Yfirvofandi kosningar til embættis forseta Íslands virðast valda mörgum áhyggjum. Er það einróma álit Twitter-spekúlanta að stefni í mikla trúðasýningu.
Hefð er fyrir því að hlegið sé að trúðum. Samlíkingin öðlast hins vegar óvænta dýpt þegar litið er til þess að í eðli trúðsins felst einnig að hlegið sé með honum.
Virðingarvottur eða gagnrýni?
Eitt af síðustu tónverkum Johanns Sebastian Bach var Tónafórn, safn af flóknum fúgum og kanónum. Verkið samdi tónskáldið sem virðingarvott við Friðrik mikla Prússakonung. Eða svo segir sagan.
Vorið 1747 ferðaðist Bach margra daga leið frá heimili sínu í Leipzig til hallar konungs í Potsdam. Bach hafði komið sér undan heimsókninni árum saman; hann var 62 ára, heilsuveill og lítill aðdáandi einvaldsins. En óskir konungs yrðu ekki hunsaðar lengur.
Í Potsdam beið Bach það sem átti að vera nær óleysanleg þraut. Konungur, sem samdi sjálfur tónlist og spilaði á flautu, hafði útbúið flókið stef sem Bach var ætlað að leika af fingrum fram fyrir gesti á formi þriggja radda fúgu. Hirðinni til furðu fór tónskáldið létt með þrautina. Konungur lét ekki þar við sitja heldur fól Bach að semja sex radda fúgu. Bach fór heim og samdi Tónafórn handa kóngi.
Friðrik 2. hinn mikli, eða Fritz, tók við völdum árið 1740 af föður sínum, Friðriki 1. Friðrik eldri, sem þekktur var fyrir grimmd sína, hafði ætlað syni sínum að verða hermaður. Hann lét vekja Fritz með fallbyssuhvelli á hverjum morgni. Hann barði son sinn fyrir að detta af hestbaki og klæðast hönskum þegar kalt var úti.
Föður sínum til gremju hafði Fritz þó eingöngu áhuga á tónlist, bókmenntum og franskri menningu. Þegar Fritz var átján ára ráðgerði hann að flýja frá Prússlandi til Englands ásamt nánum vini sínum. Félagarnir voru handsamaðir og gaf Friðrik 1. skipun um að sonur hans yrði látinn horfa á er vinur hans var hálshöggvinn.
En þrátt fyrir uppreisn Fritz gegn föður sínum varð hann sem konungur þekktur fyrir umfangsmikið hernaðarbrölt. Prússland varð undir stjórn hans eitt mesta hernaðarveldi Evrópu og hernámu sveitir hans meðal annars Leipzig, heimaborg Bach.
Sé rýnt í Tónafórn Bach blasir við meira en meistaraleg tónsmíð. Þeir sem þekkja til kontrapunkts, aðferðarinnar sem Bach notaði er hann samdi tónlist, þykjast sjá í safninu eina beittustu pólitísku gagnrýni tónlistarsögunnar. Með fúgu í stað orða á Bach að hafa gagnrýnt lífssýn, hroka og tónlistarsmekk kóngsins án þess að einvaldurinn yrði þess var.
Bann við trúðum
Svo gæti farið að heil trúðasveit byði sig fram til embættis forseta Íslands. Það verður eflaust hlegið að trúðunum. Við höfum þó einnig ástæðu til að hlæja með þeim.
Eitt mesta tónskáld sögunnar þorði ekki öðru en að heimsækja kóng sinn og leysa þrautir hans eins og hvert annað hirðfífl. Bach kann að hafa fundist Friðrik mikli hálfgerður trúður. Honum var þó ekki stætt að lýsa þeirri skoðun sinni öðruvísi en með fúgu.
„Það verður eflaust hlegið að trúðunum. Við höfum þó einnig ástæðu til að hlæja með þeim.“
Deilt er um arfleifð Friðriks mikla. Honum er talið til tekna að hafa verið upplýstur einvaldur, staðið að umbótum á stjórn- og réttarkerfinu og stuðlað að auknum borgararéttindum. Grimmilegar hernaðaraðgerðir hans brjóta hins vegar óþyrmilega í bága við hugmyndir upplýsingarinnar.
Hvað samtíðarfólki fannst um Friðrik mikla er hins vegar þýðingarlaus spurning. Því hvort sem Bach og samferðamönnum hans fannst hann harðstjóri, hetja eða trúður sátu þeir uppi með hann.
Hin hliðin á þeirri trúðasveit sem mætir senn í bæinn er einmitt frelsi okkar undan trúðnum. Þeim sem líkar illa við trúða er frjálst að bjóða sig fram gegn þeim. Reynist sigurvegari kosninganna trúður eigum við þess kost að kjósa hann burt eftir fjögur ár. Í tilvist trúðsins er fall hans falið.
Það er freistandi að banna trúða. En hin hlið þess penings er sú að við þurfum öll að læra að tjá okkur með fúgum.
Athugasemdir