Janúar er tími boðháttar. Strengdu heit. Farðu í ræktina. Skráðu þig á námskeið. Settu þér markmið. Gerðu eitthvað. Vertu eitthvað flott.
Forseti Íslands hóf árið á að tilkynna að hann hygðist ekki gefa kost á sér í embætti áfram. Í samtímanum er það talin æðsta dyggð að vera eitthvað og gera eitthvað. Hvernig mátti það vera að manninum kæmi til hugar að hætta að vera eitthvað sem honum fórst svo vel úr hendi að gera?
Nýverið mátti lesa viðtal við rithöfundinn Mikael Torfason á Visir.is. Mikael er fluttur til Bandaríkjanna þar sem hann skrifar sjónvarps- og kvikmyndahandrit af miklum dugnaði. Mikael var spurður að því hvað drifi hann áfram. Var það óttinn við dauðann?
Mikael sagðist ekki óttast dauðann. Hann óttaðist hins vegar varnaðarorð Kára Stefánssonar.
Fyrir tæpum áratug kom út bókin Týnd í paradís eftir Mikael þar sem segir frá erfiðum uppvaxtarárum hans innan safnaðar Votta Jehóva. Eftir að hafa lesið bókina hringdi forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar óvænt í Mikael. Hann sagðist hrifinn af bókinni og vildi ráða miðaldra rithöfundi heilt.
Mikael fór og hitti hann. „Nú þarft þú að hugsa þinn gang,“ sagði Kári.
Mikael hafði lengst af starfað sem blaðamaður og ritstjóri en langaði til að verða rithöfundur.
„Þú getur ekki skrifað með fullri orku nema í mesta lagi í þrjátíu ár til viðbótar,“ sagði Kári. „Heilinn þolir það ekki. Nú mátt þú ekki fara aftur að ritstýra fjölmiðlum. Þú átt að skrifa skáldsögur.“
Fjögur þúsund vikur
Það sem við gerum er mikilvægt. En má vera að það sem við gerum ekki sé jafnmikilvægt?
Breski blaðamaðurinn Oliver Burkeman varði mörgum árum af lífi sínu við leit að leiðum til að spara tíma. „Þegar ég prófaði nýja aðferð leið mér eins og gullöld væri við það að hefjast í lífi mínu, full af ró, ótrufluðum afköstum og innihaldsríkri iðju,“ segir Oliver sem prófaði meðal annars að skipta deginum í 15 mínútna einingar, svara öllum tölvupóstum um leið og þeir bárust og að búta „to-do“ listann niður í mismunandi dálka. En því meiri tíma sem Oliver sparaði því minni tíma hafði hann.
„Það sem við gerum er mikilvægt. En má vera að það sem við gerum ekki sé jafnmikilvægt?“
Það var ekki fyrr en Oliver uppgötvaði að lífið entist að jafnaði ekki nema fjögur þúsund vikur að hann fann ráð sem virkaði.
Oliver segir þá staðreynd að lífið taki enda ekki vera skilaboð um að við þurfum að skipuleggja tíma okkar betur heldur þvert á móti að við eigum að sleppa því að gera fleira. Því hver einasta athöfn er í senn staðfesting og fórn; hver einasta ákvörðun útilokar óteljandi aðrar leiðir sem við hefðum getað farið. „Hið eina tímastjórnunarkerfi sem gerir gagn er það sem hjálpar okkur að vanrækja réttu hlutina,“ segir Oliver.
Að láta hjartað ráða
Tíminn líður hratt á gervihnattaöld. Janúar er meira en hálfnaður. Senn verður árið hálfnað, ævin hálfnuð, árið búið.
Guðni Th. Jóhannesson sagðist í áramótaávarpi sínu hafa íhugað vandlega að sækjast eftir endurkjöri. „Aftur á móti komst ég ætíð að þeirri niðurstöðu að betra væri að láta hjartað ráða en fylgja öðrum rökum sem hljóta að teljast veikari þegar allt kemur til alls.“
Hvað ætlar þú að gera árið 2024? Ganga á fjöll, fara í partí, stefna á stöðuhækkun, bjóða þig fram til forseta?
Mikael Torfason fór að ráðum Kára Stefánssonar og vandaði valið. „Samkvæmt Kára á ég tuttugu ár eftir núna,“ sagði hann á Vísi.
Lífið er takmörkuð auðlind; allt sem við tökum okkur fyrir hendur útilokar eitthvað annað. Yfirlýsingin kann að hljóma sem upptaktur að uppgjöf hins miðaldra manns. En svo kann að vera að eftirgjöfin sé þvert á móti hin æðsta opinberun.
„Oft er látið í veðri vaka að það að eldast séu einhvers konar svik við okkar yngra hugsjónameira sjálf,“ sagði tónlistarmaðurinn Nick Cave, sem hefur marga fjöruna sopið. „En stundum finnst mér eins og því sé öfugt farið.“
Kannski að við ættum fleiri að fara að fordæmi forsetans og leggja drög að öllu því sem við ætlum að láta ógert á árinu.
Athugasemdir (3)