Alþingi veitti 20 nýjum Íslendingum ríkisborgararétt í gær, en hægt er að sækja um slíkan rétt til allsherjar- og menntamálanefndar. Alls bárust nefndinni 127 umsóknir og hún lagði til að umsækjendum á 18 þeirra yrði veittur ríkisborgararéttur að þessu sinni auk barna tveggja barna umsækjenda.
Á meðal þeirra sem fengu ríkisborgararétt var Noorina Khalikyar, afganskur læknir sem flúði Kabúl eftir valdatöku Talíbana árið 2021, en eftir hana voru konur sviptar flestum mannréttindum og tækifærum sem talin eru sjálfsögð víða í hinum vestræna heimi. Noorina fór fyrst til Rúmeníu en fékk engin tækifæri og í viðtali við Heimildina í byrjun nóvember sagðist hún: „Ég hefði dáið einu sinni í Afganistan ef þeir hefðu komið og drepið mig þar. En í Rúmeníu dó ég daglega.“ Hún sagðist hafa fengið kaldar kveðjur frá Rúmenum sem hleyptu henni ekki inn í samfélagið. „Mig langaði að enda líf mitt því ég sá engan tilgang í því að berjast áfram.“
Í maí síðastliðnum kom hún til Íslands. Eitt af hennar fyrstu verkum var að fara í Krónuna að kaupa sér í matinn. „Ég bað konu um aðstoð, ég vissi ekki hvaða jógúrt ég ætti að velja. Konan sagði: Velkomin til Íslands! Hvernig get ég hjálpað þér?“ rifjar Noorina upp með bros á vör. Hún varð strax hrifin af landinu og þakklát fyrir það hve vel Íslendingar tóku henni.
„Ísland er von um nýtt líf, nýtt upphaf. Ísland er lognið sem ég þurfti eftir þrumuveðrið sem ég var stödd í. Hér á ég tækifæri á að endurfæðast, eignast nýtt líf í góðu samfélagi með góðu fólki. Þess vegna sótti ég um alþjóðlega vernd.“
Þeirri beiðni var hins vegar hafnað á þeim grundvelli að hún væri með stöðu flóttamanns í Rúmeníu.
Ingibjörg Sólrún aðstoðaði
Noorina kynntist svo Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fyrrverandi formanni Samfylkingarinnar, borgarstjóra og utanríkisráðherra. Hún hjálpaði henni með mál sitt á meðan að beðið var niðurstöðu hjá kærunefnd útlendingamála, en Ingibjörg bjó og starfaði í tvö ár í Afganistan á vegum UN Women.
Í viðtalinu við Heimildina í nóvember sagði Noorina: „Ef ég fæ að vera hér vona ég að ég geti klárað sérnámið mitt, ég veit að hér vantar lækna og vonandi get ég hjálpað til við það. Ég get séð svo fallega framtíð hér því þetta er land kvenna.“
Nú hefur henni verið veittur ríkisborgararéttur og er orðinn Íslendingur. Ingibjörg Sólrún birti færslu á Facebook í gærkvöldi vegna þessa þar sem hún sagði að í gær hafi komið besta jólagjöf sem hugsast getur í hús. „Alþingi samþykkti að veita Noorinu Khalikyar frá Afganistan íslenskan ríkisborgararétt. Nú getur hún loksins farið að skipuleggja framtíð sína eftir tvö ár á flótta í algerri óvissu. Kærar þakkir til Alþingis og ykkar allra sem lögðuð ykkar að mörkum til að þessi niðurstaða fengist. Þið vitið hver þið eruð.“
Missti fjölskyldu sína og hluta af fætinum
Önnur ung kona sem fékk ríkisborgararétt eftir að hafa sótt um í gegnum allsherjar- og menntamálanefnd er Asil J. Suleiman Almassri. Hún er sautján ára stúlka frá Palestínu sem sem slasaðist alvarlega í nýlegri loftárás Ísraelshers. Afleiðingar þessa voru meðal annars þær að fjarlægja þurfti vinstri fót hennar fyrir ofan hné.
Hún sagði í samtali við Heimildina í kjölfarið að það hafi verið eins og heimurinn hennar hafi rifnað í sundur. Foreldrar hennar, eldri systir, mágur og fimm ára frændi hennar dóu í árásinni. Barnungir systursynir hennar slösuðust. Asil hefur dvalið á spítala í Egyptalandi en bróðir hennar, sem býr á Íslandi, hefur barist fyrir því a fá hana hingað. Til stóð að senda Asil aftur til Gaza þegar bráðameðferð hennar yrði lokið, þar sem hún átti engan lengur að og búið var að jafna heimili hennar við jörðu.
Í viðtalinu við Heimildina sagði Asil að hún gæti ekki farið aftur til Gaza. „Ég á engan að þar. Ég er alvarlega þunglynd, ég er einmana og hrædd. Ég lifi í martröð.“
Miðflokkurinn sat hjá
Fyrirkomulag þess umsóknarferlis sem leiðir af sér að Alþingi veitir hluta umsækjenda ríkisborgararétt með ofangreindum hætti er þannig að sérstök undirnefnd allsherjar- og menntamálanefndar, sem í sitja þrír þingmenn, fer yfir allar umsóknir sem berast. Birgir Þórarinsson úr Sjálfstæðisflokki, Jódís Skúladóttir úr Vinstri grænum og Dagbjört Hákonardóttir úr Samfylkingu skipuðu nefndina að þessu sinni, en Birgir stýrði starfi hennar.
Alls samþykktu 50 þingmenn úr sjö mismunandi flokkum á þingi að veita einstaklingunum 20 ríkisborgararétt þegar málið var afgreitt í gær. Ellefu þingmenn voru fjarverandi og greiddu ekki atkvæði. Einu þingmennirnir sem voru viðstaddir sem sátu hjá við atkvæðagreiðsluna voru báðir þingmenn Miðflokksins, þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bergþór Ólason.
Athugasemdir (1)