Forsetaframbjóðendur Repúblikanaflokksins, að Donald Trump undanskildum, áttu í hatrömmum kappræðum í gærkvöldi. Mikill tími fór í móðganir og ásakanir á milli frambjóðendanna á sviðinu. Chris Christie, fyrrum ríkisstjóri New Jersey-fylkis reyndi ítrekað að beina talinu að Donald Trump sem hann kallaði berum orðum „einræðisherra og eineltissegg“ og sakaði hina frambjóðendurna þrjá um heigulskap sem þyrðu ekki að móðga „Voldemort, Hann-sem-má-ekki-nefna“ og vísaði þar í Trump.
Frambjóðandinn sem mælist líklegastur til að ná öðru sæti í forvalinu er Nikki Haley, áður ríkisstjóri Norður Karólínu-fylkis og sendiherra Bandaríkjanna til Sameinuðu þjóðanna. Hún sætti hvað mestri gagnrýni frá andstæðingum sínum, athafnamannsins Vivek Ramaswamy og Ron Desantis, ríkisstjóra Flórída-fylkis.
Ramaswamy sagði þann eina sem væri „fasískari en Biden-stjórnin núna [væri] Nikki Haley“. Hann fullyrti að hún væri strengjabrúða hergagnaframleiðenda og „kona sem muni senda börnin ykkar til að deyja svo hún geti keypt sér stærra hús“. Ramaswamy hélt svo uppi skilti sem á stóð: „Nikki = Spillt“.
Ron Desantis sakaði Haley um að vera vanhæfa til forsetaembættisins þar sem hún „getur ekki staðið gegn misnotkun barna“ og vísaði þar í andstöðu Haley við frumvarpi sem banna átti læknismeðferðir trans-barna. Haley þverneitaði þó þeirri meintu andstöðu sinni.
Christie tók upp hanskann fyrir Haley, sagði hana „greinda og farsæla konu“ og átaldi Ramaswamy og Desantis fyrir móðganir þeirra í hennar garð. Christie og Haley hafa verið tiltölulega samstíga, en Christie langtum veikari fyrir í skoðanakönnunum og því möguleiki á því að hann segi sig bráðlega úr kapphlaupinu. Fylgi hans gæti því farið yfir á Haley og mögulega er hann að búa í haginn fyrir varaforsetatilnefningu sína eða annað embætti í stjórn Haley, með vörn sinni í gærkvöldi.
Haley sjálf svaraði litlu af ásökunum og móðgunum hinna, en færði frekar rök fyrir eigin hæfni til forsetaembættisins. Hún ásakaði Demókrata um óreiðu og stefnuleysi í innan- og utanríkismálum, en sagði jafnframt að þau gætu ekki „sigrað óreiðu Demókrata með óreiðu Repúblikana,“ Donald Trump væri sú óreiða. Hennar nálgun væri allt önnur: „Ekkert drama. Enginn hefnd. Ekkert væl.“
Staða skoðanakannana sýnir afgerandi styrk og stuðning um 60% Repúblikana við Trump. Desantis er enn í öðru sæti með um 12% að meðaltali en hefur verið á stöðugri og skarpri niðurleið. Haley er í þriðja sæti með rúm 10% og hefur tvöfaldað fylgi sitt frá því í september síðastliðnum. Ramaswamy or Christie reka lestina með rúm 5% og tæp 3%.
Fyrstu forkosningarnar munu eiga sér stað 15. janúar í Iowa-fylki og niðurstöður þeirra munu líklega hafa mikið um það að segja hverjir frambjóðendanna hyggjast halda áfram framboði sínu. Þangað til eru átökin þeirra á milli líkleg til einskis annars en að styrkja stöðu Trumps, sagði Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, í samtali við Heimildina nýverið, en hún telur forsetann fyrrverandi græða mikið á því að svo margir keppist um tilnefninguna. „Hann þarf ekkert að vera með meirihlutastuðning í flokknum.“
Athugasemdir