„Ég á nú svolítið skrautlegan feril, þannig séð. Það hefur flest gengið mér í hag. Ég var voðalega heppinn með eiginkonu, við studdum hvort annað með ráði og dáð.
Svo bjargaði ég nú lífi mínu einu sinni, aðfaranótt 28. ágúst 1988. Ég var kennari við Vélskóla Íslands og naut þess að gera eitthvað úr löngu sumarfríi sem tíðkaðist þá. Þá fór ég í smábátaútgerð og missti bát niður í Hornafjarðarósi á mjög hörðu innfalli, þá getur myndast mjög hættuleg röst í ósnum sem maður verður að varast. Ég var með fullfermi og það var brot sem náði inn að bátnum að aftanverðu og sökkti honum. Ég náði ekki að losa björgunarbátinn af þakinu og báturinn stóð alveg upp á endann. Svo sá ég að það var eitthvað bogið við festingarnar og það kom síðar á daginn að þær voru ólöglegar.
„Mér varð hugsað til minna nánustu. Mér fannst það versta að bregðast þeim“
Ég synti í land, það var ekki undir hálfum kílómetra, í ískulda. Það rigndi. Ég bjó að því að hafa synt sem krakki og unglingur í Lagarfljóti. Sennilega réði það úrslitum að ég var farinn að synda það yfirvegað til að ofþreyta mig ekki, en samt ekki þannig að ég ofkældist. Það var vandi en ég náði þessum ryþma. Mér varð hugsað til minna nánustu. Mér fannst það versta að bregðast þeim.
Ég náði landi á Austurfjörutanga, örmagna, og varð svo að hlaupa um meira og minna í fimm, sex tíma til að halda á mér hita þangað til að bátur kom til veiða, þá var ég búinn að missa af þremur á undan honum. Þeir sáu mig ekki, það var svo dimmt. En Sigurður nokkur á bátnum Fáfni sá mig. Ég fann stikur í fjörunni með endurskinsmerki og hann sá bjarmann, hélt náttúrlega að þetta væri draugur eða eitthvað, sæskrímsli. Svo áttar hann sig og keyrir 30 tonna bátinn upp í fjöruna, reynir að henda í mig línu en hún náði ekki þannig ég þurfi að synda á móti henni. Þegar ég kom um borð bauð Sigurður mér sígarettu, sem ég þáði, ég var búinn að vera í bindindi í nokkur ár en ég reykti í tvo sólarhringa og hugsaði með mér: Djöfullinn, þetta skal ekki verða til þess að ég fari að reykja aftur. Svo ég hætti.
Það var miklu stærra sundafrek, Guðlaugur Friðþjófsson frá Vestmannaeyjum. Hann var mér fyrirmynd þarna. Ég sagði við sjálfan mig: Jesús Kristur, og henti mér í sjóinn þegar báturinn seig endanlega undan mér.“
Athugasemdir