Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir að það megi teljast heppni að vindur stóð ekki af suðaustri í kvöld, er eldgos hófst á nokkurra kílómetra langri sprungu norðaustan Grindavíkur.
Ef svo hefði farið hefði gosmökkinn „lagt beinustu leið yfir Reykjanesbæ og Garðskaga“ og Keflavíkurflugvöllur jafnframt að öllum líkindum lokast.
Í staðinn hefur vindur blásið úr vestri og mun vindáttin haldast nokkuð stöðug til morguns. Næsta þéttbýli til austurs, sem gosmóðan leggur þá yfir, er Þorlákshöfn.
„V-átt er fremur heppileg vindátt, en þó gæti slegið niður gasi í Þorlákshöfn og neðantil í Ölfusinu. Eins á Eyrarbakka og Stokkseyri og e.t.v. víðar í lágsveitum Suðurlands,“ skrifaði Einar í færslu á Facebook í nótt.
Á morgun verður vindáttin svo enn heppilegri, eða norðvestanátt með strekkingsvindi, sem þýðir að gosmökkinn leggur yfir Krísuvíkurbjarg og þaðan beint á haf út.
Athugasemdir