„Þetta er allt í fortíðinni fyrir mér. Manstu eftir nasistasamtökunum Norðurvígi? Ég datt inn í þau þegar ég var ungur polli. En svo þroskast maður og hættir að vera heimskur. Ég er ekki í þeim lengur og ég styð þetta ekki neitt.“
Þetta segir Gunnar, fyrrum meðlimur í Norðurvígi, í samtali við Heimildina. Gunnar er ekki hans raunverulega nafn en hann hefur viljað fjarlægja sig eins mikið og hann getur frá þátttöku sinni í íslensku nýnasistahreyfingunni. „Ég er búinn að vera að aftengja mig alveg 100% frá þessu,“ segir hann. Fjallað hefur verið um hreyfinguna í fjölmiðlum síðustu ár, meðal annars um hvernig samtökin lokka til sín unglinga í viðkvæmri stöðu, en fram að þessu hefur ekki birst frásögn frá innanbúðarmönnum af því sem gerist að tjaldabaki.
Norðurvígi er íslenski armur Norrænu mótspyrnuhreyfingarinnar (e. Nordic resistance movement) sem eru samtök nýnasista á Norðurlöndunum. Nafnið Norðurvígi er þó ekki upprunalegt nafn samtakanna. Gunnar útskýrir að Norðurvígi hafi upphaflega verið heitið á fréttamiðli þeirra.
„Einhvern veginn byrjaði fólk að kalla þetta eftir fréttamiðlinum, sem er ótrúlega fyndið. Og er bara gott, held ég, því það tekur svolítið af þeim kraftinn. Þeir eru bara þessi fréttamiðill einhvers staðar.“
Tíu meðlimir þegar mest lét 2019
Gunnar útskýrir fyrir blaðamanni að hann hafi leiðst út í Norðurvígi í gegnum spjallsíðu á netinu árið 2019. Þá var hann var aðeins 17 ára gamall. Hann segist ekki muna nafn vefsíðunnar en líkir hanni við 4Chan. Á síðunni hafi engar reglur gilt um hvað fólk mátti segja. „Og maður er 17 ára og hefur enga rökhugsun,“ segir hann.
Sökum aldurs segist Gunnar hafa verið ginnkeyptur fyrir þeim áróðri sem viðgekkst inni á síðunni. „Ég fer að hugsa að það sé eitthvað rétt í honum [áróðrinum]. Þá ákveð ég að fara að spyrjast eftir þessu.“ Hann skrifar þessar ákvarðanir á uppreisnarhug unglingsáranna. Hann segir að um tímabil hafi verið að ræða. „Svona phase kjaftæði.“
Athugasemdir (1)