Íbúafundur Grindvíkinga hófst seinni partinn í dag og eftir að framsögumenn frá stjórnvöldum og almannavörnum höfðu lokið sínum erindum tóku þau við spurningum úr sal. Mikill hiti var í Grindvíkingum sem spurðu margir ráðherra sem sátu fyrir svörum um væntanlegar aðgerðir stjórnvalda.
Margir fundargestir lýstu óánægju með svör ráðherra, sögðu svör þeirra ómarkviss og óljós. Þá krefjast margir tafarlausra svara um það hvort að ríkið muni greiða íbúana út úr sínum húsnæði.
Í einni spurningu úr sal vakti Bryndís Gunnlaugsdóttir, íbúi í Norðurhópi í Grindavík, athygli þegar hún sagði að erfiðasti dagurinn í lífi hennar hafi verið sá dagur þegar eldgosinu lauk og hún sá að húsið hennar var ekki brunnið.
„Vegna þess að ef húsið mitt hefði brunnið, hefði ég fengið fjárhagslegt sjálfstæði, ég hefði fengið vissu og ég hefði getað byggt upp nýtt heimili og þessi snara sem er utan um mig væri farin,“ sagði Bryndís og kjölfarið stóðu allir upp í salnum og klöppuðu fyrir henni.
Athugasemdir (1)