Við Íslendingar teljum okkur vera bókaþjóð. En getur verið að við skilgreinum okkur aðeins sem bókaþjóð?
Niðurstaða hinnar svo nefndu PISA-könnunar, sem birt var í síðustu viku, er Íslendingum reiðarslag. Ísland vermir botnsætin í öllum þeim fögum sem prófað er í. Af þeim 37 ríkjum OECD sem taka þátt í könnuninni er lesskilningur aðeins verri í þremur löndum en á Íslandi; Mexíkó, Kosta Ríka og Kólumbíu.
Fjöldi skýringa á slakri frammistöðu ungviðisins lítur nú dagsins ljós, allt frá snjallsímum og TikTok, yfirgangi enskunnar, lötum foreldrum til skorts á kristinfræðikennslu.
En má vera að við sjáum flísina í auga náungans en ekki bjálkann í eigin auga?
Rithöfundurinn Eiríkur Örn Norðdahl telur svo vera. „Mér finnst mikilvægt að halda því til haga í tengslum við PISA-málin að það er ekki bara lestur ungmenna sem er á undanhaldi heldur ALLUR bóklestur,“ sagði Eiríkur Örn á Facebook. Hann benti á að bóksala hér á landi hefði dregist saman um 36% á árunum 2008 til 2018. „Það eru ekki börnin sem eru að verða ólæs, heldur við öll,“ sagði Eiríkur Örn.
Tíð niðurlægingar
Fyrir mörgum árum, þegar ég var með bók í jólabókaflóðinu, var mér boðið í útvarpsþátt á Rás 2. Ekki var þó um að ræða létt spjall þar sem höfundi gæfist færi á að mæra eigið verk í von um að selja nokkur eintök. Var tveimur rithöfundum ætlað að mætast í markaðs-einvígi. Hvor gestur fengi eina mínútu til að flytja eldheita söluræðu. Hlustendur áttu svo að hringja inn og kjósa þann höfund sem var betri sölumaður.
Allir rithöfundar þurfa að þola nokkra niðurlægingu á vígvelli jólabókaflóðsins – jólin eru jú bara einu sinni á ári. Takmörk voru þó fyrir því hversu hart ég var tilbúin að berjast fyrir brauðmolunum. Ég afþakkaði.
Hin íslenska „bókaþjóð“ varð til á fimmta áratug síðustu aldar. Í Sögu Reykjavíkur rekur sagnfræðingurinn Eggert Þór Bernharðsson heitinn upphaf jólabókaflóðsins til heimsstyrjaldarinnar síðari. Á styrjaldarárunum og eftir stríð urðu bækur í fyrsta sinn almenningseign og neysluvara. Þýddum skáldsögum fjölgaði mikið og áttu afþreyingar- og skemmtibækur vaxandi vinsældum að fagna.
Það var í þrengingum stríðsáranna sem bækur öðluðust nýtt hlutverk. Vegna samgönguerfiðleika við útlönd ríkti vöruskortur í landinu. Bækur urðu vinsæl gjafavara og þóttu henta vel í jólapakka.
Í Sögu Reykjavíkur leiðir Eggert líkur að því að jólabókaflóðið hafi verið grunnurinn að því að Íslendingar hlutu nafnbótina bókaþjóð. Smæð þjóðarinnar setti því skorður hversu mikið var hægt að gefa út af bókum á ári hverju. En vegna stórfellds jólagjafamarkaðar var grundvöllur fyrir mun umfangsmeiri útgáfu en verið hefði ella.
Úr sér gengin uppfinning?
Jólabókaflóðið stendur nú sem hæst. Eins og jólaskraut eru rithöfundar allt í einu alls staðar. Þeir stíga fram á völlinn – ekki ritvöllinn heldur keppnisvöllinn og berjast eins og þátttakendur í „Squid games“ fyrir forsendu þess að lifa af: athygli. Fáir verða farsælir í hinum árlegu bókmenntaleikum, pláss í fjölmiðlum og jólapökkum er takmörkuð auðlind. Hinna sigursælu bíður þó velsæld, frægð og frami. Restin verður gleymskunni að bráð.
„Er jólabókaflóðið úr sér gengin uppfinning sem sviptir stóran hluta íslenskra bókmenntaverka súrefni ár hvert svo að hann kafnar?“
Eitt eiga hóparnir þó sameiginlegt. Um leið og glanspappírinn hefur verið tættur utan af verkum sigurvegaranna hverfa höfundarnir allir eins og jólasveinar til fjalla. Ekkert spyrst til þeirra fyrr en um næstu jól.
Getur verið að jólabókaflóðið sé farið að standa bóklestri fyrir þrifum?
Lestur ætti ekki að vera eins og smákökubakstur og þrif á eldhússkápunum, iðja sem stunduð er í tilefni jóla milli þess sem bækurnar standa upp á punt, raðaðar eftir litaþema, í stofuhillunni meðan við horfum á sjónvarpið með símann í hendinni.
Rithöfundurinn Eiríkur Örn Norðdahl telur tækjanotkun hafa stuðlað að minni bóklestri – ekki tækjanotkun barna heldur tækjanotkun okkar allra. „Það má vel vera að það megi „kenna“ börnum að nota tæki betur en þá skortir bæði fyrirmyndir og fordæmi.“
Er jólabókaflóðið undirstaða íslenskrar bókaútgáfu? Eða er jólabókaflóðið úr sér gengin uppfinning sem sviptir stóran hluta íslenskra bókmenntaverka súrefni ár hvert svo að hann kafnar?
Kannski að tími sé kominn til að slíta hin órofa bönd jóla og bóka í hugum Íslendinga.
Athugasemdir (1)