Sem Íslendingur búsettur í Bretlandi fæ ég reglulega þakkir fyrir afrek sem ég á ekki nokkurn heiður að. Bresk kunningjakona mín fór nýverið í frí til Íslands. Hún var ekki fyrr lent aftur í London en hún sendi mér skilaboð þar sem hún dásamaði fegurð landsins, vinalegar móttökur, land og þjóð. „Einn besti áfangastaður sem ég hef komið á,“ skrifaði hún.
Nýverið fékk ég hins vegar skammir fyrir eitthvað sem ég á ekki nokkra sök á. „Það er þér að kenna að ég get ekki lengur hugsað mér að borða fisk,“ sagði breskur vinur minn þegar ég kom í heimsókn til hans. Hann hafði lesið um fiskeldi á Íslandi í breskum dagblöðum og séð ljósmyndir af lúsétnum eldislaxi í sjókvíum við Íslandsstrendur. Ekki síðan Icesave hafði óskapnaður uppátækjasams athafnafólks atað orðspor Íslands slíkum auri að slettist á grandalausa Íslendinga í útlöndum.
En það er ekki aðeins vörumerkið Ísland sem bíður nú hnekki.
Hinn síungi sjötíu og þriggja ára gamli athafnamaður Richard Branson hefur löngum notið vinsælda í heimalandi sínu Bretlandi. Branson er þekktur fyrir hugmyndarík viðskiptaævintýri, litríka framkomu og sítt hár. Hann hefur komið víða við og meðal annars rekið plötuútgáfu, flugfélag og útvarpsstöð undir vörumerkinu Virgin.
Þrátt fyrir ríkmannlegar ljósmyndir í fjölmiðlum af Branson þar sem hann ber föngulegar flugfreyjur í fanginu og slakar á með fræga fólkinu á einkaeyju sinni, Necker Island, hefur Branson löngum verið talinn maður fólksins. En skugga ber nú á orðstír hans.
Árið 2018 gerði Virgin vörumerkjasamning við bandaríska lestarfyrirtækið Brightline. Til stóð að fjarlægja vörumerki Brightline af lestum og merkja þær í staðinn Virgin. En átján mánuðum eftir að samningurinn var undirritaður sögðu forsvarsmenn Brightline honum upp. Að sögn lögfræðings Brightline var ástæðan sá skaði sem Richard Branson hafði valdið orðspori Virgin.
Bítlarnir eða Bay City Rollers?
Ásakanir um skattafælni hafa lengi loðað við Richard Branson. Branson flutti lögheimili sitt til hinna Bresku-Jómfrúareyja, þekkts skattaskjóls, fyrir sautján árum og hefur ekki greitt skatt í Bretlandi síðan.
Breskum almenningi blöskraði þegar Branson, sem lét sig að jafnaði sameiginlega sjóði samfélagsins litlu varða, óskaði eftir 500 milljón punda láni frá breska ríkinu til að halda flugfélagi sínu, Virgin Atlantic, á floti (eða öllu heldur á lofti) í kórónuveirufaraldrinum.
„Hvort viljum við vera Bítlarnir eða Bay City Rollers?“
Brightline taldi orðspor Virgin bíða svo mikinn hnekki við framgöngu Branson að fyrirtækið hætti við að kenna lestir sínar við vörumerkið. Lögfræðingur Brightline sagði samning hafa verið gerðan um notkun á heimsklassa vörumerki sem samsvaraði því sem Manchester United og Barcelona væru fótbolta, Einstein og Hawking væru vísindum og Maria Callas og Luciano Pavarotti væru óperu. Sagði hann Brightline hafa samið „um Bítlana en ekki Bay City Rollers“.
Hvort viljum við vera ...?
Fjöregg Íslands er orðsporið. Íslendingar fórna nú meiri hagsmunum fyrir minni er þeir gangast undir stórsókn atvinnugreinar sem umbyltir ímynd landsins úr Paradís í Mordor og fjöreggi í fúlegg.
Brightline reyndist ekki þrautalaust að afmá þann smánarblett sem forsvarsmönnum fannst Virgin vera á lestarfyrirtækinu. Virgin stefndi nefnilega Brightline fyrir samningsbrot. Þótt almannatenglar Virgin lýstu sjálfir orðstírshnekki fyrirtækisins sem „hamförum“ og segðu ekki aðeins um „skammtíma ímyndarskaða fyrir Richard að ræða heldur varanlegan skaða fyrir vörumerkið Virgin“ komst dómari að þeirri niðurstöðu í síðasta mánuði að Brightline bæri að greiða Virgin 115 milljónir dollara í skaðabætur fyrir uppsögn samningsins.
Sár þekja fiska í sjókvíum. Orðstír Íslands mun ekki gróa svo auðveldlega um heilt af bitum lúsanna.
Hvort viljum við vera Bítlarnir eða Bay City Rollers?
Lúsin okkur veldur baxi
Því ekk'að græða
Þá merar blæða
Í sparki skvetta faxi.