Það virðist ekki lengur gjósa úr sprungunni sem opnaðist innan varnargarða, og við bæjarmörk Grindavíkur, með þeim afleiðingum að þrjú hús fóru undir hraun í gær. Hraunstraumur úr þeirri sprungu virðist alveg hafa stöðvast. Þetta kemur fram á vef RÚV. Ekki er að sjá að fleiri hús hafi orðið hrauninu að bráð, en þau sem það urðu stóðu öll við götuna Efrahóp í Grindavík.
Þar er rætt við Elísabetu Pálmadóttur, náttúruvársérfræðing á Veðurstofu Íslands, sem segir að hraunflæðið úr fyrri sprungunni sem opnaðist, og var mun stærri, hafi minnkað og að gas frá eldstöðvunum blási á haf út.
Af myndum að dæma virðist þorri þess hrauns sem rann úr stærri sprungunni hafa runnið meðfram varnargarðinum sem verið var að reisa við Grindavík þegar gosið hófst rétt fyrir klukkan átta í gærmorgun.
Nóttin var að mestu tíðindalítið og hraunrennslið úr gosinu virðist minna en óttast var.
Skemmdir á innviðum og verðmætabjörgun
Miklar skemmdir hafa orðið á innviðum í Grindavík. Rafmagns- og hitavatnslaust er í bænum og lagnir, sem þegar hafa hreyfst verulega til og í einhverjum tilvikum farið undir hraun, gætu skemmst hratt í því frosti sem er framundan takist ekki að koma heitu vatni á bæinn fljótlega.
Í Morgunblaðinu í dag er greint frá því að menn sem sáust hlaupa í átt að gosinu skömmu eftir að það hófst til að bjarga vinnuvélum sem voru á svæðinu hafi tekist að bjarga verðmætum upp á um 800 milljónir króna. Alls tóku átta menn þátt í þeim aðgerðum, þar af tveir björgunarsveitarmenn sem voru með gasmæla og vöktuðu svæðið.
Aðgerðir kynntar í dag
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra boðaði stórauknar stuðningsaðgerðir fyrir Grindvíkinga á blaðamannafundi almannavarna í gær en fór ekki yfir nákvæmlega í hverju þær muni felast. Grindvíkingum verði tryggður aukinn aðgangur að sálgæslu og annarri bakþjónustu og í dag mun ríkisstjórn Íslands funda um útfærslu frekari stuðningsaðgerða.
Þær munu snúast um húsnæðismál, afkomu fólks í Grindavík og stuðning við fyrirtæki í bænum. „Við munum setja stóraukinn kraft í að kaupa íbúðir til að tryggja aðgengi að húsnæði fyrir Grindvíkinga sem er ekki nægilega gott nú.“ Markmiðið sé að koma öllum sem eru í skammtimahúsnæði í öruggari stöðu eins fljótt og kostur er. „Við munum flýta, eins og kostur er, allri vinnu við uppgjör á tjóni í samvinnu við sveitarfélagið.“
Athugasemdir