Kirkjuklukkurnar í útvarpinu hringdu inn jólin í hvítinnréttaðri stofu í einbýlishúsi á Álftanesi. Á sex handgerðum diskamottum úr Epal birtust sex ferkantaðar undirskálar með einhverju sem Hervöru sýndist vera jarðarber vafið inn í hrátt ýsuflak í polli af fuglaskít.
„Hér erum við með smá amús-búss,“ sagði Aldís skært og bandaði með hendinni.
Hervör gretti sig. Hún hafði ekki ætlað að koma. Hún hafði eytt aðfangadagskvöldi innan um sérinnflutt ítölsk húsgögn á heimili sonar síns og tengdadóttur síðustu sextán ár en eitthvað sagði henni að halda sig frá nýtískulegum hátíðarhöldunum þessi jól. En Jóhannes hafði ekki hætt að suða í henni. Eins og lélegt jólalag þrástagaðist hann á því að jólin væru tími fjölskyldunnar, tími fyrirgefningar og nýs upphafs svo að Hervör lét loks undan. Hvað var það versta sem gæti gerst? Það versta hafði nú þegar gerst. Á sama tíma og sama stað fyrir ári – upp á dag. Eldingu lysti varla niður tvisvar á sama stað.
„Makríl-sashimi fyllt með jarðarberja kompót og þistilhjarta- og kavíar púrre.“
Hervör skildi ekki helminginn af því sem Aldís sagði. Barnabörnin þrjú – Sólveig, feitlagin táningsstúlka sem virtist með öllu ómeðvituð um þá staðreynd að þótt hún makaði framan í sig öllum heimsins andlitsfarða yrði hún aldrei falleg, Hrafnkell, tólf ára sláni með meira gel í hárinu en vit í kollinum og Máni þriggja ára skítugur horgemlingur – virtust ekki kippa sér upp við óskapnaðinn á diskunum. Hvenær varð þetta unga fólk of gott fyrir hangikjöt og uppstúf?
Jóhannes stóð skyndilega fyrir aftan hana, rétt eins og að hann hefði smogið út úr andrúmsloftinu og tekið á sig fast form úr engu. Hann hafði verið svona sem barn. Eina stundina sat Hervör í næði við eldhúsborðið og gerði krossgátu, þá næstu stóð Jóhannes andspænis henni og mændi á hana tómum, hrímgráum augum.
Hann fyllti rauðvínsglasið hennar upp í topp. „Aldís fór á smáréttanámskeið hjá Jóa Fel.“ Hann hljómaði kátur. Það fór í taugarnar á Hervöru. Yfir hverju hafði hann ástæðu til að kætast? Hún hafði lesið í blöðunum að skartgripaveldið hans væri að hruni komið, væri í gjörgæslu hjá bönkunum.
„Ó, þetta er nú ekki flókið,“ sagði Aldís en stoltið glampaði svo tært á skjannahvítum tönnunum í henni – postulín – að það hefði mátt halda að á disknum lægi lækningin við malaríu. Konur nú til dags virtust ekki geta leyst vind án þess að fara fyrst á námskeið í því. Það voru kokkanámskeið, bollakökunámskeið, kynlífsnámskeið. Hvað yrði það næst? Námskeið í að draga andann?
Jóhannes og Aldís létu loks af uppistandinu og settust til borðs.
„Ekki drekka bara jólablandið, Hrafnkell minn,“ sagði Aldís og teygði smeðjulega á sérhljóðunum. Hervör herti takið á hnífapörunum. Ekki furða að Hrafnkell var óstýrilát frekjudós og Sólveig sjálfhverf Svínka eins og ungdómurinn orðaði það (eða var það skinka?).
„Smakkaðu fiskinn, Keli,“ bætti Jóhannes við af sömu linkindinni.
Birta kertanna endurkastaðist af hvítri, háglansandi borðplötunni. Hervör var að fá höfuðverk.
„Við erum með óvæntan glaðning handa þér á eftir, mamma.“
Aha. Þarna var hún. Ástæða þess að hún hefði átt að halda sig heima. Borða flatkökur fyrir framan fúla jólatónleika sem Sjónvarpið hafði fengið í kaupbæti með einhverri norrænu glæpaþáttaseríunni.
„Ertu ekki spennt, Hervör?“ hjalaði Aldís eins og Hervör væri hvítvoðungur, elliær kerling gengin í barndóm hinn síðari.
En Hervör vissi hvað klukkan sló. Í síðasta mánuði, eftir að hún varð frjáls ferða sinna aftur, höfðu Jóhannes og Aldís sagt að hún gæti ekki búið ein á Öldugötunni til frambúðar. Þau vildi finna henni þjónustuíbúð. Hervör hunsaði tillöguna. Hún var enginn andskotans ósjálfbjarga gamlingi. Hún var ekki nema 68. Jóhannes og Aldís hófu engu að síður leitina.
Hvenær varð þetta unga fólk of gott fyrir hangikjöt og uppstúf?
Hervör benti á hvítan leðursófa í sjónvarpshorni stofunnar. „Er hann nýr?“
Það réttist úr Jóhannesi. „Já, við fengum hann afhentan fyrir jólin. Kálfsleður. Frá Sviss. Verðið eftir því.“ Það hrein í honum.
Þegar kom að Jóhannesi og Aldísi snerist allt um peninga. Tilraun þeirra til að koma henni fyrir á sambýli fyrir aumingja; ástæða þess að þau létu loka hana inni á Landspítalanum eftir síðustu jól – hvort tveggja snerist um peninga. Það kom Hervöru ekki á óvart þegar hún kom heim af vitleysingahælinu við Sundahöfn að Kjarvalsverkið sem Eysteinn hafði gefið henni í 20 ára brúðkaupsafmælisgjöf væri horfið. Jóhannes sagðist ekki hafa getað látið slík verðmæti hanga uppi í tómu húsi. En mánuður var liðinn síðan hún kom heim og ekkert bólaði á Kjarval.
Í aðalrétt var dádýr frá Skotlandi. Það dýrasta á markaðnum sagði Jóhannes. Möndlugrautinn fengju þau þegar búið væri að opna gjafirnar.
Þau færðu sig í setustofuna. Jóhannes og Aldís lásu til skiptis á pakkana. Sætið við hliðina á Hervöru í litla sófanum við arininn var autt.
Það var þeim að kenna.
Hervör beit í tunguna á sér. Best að segja sem minnst. Ekki vildi hún enda aftur á Kleppi. En hvorki pillur né raflost í höfuðið gátu fengið hana til að gleyma hverjir báru ábyrgð á því að Eysteinn var tekinn frá henni.
Jóhannes og Aldís höfðu komið til þeirra á Öldugötuna á Þorláksmessu í fyrra og heimtað að þau Eysteinn skrifuðu upp á lán fyrir sig. Hervör hélt nú ekki. Nógu höfðu þau tapað á viðskiptaævintýrum sonarins. Það var sólbaðsstofan. Líkamsræktarstöðin. Jógúrtísbúðin. Jóhannesi var nær að færast of mikið í fang. Hann hefði betur látið vera að opna skartgripaverslunina í Smáralindinni. Var ekki nóg að vera í Kringlunni? En Eysteinn var ljúfmenni. Myndrænar lýsingar Aldísar á glorsoltnum afkvæmum hennar á götunni fengu svo á hann að hann drakk og drakk allan aðfangadag og allt aðfangadagskvöld.
Það gerðist eftir möndlubúðinginn. Hann hneig niður, froðufelldi – svo ekkert meir.
Við krufningu fannst frostlögur í líkama hans. Lögregluskýrslan kvað Eystein hafa verið ofurölvi og ruglast á vodka og flösku af frostlegi. Hervör trúði ekki slíkum mistökum upp á Eystein. En lögreglumaður sagði að þetta gerðist stundum. „Frostlögur er alls ekki vondur á bragðið,“ sagði hann. „Hann er sætur.“
„Mamma.“
Hervör hrökk við.
„Það er komið að glaðningnum.“
Jóhannes, Aldís og börnin stóðu fyrir framan hana og héldu á stórum flötum jólapakka. Hervör spáði því að þetta væri innrömmuð ljósmynd af þjónustuíbúðinni sem átti að senda hana í.
„Viltu að við hjálpum þér að taka utan af honum, mamma?“
Hervör lét brýnnar síga.
Máni beið ekki svars heldur læsti skítugum krumlunum í pappírinn og fletti honum burt.
Hervör greip fyrir hjartað. Hún starði orðlaus fram fyrir sig. Þetta var Kjarval.
Það glitti í eitthvað sem líktist ákafa í augunum á Jóhannesi. „Við létum setja hann í nýjan ramma.“
Hervör virti málverkið fyrir sér. Henni hafði aldrei þótt það sérlega fallegt. Af hverju átti það að vera? Grjóti? Öldum? Merkingarlausum slettum? En ramminn sem var hvítur – úr kálfsleðri sagði Jóhannes, í stíl við sófann – olli því að það birti yfir drunganum og pensilstrokurnar urðu eins og ský sem svifu í hægðum sínum um kvöldhimin.
Tíu grá augu horfðu á hana með eftirvæntingu. Það var sem eitthvað innra með henni brysti. Eins og sprunga hefði myndast í ísilagðri á. Hún skammaðist sín fyrir hvernig hún hafði látið undangengið ár. Hvernig hún hafði ýtt þeim frá sér sem stóðu henni næst. Kennt þeim um hvernig fór fyrir Eysteini. Sorgin gerði fólk skrýtið í höfðinu.
Þegar pakkarnir höfðu verið opnaðir leiddi Máni ömmu sína aftur inn í borðstofu. Aldís bar fram sex skálar með súkkulaðibúðingnum sem hún bjó til hver jól. Í einni þeirra væri mandlan. Ólíkt Eysteini, sem hafði hámað hann í sig, hafði Hervör ekki snert á möndlubúðingnum í fyrra. Hún hafði verið svo reið út í son sinn og tengdadóttur að hún hafði verið með öllu lystarlaus. En nú tók hún hressilega til matar síns.
Hún lét súkkulaðið leika um tunguna. Hann var óvenjusætur, búðingurinn. Aldís hafði líklega lært tilbrigði við hefðbundnu uppskriftina á einhverju námskeiðinu. Hervör reyndi að giska á með hverju tengdadóttir hennar bragðbætti súkkulaðið. Vanillu? Hunangi?
Skeiðin rakst í aðskotahlut í skálinni. „Nei, sko,“ hrópaði Hervör upp yfir sig. „Ég fékk möndluna.“ Eysteinn hafði fengið möndluna í fyrra.
Logarnir í kertunum blikuðu heitir í gráum augum sonar hennar. „Gleðilega hátíð, mamma.“
Athugasemdir (1)