Á nánast hverjum degi síðustu tvo mánuði hef ég horft á myndbönd af sundurskotnum og niðurbútuðum börnum og séð börnin mín í andlitum þeirra.
Á hverjum degi faðma ég börnin mín að minnsta kosti einu sinni eins og þau hafi verið dregin úr húsarústum. Eins og þau séu andvana, köld, íklædd línín og ég sé að kveðja þau í hinsta sinn.
Á hverjum degi reyni ég að nálgast þau á þeirra verstu stundum eins og þau séu svöng vegna hungursneyðarinnar sem nú geisar. Faðma þau eins og þau séu veik eftir að hafa drukkið mengað vatn. Vegna mannúðaraðstoðar sem þeim er neitað um. Vegna systkina eða ættingja sem þau hafa misst. Séð deyja. Eins og þau séu titrandi í uppnámi vegna þess að sprengiefni sem samsvarar fimm atómbombum hefur rignt linnulaust yfir borgina sem þau búa í.
Á hverjum degi fer ég í kitluleik og klíp í litlu lærin sem eru enn áföst við þau, en ekki sprengd af eða aflimuð án verkjalyfja. Pota í litlu bumburnar sem eru fullar af mat og innihalda enn öll innyflin þeirra. Kyssi þau á heitt ennið sem tilheyrir óbrotinni höfuðkúpu. Held svo á þeim upp í rúm í örmum mínum sem hafa aldrei þurft að grafa sitt eigið barn.
Slysast til að horfa á myndband af syrgjandi móður biðja dóttur sína afsökunar á því að hafa ekki geta verndað hana. Hún lofar að baka afmælisköku. Fyrir dánu, litlu stelpuna sína. Svo sest ég niður og leik við börnin mína eins og þetta sé síðasta skiptið okkar saman. Eins og ég hafi fengið þau til baka frá dauðum í aðeins þessa stuttu stund og fái að fara í þykistuleik með törtlesköllum og böngsum þar sem hinn raunverulegi heimur er ekki til. Heimur þar sem það saklausasta í honum er aflífað án þess að leiðtogar manna grípi inn í.
Því það er enginn munur á þeim þúsundum barna sem hafa verið myrt og íslenskum börnum. Börnin mín eru börnin á Gaza. Börnin á Gaza eru börnin okkar. Björgum þeim. Strax. Því annars höfum við glatað einhverju af okkur sjálfum og ég er ekki viss um að við fáum það til baka.
Athugasemdir (3)