Á Þorláksmessu verður hvítur friðarfáni með mynd af dúfu dreginn að húni við ráðhús Reykjavíkur og hann látinn standa í mánuð, en tillaga þessa efnis var samþykkt á fundi borgarráðs í dag. Tillagan var borin upp af öllu borgarráði, auk áheyrnarfulltrúa.
Ákall hefur uppi um að palestínskum fána verði flaggað við ráðhúsið við Tjörnina undanfarnar vikur, en fulltrúar Sósíalistaflokksins í borgarstjórn voru á meðal þeirra sem höfðu lagt það til.
Undir lok nóvember var palestínskur fáni svo dreginn að húni við ráðhúsið að næturlagi, en fjarlægður að morgni dags.
Í tillögunni sem borgarráð samþykkti í dag kemur fram að hvítum friðarfána verði flaggað í „þágu mannúðar“ og „til stuðnings við þá skýlausu kröfu að almennum borgurum sé hlíft við stríðsátökum í þágu mannúðar“.
Ráðgjöf frá Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála
Í tillögunni sem borgarráð samþykkti í dag segir jafnframt að friðardúfan sé táknræn fyrir frið, samhug, samstöðu og mannúð. Þar segir einnig að borgarráð hafi leitað til Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands, sem hafi mælt með fána með friðardúfu.
„Lagt er til að friðarfáninn verði dreginn að húni við Ráðhús Reykjavíkur á Þorláksmessu og standi í mánuð,“ segir í tillögunni, sem var síðasta mál á dagskrá á fundi borgarráðs í dag.
Athugasemdir (1)