Tómas Guðbjartsson læknir er kominn í leyfi frá Landspítalanum. Fréttaskýringaþátturinn Þetta helst á RÚV greindi fyrst frá og var þar haldið fram að brotthvarf Tómasar frá störfum tengdist aðkomu hans að plastbarkamálinu. Sögðust umsjónarmenn þáttarins hafa heimildir fyrir því að framtíð og staða Tómasar væri í skoðun hjá æðstu stjórnendum Landspítalans. Einhverjir teldu að hann yrði að hætta störfum vegna aðkomu sinnar að plastbarkaígræðslunni á Andemariam Beyene.
Samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar var það Tómas sjálfur sem óskaði þess að fara í leyfi frá störfum. Talsmenn Landspítala sögðust ekki geta tjáð sig um málið þegar Heimildin hafði samband.
Plastbarkamálið er eitt stærsta hneykslismál síðari ára í læknisfræði á Vesturlöndum. Í því fólst að skurðlæknirinn Paolo Macchiarini framkvæmdi tilraunakenndar aðgerðir þar sem plastbarkar voru græddir í manneskjur á einum virtasta spítala heims, Karolinska í Stokkhólmi. Var það án vísindalegra forsendna, án fyrri prófana á dýrum og án samþykkis vísindasiðanefndar Svíþjóðar. Fyrsti plastbarkinn var græddur í Andemariam Beyene árið 2011.
Aðkoma Tómasar að ígræðslunni
Andemariam, sem kom frá Erítreu, var búsettur á Íslandi og sendur í aðgerðina í Svíþjóð í gegnum Landspítalann. Var hann haldinn krabbameini í hálsi sem hafði tekið sig aftur upp. Tómas Guðbjartsson var læknir Andemariams – sá sem bar ábyrgð á og sá um meðferð hans. Tómas var þátttakandi í aðgerðinni árið 2011 og sá sem sá um eftirmeðferð á Íslandi.
Að áeggjan Macchiarinis breytti Tómas tilvísun um sjúkdómsástand sjúklings síns þannig að það liti út fyrir að búið væri að útiloka allar læknismeðferðir fyrir hann. Var það til að undirbyggja og réttlæta það að Andemariam gengist undir óprófaða tilraunaaðgerð í stað annarra meðferðarúrræða.
Ekkja Andemariams, Mehrawit Baryamikael Tesfaslase, hefur greint frá því að Macchiarini hafi talað mann hennar til og sagt við hann að án aðgerðarinnar myndi hann láta lífið. Maðurinn lést, sem og aðrir plastbarkaþegar, eftir að hafa gengist undir ígræðsluna. Dó hann hægum og kvalafullum dauðdaga en barkinn virkaði aldrei sem skyldi.
Ári eftir að Andemariam undirgekkst aðgerðina tóku hann, Macchiarini og Tómas Guðbjartsson þátt í málþingi við Háskóla Íslands. Á þinginu var aðgerðinni lýst sem kraftaverki nútíma læknavísinda. Var þessu haldið fram þrátt fyrir að ljóst væri að aðgerðin hefði ekki gengið sem skyldi. Macchiarini hélt í framhaldinu áfram að gera sambærilegar aðgerðir á öðru fólki. Var hann í fyrra dæmdur í fangelsi fyrir að hafa valdið Andemariam og tveimur öðrum sjúklingum líkamstjóni með aðgerðunum.
Á síðasta ári bað Landspítalinn Mehrawit afsökunar fyrir aðkomu sína að málinu. Er spítalinn eina stofnunin sem hefur gert það að svo stöddu, en hvorki Karolinska-sjúkrahúsið né Karolinska-háskólinn hafa haft samband við ekkju Andemariams.
Athugasemdir (1)