Skóladegi unglinga seinkar um minnst hálftíma frá og með haustinu 2024. Borgarráð hefur samþykkt þriggja ára tilraunaverkefni sem snýst um að skóladagur unglinga hefst í fyrsta lagi klukkan 8.50, en þessir árgangar mega þó byrja daginn seinna ef skólastjórnendur taka ákvörðun þar um.
Tilkynning þess efnis var send út á foreldra í kvöld. Ástæðan sem tilgreind var að margir unglingar sofi ekki nóg og sífellt fjölgi í þeim hópi á milli ára, sem sé áhyggjuefni. „Á sama tíma og fleiri unglingar sofa of lítið sýna rannsóknir að andleg líðan þeirra fer versnandi en ljóst er að tengsl svefns og andlegrar heilsu eru töluverð.“
Stór hópur vansvefta unglinga
Unglingar sem eru 14 til 17 ára þurfa átta til tíu tíma svefn á sólarhring, samkvæmt ráðleggingum. Hins vegar sofa 55 prósent unglinga í 10. bekk aðeins 7 tíma að nóttu, samkvæmt nýrri rannsókn. Aðrar rannsóknir hafa sýnt fram á enn styttri svefn unglinga, eða 6,2 klukkustundir að meðaltali.
Bent er á svefnskortur geti haft neikvæðar afleiðingar á líkamlega heilsu og andlega líðan, haft neikvæð áhrif á námsárangur og frammistöðu á hugrænum prófum. Þá eru unglingar sem sofa of lítið líklegri til að glíma við offitu, kvíða og þunglyndi, og líklegri til að sýna áhættuhegðun.
„Á sama tíma og fleiri unglingar sofa of lítið sýna rannsóknir að andleg líðan þeirra fer versnandi“
Ákvörðun borgarinnar er rökstudd með greinargerð, þar sem fram kemur að unglingar séu með seinkaða dægursveiflu frá náttúrunnar hendi, því framleiðsla á svefnhormóninu melantónín byrjar seinna á kvöldin og stöðvast seinna á morgnanna hjá unglingum. Fyrir vikið seinkar svefni unglinga, þeir eiga erfiðara með að fara snemma að sofa og vakna snemma. Það sé líffræðilegt. Um leið eiga þeir erfiðara með að ná ráðlögðum viðmiðum um svefn. En það sé til mikils að vinna, því unglingar sem sofa nóg séu heilsusamlegri, hamingjusamari, standi sig betur í námi og tómstundum og eigi auðveldara með félagsleg tengsl og sýni síður áhættuhegðun. Almennt líði þeim betur. Samfélagslegur og heilsufarslegur ávinningur af seinkun á upphafi skóladags fyrir þennan hóp nemenda sé því töluverður.

Svefninn batnaði og seinkomum fækkaði
Vísað er til erlendra rannsókna sem sýna að þar sem þetta hefur verið gert hafi mæting batnað, námsárungur líka og unglingur hafi bæði orðið orkumeiri og þeim liðið betur. Hér á landi hafa verið framkvæmdar tvær rannsóknir undir stjórn Erlu Björnsdóttur. Í fyrri rannsókninni hafi Víkurskóli seinkað upphafi skóladags unglinga um hálftíma en í Foldaskóla hafi farið fram samanburðarrannsókn. Nemendur sváfu lengur þegar skólinn hófst seinna. Í kjölfarið var önnur rannsókn sett af stað þar sem mætingu nemenda í Vogaskóla var seinkað um fjörutíu mínútur en samanburðarrannsókn fór fram í Ölduselsskóla og Laugalækjarskóla. Niðurstaðan var sú að mun færri unglingar í Vogaskóla voru vansvefta, eða 4 prósent á móti 25 prósent í hinum skólunum. Svefn þessara nemenda varð jafnari og þeir sýndu mun minni klukkuþreytu, sem felur í sér að svefninn er skertur virka daga en það er unnið upp með því að sofa mjög mikið um helgar. Um helmingur nemenda sagði svefninn betri eftir breytinguna, en enginn sagði hann verri. Seinkomum fækkaði og mæting varð betri.
Ætlar að funda með nemendum
Til að kynna breytingarnar ætlar borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, að funda með öllum nemendum í 7. til 10. bekk grunnskóla í Reykjavík á morgun.
Athugasemdir