Fyrir utan Alþingishúsið við Austurvöll hafa nokkrir menn frá Palestínu, sem hafa enn líkamlegan og andlegan styrk til, eins og þeir lýsa því, slegið upp einskonar tjaldbúðum í mótmælaskyni við því sem þeir lýsa sem aðgerðarleysi stjórnvalda er varðar fjölskyldusameiningu. Þeir hafa allir fengið fjölskyldusameiningu samþykkta en segja aðgerðarleysi stjórnvalda felast í því að fjölskyldumeðlimir þeirra, þar á meðal makar og börn, eru enn staddir á Gaza og eiga því á hættu að vera drepnir af Ísraelsher sem til þessa hefur drepið yfir 21 þúsund manns, um helmingur þeirra eru börn.
Mennirnir, sem hafa dvalið í tæpa tvo sólahringa í tjöldum í frosti og kulda, hafa nú sent frá sér yfirlýsingu sem aðgerðarsinnar, eins og segir í henni, skrifa einnig undir. Þar ítreka þeir þau áform sín að dvelja í tjöldunum „þar til ástvinir þeirra hafa verið fluttir frá Gaza og til Íslands“.
„Hver sólarhringur skiptir sköpum,“ segir í yfirlýsingu og því næst er tekið dæmi um að hús eiginkonu eins flóttamannsins, sem átti rétt á að sameinast eiginmanni sínum hér á Íslandi, hafi orðið fyrir loftárásum Ísraelshers. „Með þessu áframhaldi munu hreinlega ekki vera neinar fjölskyldur eftir til að sameina.“
Naji Asar, sem hefur fengið dvalarleyfi fyrir 13 fjölskyldumeðlimi sína, þar af átta börn, sagði í samtali við Heimildina í gær að Ísland geti vel gert meira til að hjálpa og sagðist ekki skilja hvernig hægt hafi verið að bjarga tafarlaust 120 Íslendingum sem staddir voru í Ísrael þann sjöunda október og þeim komið í skjól en það sama ætti ekki að eiga við um fjölskyldumeðlimi hans.
„Af hverju ekki okkur?“ spurði hann og bætti svo við:
„Þá það, ef þið viljið ekki hjálpa. Komið mér þá aftur heim. Ég vil fá að deyja með fjölskyldunni minni. Ég vil ekki deyja hægt.“
Fela sig á bakvið lokuð landamæri
Íslensk stjórnvöld eru sögð fela sig á bak við að landamæri Palestínu og Egyptalands eru lokuð við Rafah landamærastöðina en í yfirlýsingunni segir að dæmi séu þess að önnur lönd hafi komið fólki þar í gegn og þau sótt og þeim komið til viðkomandi ríkis í skjól. „Lönd á borð við Bretland, Kanada og Þýskaland, auk nágrannaríkja okkar Noregur og Svíþjóð, hafa á seinustu dögum tekið við fólki á flótta frá Gasa.“
„Með þessu áframhaldi munu hreinlega ekki vera neinar fjölskyldur eftir til að sameina.“
Í lok yfirlýsingarinnar er þess krafist að Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumálaráðherra, Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra og Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra komi til fundar við mótmælendur til að hlusta á kröfur þeirra. „Viðbragðsleysi ykkar er óásættanlegt, eftir hverju eruð þið að bíða? Hvorki mótmælendur fyrir utan Alþingi né fjölskyldur þeirra í Gasa geta beðið.“
Hér er
í heild sinni:
„Kröfur aðgerðasinna og palestínsks flóttafólks til ráðherra:
Í tæplega tvo sólarhringa hefur fólk á flótta frá Gasa dvalið í tjaldbúðum fyrir utan Alþingi á Austurvelli í mótmælaskyni við aðgerðarleysi stjórnvalda varðandi fjölskyldusameiningu palestínsks flóttafólks. Þar áforma þau að dvelja uns ástvinir þeirra hafa verið flutt frá Gasa.
Hver sólarhringur skiptir sköpum. Í fyrradag var til dæmis hús eiginkonu eins flóttamannsins, sem átti rétt á að sameinast eiginmanni sínum fyrir loftárás Ísraelshers. Með þessu áframhaldi munu hreinlega ekki vera neinar fjölskyldur eftir til að sameina.
Hér er um að ræða neyðartilfelli sem krefst tafarlausra aðgerða. Við krefjumst þess að æðstu ráðamenn Íslands fullnýti vald sitt við það að koma fólki, sem þegar hefur fengið dvalarleyfi á forsendum fjökskyldusameiningar, til Íslands sem fyrst.
Íslensk stjórnvöld fela sig bakvið þá staðhæfingu að ekki sé hægt að koma flóttafólki hér til landsins vegna lokaðra landamæra, en til eru dæmi um að fólk hafi verið sótt í gegnum Rafah landamærin milli Gaza og Egyptalands. Daglega er verið að hleypa fólki þar yfir landamærin, lönd á borð við Bretland, Kanada og Þýskaland, auk nágrannaríkja okkar Noregur og Svíþjóð, hafa á seinustu dögum tekið við fólki á flótta frá Gasa.
Við krefjumst fundar og svara frá félags- og vinnumarkaðsráðherra, utanríkisráðherra og dómsmálaráðherra – viðbragðsleysi ykkar er óásættanlegt, eftir hverju eruð þið að bíða? Hvorki mótmælendur fyrir utan Alþingi né fjölskyldur þeirra í Gasa geta beðið.“
Athugasemdir (2)