grindavíkur,“ segir hann á Facebook. „Leigufélagið Alma þverneitaði að losa fimm manna fjölskyldu úr Grindavík undan leigusamningi eftir að henni bauðst stærri og hentugri íbúð. Þegar vakin var athygli á málinu opinberlega skiptu stjórnendur félagsins um skoðun og ákváðu að gefa eftir. Meintur stuðningur eigenda Ölmu til Grindvíkinga nær ekki lengra en það að ekkert fæst í gegn nema vakin sé athygli á því opinberlega og sú umræða sé nægilega neikvæð.“
Umdeilt leigufélag
Alma leigufélag hefur reglulega komið upp í umræðunni vegna viðskiptahátta og framkomu gagnvart leigjendum. Félagið sætti til dæmis mikilli gagnrýni árið 2022 fyrir miklar hækkanir á leiguverði sem mörgum leigjendum þeirra í opna skjöldu.
Í samtali við Heimildina segir Ragnar Þór Ölmu leigufélag skera sig úr í óbilgirni gagnvart leigjendum sínu. „Ég hef aldrei fengið eins mikið af kvörtunum, dæmum og ljótum sögum frá fólki sem hefur verið í samskiptum við þetta félag,“ segir Ragnar.
Ekki náðist í framkvæmdastjóra Ölmu við vinnslu fréttarinnar og tölvupósti á félagið hefur ekki verið svarað.
Umsvifamikið fjölskyldufyrirtæki
Alma íbúðafélag á tæplega 1.100 íbúðir í gegnum níu dótturfélög. Þá er eigandi Ölmu fjárfestingafélagið Langisjór sem í eigu fjögurra systkinanna: Eggerts, Guðnýjar Eddu, Gunnars Þórs og Halldórs Páls Gíslasona og fjölskyldna þeirra. En Gunnar Þór Gíslason einmitt faðir Ingólfs Árna, framkvæmdastjóra Ölmu.
Ásamt Ölmu nær eignasamstæða Langasjávar ehf. yfir fjölmörg öflug fyrirtæki í matvælaframleiðslu. Fyrirtæki á borð við Mata hf., Matfugl ehf. Salathúsið ehf. og Síld og fisk ehf. tilheyra öll Langasjó. Samkvæmt ársreikningum hagnaðist Langisjór um 4 milljarða árið 2022 og eigið fé þess var 27,7 milljarðar króna.
Það er með ólíkindum hvað græðgi sumra er takmarkalaus og ósvífin og því miður virðist þetta lið komast upp með allt hérlendis í skjóli þessarar voluðu ríkisstjórnar. Auðvitað á að vera leigubremsa á þessum oft illa fengnum íbúðum.