Þær virðast ekki lengur svífa, höfuðstöðvar Orkuveitu Reykjavíkur að Bæjarhálsi 1 í Reykjavík. Húsið sem myglaði, var selt og keypt aftur, hefur fengið gjörbreytt útlit eftir endurbyggingu sem nú er lokið að utan en verður ekki lokið að innan fyrr en að ári liðnu. Allt mun þetta kosta Orkuveituna yfir 3,3 milljarða króna (fyrir utan virðisaukaskatt) og er þá ótalinn kostnaður við alls konar rannsóknir og greiningar síðustu árin, fyrri árangurslausar viðgerðir og leigu á húsnæði fyrir starfsfólk annars staðar.
Höfuðstöðvar OR voru teknar í notkun á vormánuðum árið 2003. Byggingin er um 14.000 fermetrar og skiptist í tvö sjálfstæð hús; sjö hæða ferhyrnda byggingu (Austurhús) og aðra átta hæða bogalaga (Vesturhús). Húsin tvö eru tengd saman með 27 metra hárri glerhvelfingu.
Um 7.400 fermetrar voru parketlagðir sem taldist þá stærsti parketlagði gólfflötur landsins. Terrassó-flísar voru á 2.000 fermetrum sem einnig var stærsti gólfflötur lagður slíku úrvalsefni. Þá voru 7.000 fermetrar af lofti hússins klæddir með álpanel og, viti menn, taldist það stærsta panelloft landsins á sínum tíma.
Vesturhúsið var mjög sérstakt í útliti og átti að vera einhvers konar tákngervingur hátækniframtíðar Orkuveitunnar. Veggir hölluðu og það var „meira svífandi og létt yfir því enda er það allt úr stáli og gleri,“ sagði Ögmundur Skarphéðinsson, einn af arkitektunum, í Morgunblaðinu er húsið var vígt. Byggingin átti að virka síbreytileg „eftir sjónarhorni, tíma og veðri“.
Ekki leið langur tími frá vígsluathöfninni þar til vart var við leka. Lagfæring var reynd sem og árin 2009 og 2014 er þakið fór að leka.
Eftir að starfsmenn hófu hins vegar að veikjast árið 2015 uppgötvuðust alvarlegar rakaskemmdir í hinni svífandi byggingu. Fljótlega kom í ljós að mygla hafði myndast víða í útveggjum. Viðamiklar tilraunir voru gerðar til að laga veggina en þær reyndust árangurslausar.
Árið 2017 var tekin ákvörðun um að loka húsinu og starfsemin færð annað, m.a. í leiguhúsnæði utan höfuðstöðvanna. Vesturhúsið hefur ekki verið í notkun síðan.
Næstu mánuðir fóru í að skoða hvaða möguleikar væru í stöðunni. „Samdóma álit margra sérfræðinga var að ekki væri hægt að lagfæra þá,“ segir Breki Logason, stjórnandi samskipta og samfélags hjá OR. Var niðurstaðan því að endingu sú að fjarlægja gallaða útveggi hússins, rétta það af og endurbyggja.
„Þetta var mikil framkvæmd sem á sér ekki fordæmi hér á landi“
Stjórn OR samþykkti að ráðast í verkefnið á stjórnarfundi þann 16. desember 2019, eða fyrir fjórum árum. Grundvöllur samþykktar stjórnar var m.a. kostnaðaráætlun verkefnisins sem hljóðaði upp á 2.050 milljónir króna fyrir utan virðisaukaskatt og var samið við Ístak um verkið. „Þetta var mikil framkvæmd sem á sér ekki fordæmi hér á landi en þeirri framkvæmd er lokið og heppnaðist hún afskaplega vel,“ segir Breki. Þegar upp var staðið var kostnaður ívið lægri en áætlanir gerðu ráð fyrir, eða 2.038 milljónir króna án virðisaukaskatts.
En þar með er ekki öll sagan sögð. Enn á eftir að lagfæra húsið að innan. Sú framkvæmd var boðin út í fyrra og aftur samið við Ístak sem nýlega hóf þá vinnu sína.Tilboðsupphæðin var 1.321 milljón króna fyrir utan virðisaukaskatt. Verklok eru áætluð um næstu áramót.
Næst stendur til að gera við glerhvelfinguna milli húsanna.
Athugasemdir (1)