Á aðfangadag árið 1869 sendi rithöfundurinn Charles Dickens svo áríðandi skeyti til umboðsmanns síns að það var ritað í hástöfum: „HVAR ER KALKÚNNINN? HANN ER EKKI ENNÞÁ KOMINN!!!!!!!!!!!“
Þrátt fyrir ítarlegar áætlanir og vandlegt skipulag barst Dickens aldrei jólamaturinn. Eldur braust út í lestarvagni sem flutti þrettán kílóa kalkúninn, gjöf frá umboðsmanninum, og aðrar jólakræsingar til Kent-sýslu þar sem Dickens bjó.
Ófyrirséðar jólahremmingar Dickens vöktu eftirtekt fyrir nokkrum árum þegar bréf fannst í skjalasafni Járnbrautasafnsins í York. Dickens hafði brugðist við afsökunarbeiðni forsvarsmanna lestarfyrirtækisins og skrifað þeim að hann væri „sannfærður um að jólakræsingar hans hefðu eyðilagst af orsökum sem ekki hefði verið hægt að sjá fyrir“ og að hann hefði „komist yfir áfallið án þess að viðhorf hans í garð Great Western-lestarfyrirtækisins biði hnekki.“
Kómískt fánýti
Að sögn breska sálfræðingsins Adam Phillips skiptist tilvist okkar í tvennt: Í hið eiginlega líf og fantasíulíf, líf sem við lifum aldrei en við teljum að hefði getað orðið. Þetta „ólifaða“ líf, samkvæmt Phillips, tekur svo mikið pláss í hugum okkar að við eyðum í raun ævinni með manneskjunum sem okkur tókst aldrei að verða.
Á áramótum ásækir okkur ákafar en aðra daga vofa þess sem hefði getað orðið. Því áramót eru tíð uppgjörs og framtíðarsýnar, spádóma og áætlanagerða.
Á gamlárskvöld 2019 skálaði ég fyrir komandi ári og strengdi dæmigerð heit. Ég skyldi hefjast handa við allt það sem ég hafði ætlað mér að gera en aldrei komið í verk. Aðeins tveim vikum síðar sat ég við sjúkrarúm dóttur minnar á spítala; sprunginn botnlangi hafði ekki verið í áætlunum ársins. Þær þrjár vikur sem við ílengdumst á spítalanum lagði ég drög að því hvernig koma mætti ráðagerðum ársins aftur á réttan kjöl þegar allt félli í samt lag. Skömmu fyrir útskrift á spítalanum las ég í blöðunum litla frétt um nýjan vírus í Kína. Allir vita hvað gerðist næst.
„Það er erfitt að spá; sérstaklega um framtíðina.“ Tilvitnunin, sem eignuð hefur verið mörgum spekingum, fangar kómískt fánýti slíkrar iðju. Máttleysi okkar gagnvart framtíðinni er eins og smæð okkar frammi fyrir náttúruöflunum.
Upp á síðkastið hefur eldgosið á Reykjanesskaga haft að háði spádómsgáfur okkar mannanna. Bláa lónið hafði ekki fyrr opnað aftur ferðamönnum en eldgos brast á. Grindvíkingar bjuggu sig undir að halda jólin heima hjá sér en iður jarðar kærðu sig kollótt um plön þeirra.
Brunninn kalkúnn Charles Dickens var ekki í standi til að prýða jólaborð eins fremsta rithöfundar Breta. Brunarústirnar þóttu þó nógu góðar ofan í pöpulinn. Eftir eldsvoðann var fuglinn bútaður niður og skammturinn seldur íbúum bæjarins Reading á sex pens.
Eftir mislukkuð áform jólanna hóf Dickens nýtt ár með nýjar fyrirætlanir í farteskinu. Hann var með margt í bígerð, svo sem upplestrarröð og nýja bók í smíðum. En hin kalkúnalausu jól reyndust Dickens þau síðustu. Hann lést úr heilablóðfalli frá ókláraðri bók nokkrum mánuðum síðar.
Út í óvissuna
Á áramótum er freistandi að spá og spekúlera, skipuleggja og skerpa ásetninginn. Staðreyndin er hins vegar sú að sama af hve mikilli festu við teljum okkur njörva niður framtíðina er aðeins einn sá spádómur sem líklegur er til að rætast: Framtíðin mun halda áfram að koma okkur á óvart.
Fyrir andlát sitt hafði Dickens lagt drög að því að hann yrði jarðsettur í dómkirkjunni í Rochester nærri heimili sínu án minnsta íburðar. Þau áform fóru út um þúfur þegar hann var grafinn í hinum tilkomumikla Skáldakima í Westminster Abbey í Lundúnum.
Ónýtar áætlanir ná út fyrir gröf og dauða. Er við kveðjum árið sem senn er á enda höldum við enn á ný út í óvissuna.
Ég þakka lesendum samfylgdina 2023 og óska ykkur farsældar á nýju ári – hvað sem það kann að bera í skauti sér.
Athugasemdir (2)