Landspítalinn-háskólasjúkrahús (LSH) er fyrsta stofnunin sem tengist plastbarkamálinu svokallaða sem biður ekkju fyrsta plastbarkaþegans Andemariam Beyene afsökunar á aðkomu sinni að málinu. Þetta hefur Runólfur Pálsson, forstjóri LSH, gert í símtali og tölvupósti til ekkjunnar, Merhawit Baryamikael Tesfaslase. LSH greindi frá því í fréttatilkynningu í gær að stofnunin hefði sent erindi um mögulegar skaðabætur fyrir Mehrawit og börn hennar og Andemariams til embætti ríkislögmann auk þess sem haft hafi verið samband við hana til að ræða málið við hana.
Þrátt fyrir að aðgerðin á Andemariam Beyene hafi verið framkvæmd á Karolinska-sjúkrahúsinu í Svíþjóð í samstarfi við Karolinska-háskólann þá hafa stjórnendur þessara stofnana ekki haft samband við Mehrawit til að biðja hana afsökunar eða gengist við mögulegri skaðabótaábyrgð. Landspítalinn gerir þetta því fyrstur þessara þriggja stofnana sem áttu stærstan þátt í fyrstu plastbarkaaðgerðinni. Sænsku stofnanirnar báru hins vegar miklu meiri ábyrgð en LSH.
Macchiarini var dæmdur í fangelsi í Svíþjóð fyrir aðgerðina á Andemariam og öðrum tveimur sjúklingum fyrr á árinu. Plastbarkamálið er eitt stærsta hneyksli síðustu áratuga í læknavísindum.
„Læknirinn sagði við hann að þetta væri öruggt og að ef þú vilt sjá börnin þína vaxa úr grasi þá áttu möguleika á því eftir þessa aðgerð annars getur þú dáið.“
LSH viðurkenndi skaðabótaskyldu
LSH hafði fyrr á árinu greint því í svörum við spurningum Heimildarinnar að stofnunin skildi kröfu Mehrawit um skaðabætur og sagðist harma aðkomuna að plastbarkamálinu. Með þessum svörum var Landspítalinn að gangast við skaðabótaskyldu í plastbarkamálinu hvað stofnunina varðar.
Heimildin hafði sömuleiðis greint frá því að skaðbótakrafa væri í vinnslu hjá lögmanni Mehrawit á Íslandi, Sigurði G. Guðjónssyni: „Ég er að skoða mál hennar í ljósi þessarar niðurstöðu, hvaða stöðu hún hefur. Þetta er ekki einfalt mál.“
Í tilkynningu LSH segir um samskipti Runólfs við Mehrawit: „Forstjóri Landspítala telur rétt að upplýsa starfsmenn spítalans um að hann harmar aðkomu stofnunarinnar að málinu, að sjúklingi spítalans hafi verið vísað í meðferð á erlendu sjúkrahúsi þar sem framkvæmd var tilraunaaðgerð, án þess að viðeigandi undirbúningsrannsóknir hafi farið fram, með þeim afleiðingum að sjúklingurinn lést.“
Þrátt fyrir að aðgerðin á Andemariam Beyene hafi verið framkvæmd á Karolinska-sjúkrahúsinu í Svíþjóð í samstarfi við Karolinska-háskólann þá hafa stjórnendur þessara stofnana ekki haft samband við Mehrawit til að biðja hana afsökunar eða gengist við skaðabótaskyldu. Landspítalinn gerir þetta því fyrstur þessara stofnana sem áttu stærstan þátt í fyrstu plastbarkaaðgerðinni. Sænsku stofnanirnar báru hins vegar miklu meiri ábyrgð en LSH.
Bað Mehrawit afsökunar í síma og með tölvupósti
Samkvæmt heimildum blaðsins hringdi Runólfur í Mehrawit og ræddi við hana lengi og baðst afsökunar á þeirri læknimeðferð sem maður hennar fékk á spítalanum en hann var sendur frá LSH til Karolinska-sjúkrahússins á forsendum sem nú liggur fyrir að voru ekki réttar. Runólfur sendi einnig tölvupóst til Mehrawit með afsökunarbeiðni samkvæmt heimildum blaðsins.
Læknir Andemariams á Íslandi, Tómas Guðbjartsson, breytti tilvísun um sjúkdómsástand hans að áeggjan ítalska skurðlæknisins Paolo Macchiarini með þeim hætti að líta átti út fyrir að búið væri að útilokaa allar læknismeðferðir fyrir hann. Þetta var gert til aðn undirbyggja og réttlæta að hann gengist undir óprófaða og ósannreynda tilraunaaðgerð, ígræðslu á plastbarka böðuðum í stofnfrumum hjá Macchiarini. Engar vísindalegar forsendur voru fyrir þessari aðgerð og hafði tæknin ekki verið prófuð á dýrum áður en hún var reynd á Andemariam og samþykki vísindasiðanefndar í Svíþjóð skorti fyrir aðgerðinni. Mehrawit hefur greint frá því að Macchiarini hafi talað Andemariam inn á það að fara í aðgerðina: „Annars getur þú dáið,“ segir hún að Macchiarini hafi sagt við hann.
Andemariam náði sér aldrei eftir plastbarkaaðgerðina, þurfti mikla læknisþjónustu og upplifði hægan og kvalafullan dauðdaga þar sem barkinn virkaði aldrei sem skyldi. Ári eftir aðgerðina var haldið málþing í Háskóla Íslands þar sem aðgerðinni var lýst sem kraftaverki í nútíma læknavísindum og var Andemariam þátttakandi í þinginu ásamt Macchiarini og Tómasi Guðbjartssyni.
Þá lá fyrir aðgerðin hafði ekki gengið sem skyldi en samt var látið líta útt fyrir að svo hefði verið og hélt Macchiarini áfram að gera sambærilegar aðgerðir á öðru fólki í öðrum löndum.
Athugasemdir