Nýtt drónamyndband Heimildarinnar sýnir hvernig umhorfs er í Grindavík í dag. Um leið og eyðileggingin í Efrahópi blasir við verður að teljast ótrúlegt hvernig hrauntaumurinn teygir sig á milli annarra húsa.
Fyrst tók hraunið í gær nýbyggt húsið að Efrihópi 19, sem fjölskyldan hafði áformað að flytja inn í fljótlega áður en ástandið hófst í Grindavík. „Þangað til í gærmorgun var ég bara á leiðinni heim,“ sagði eigandinn, Hrannar Jón Emilsson, í viðtali við mbl.is. Næst fór Efrahóp 16 sem varð alveg undir hrauninu. Þar bjuggu Unndór Sigurðsson, Birna Ýr Skúladóttir og börnin þeirra þrjú: 4, 8 og 14 ára. Þau misstu allt innbúið með húsinu. Unndór lýsti því í viðtali við mbl.is að hann ætlaði sér að „halda áfram að berjast“ sem „gegnheill Grindvíkingur“. „Því fylgja vægast sagt blendnar tilfinningar að fylgjast með beinni útsendingu í sjónvarpi og sjá heimili sitt brenna. Þetta er ofboðslegt áfall sem verður nokkurn tíma að sunka inn í sálarlífið,“ sagði hann.
Síðar brann húsið við Efrahóp 18 undan jarðeldinum.
Ekkert hraunstreymi er lengur úr syðri gígnum. Hins vegar er óttast að meiri gliðnun sprunga og jafnvel ný gosop geti komið upp innan byggðarinnar eða í nágrenni hennar.
Eins og segir í nýrri skýrslu Veðurstofunnar: „Út frá mælingum hefur gliðnun innan bæjarmarkanna verið allt að 1,4 m síðasta sólarhringinn sem dreifist yfir margar sprungur, nýjar hafa myndast og eldri opnast meira. Nýjar sprungur geta verið að koma í ljós á yfirborði næstu daga. Eins og áður hefur komið fram þá eru gosstöðvarnar mikið hættusvæði og ekki er hægt að útiloka að nýjar gossprungur opnist án fyrirvara. Það var tilfellið þegar sprungan opnaðist við bæjarmörk Grindavíkur í gær. Engin merki sáust á mælitækjum í tengslum við þá gosopnun sérstaklega.“
Athugasemdir