Ég er í doktorsnámi í stærðfræði og er 25 ára. Í náminu einblíni ég á það sem kallast slembi-net eða random graphs á ensku. Þetta er fræði þess að tengja hluti saman, skoða hvernig hlutir tengjast saman og svo er líkindafræðilegur bragur yfir þessu. Það eru einhverjar líkur á hlutunum. Það sem ég er að gera er frekar fræðilegt. Hvernig get ég útskýrt fræðilega stærðfræði?
Augnablik.
Þegar ég verð eldri myndi ég vilja verða prófessor. Það væri æði að kenna, en vera ekki bara að kenna. Ég hef mjög gaman af því, vegna þess að mér finnst gaman að útskýra fólki, sérstaklega það sem ég hef áhuga á. En hef líka áhuga á að stunda rannsóknir samhliða því. Prófessor hefur þetta jafnvægi á milli þess að kenna og skapa nýja þekkingu. Ég hefði mjög mikinn áhuga á því.
Ég er nýkominn að utan. Ég var að læra úti í París og það var æðislegt, París er draumaborg. Bæði var gott andrúmsloft í náminu, mikið stærðfræðiandrúmsloft, og svo er borgin rosafalleg og það er gaman að ganga þar um. Borgin hefur upp á allt að bjóða. Ef maður hefur áhuga á einhverju þá er það örugglega til þarna.
„Ég hef alltaf verið mikill mömmustrákur“
En ég held að ekkert hafi mótað mig meira en fjölskyldan mín og sambandið við hana. Ég á þokkalega stóra fjölskyldu. Ég á eldri systur sem ég hef alltaf búið með og fjögur hálfsystkin sem eru öll yngri en ég. En það sem hefur aðallega mótað mig er samband mitt við móður mína. Hún hefur mótað mín gildi og viðmið, kennt mér hvernig er að vera manneskja. Ekki beint í samtali heldur sem fyrirmynd, því hvernig hún er. Ég myndi ekki segja að hún hafi haft áhrif á það hvernig ég er sem stærðfræðingur, en hvernig ég haga mér og hvernig ég tekst á við vandamál. Þessi virðing, hlýja og góðmennska.
Við höfum alltaf verið góðir vinir og ég get sagt henni allt. Ef persónuleg vandamál koma upp er mamma fyrsta manneskjan sem ég hringi í. Ég hef aldrei farið í fýlu út í hana eða uppreisn gegn henni, nema kannski mögulega þegar ég var lítið barn. Ég hef alltaf elskað mömmu, frá því að ég var lítill og ég hef alltaf verið mikill mömmustrákur.
Athugasemdir (1)