Ísland er aðili að alþjóðasamningi um þjóðarmorð (sem samkvæmt íslenskum rétti er kallað „hópmorð“). Hver og einn aðili að samningnum getur kallað eftir því að Alþjóðadómstóllinn taki upp mál þar sem grunur leikur á broti gegn honum. Alþjóðasamningurinn hefur verið tekin upp í íslensk lög og tóku þau gildi í lok árs 2018. Þau fjalla einnig um glæpi gegn mannúð og stríðsglæpi.
Ég skora á þingmenn að beita sér fyrir ályktun um að fela íslenska ríkinu að opna málið þar sem lítill vafi leikur á því í hugum hundruð virtra fræðimanna, að aðgerðir Ísraelsmanna á Gaza brjóta í bága við samninginn. Verið sé að fremja glæpinn fyrir opnum tjöldum. Almenningur getur kynnt sér þessi auðlæsilegu lög og sannfærst um að atburðirnir sem blasa við gefa fullt tilefni til alvarlegrar skoðunar.
Í þessum íslenskum refsilögum er einnig getið um ábyrgð þeirra sem eiga hlutdeild. Það getur átt við alla þá sem styðja Ísrael í þessum slátrunum með beinum eða óbeinum hætti. Þeir sem senda vopn til aðila sem fremur hópmorð eru augljóslega meðsekir en annar stuðningur kann einnig að koma til álita sem hlutdeild.
Það má einnig benda á að stígi einhver fæti á Ísland sem er ábyrgur fyrir brotunum með beinni aðild eða hlutdeild ber ríkinu skylda til að lögsækja viðkomandi. Hann hefur brotið gegn íslenskum lögum.
„Það eru engar tvær hliðar á hópmorði, bara ein, alveg eins og það var bara ein hlið á Auschwitz“
Það er einnig alvarlegur glæpur samkvæmt þessum lögum að hvetja á opinberum vettvangi til ódæðisverkanna. Þetta er áréttað í fyrstu grein: „Hver sem á opinberum vettvangi hvetur með beinum hætti aðra til að fremja hópmorð skal sæta fangelsi allt að ævilangt”. Þetta hefur ekki verið túlkað þröngt heldur vítt, eins og bent er á í greinargerð með frumvarpi til þessara laga em þar segir m.a.:
„Í dómaframkvæmd Alþjóðlega sakamáladómstólsins fyrir Rúanda hefur verið lögð áhersla á að skilyrði um að hvatt sé til hópmorðs með beinum hætti þurfi ekki að fela í sér að slíkt sé sagt berum orðum heldur, að teknu tilliti til samhengis, menningar og blæbrigða tungumálsins, sé hægt að ráða slíkt af orðalagi þar sem m.a. eru notuð niðrandi slanguryrði um þann hóp sem ætlunin er að útrýma.“
Ég bið fólk að huga að því að við erum að tala um alþjóðlega glæpi. Þessir samningar og lög sem vísað er til, leggja áherslu á að hópmorð (eða þjóðarmorð í almannaskilningi) og aðrir glæpir samkvæmt lögunum, eru glæpir gegn mannkyninu. Þeir koma öllum við. Öllum ber skylda til að stöðva þessa glæpi – og refsa fyrir þá.
Það eru engar tvær hliðar á hópmorði, bara ein, alveg eins og það var bara ein hlið á Auschwitz. Þar var lika bara eitt hlið – hlið til helvítis verstu óhæfuverka manna. Það var þess vegna sem alþjóðasamfélagið setti sér þennan samning um hópmorð. Af því þjóðir heims sögðu „aldrei aftur“. Afstaða til hópmorða á ekki erindi í pólitískt þras. Þetta er ekki dægurmál sem hægt er að leiða hjá sér. Þetta er heldur ekki mál sem á að brenna á fólki „bara“ vegna mannúðarsjónarmiða. Þetta er ekki eitthvað sem „bara“ hvílir á okkar samvisku.
Þarna hvílir lagaskylda á okkar herðum. Samkvæmt alþjóðalögum og samkvæmt íslenskum lögum. Hjáseta ríkisvaldsins, ríkisstjórnarinnar og Alþingis er ekki val. Alþingi er búið að setja línuna um þetta, í okkar umboði og þinginu ber skylda til að tryggja að eftir lögunum sé farið.
Örlög almennings á Gaza er okkar mál.
Athugasemdir (5)