Fjórða bókablað Heimildarinnar er tileinkað ljóðinu. Forsíðuna prýðir Gyrðir Elíasson, skáld og myndlistarmaður, sem segir ljóðið það dýpsta í okkur og það sé meðal annars þess vegna sem það muni halda sessi.
Hann segir að þegar fyrsta ljóðabókin hans, Svarthvít axlabönd, hafi komið út árið 1983 „þá leit heimurinn allt öðruvísi út“ en í dag þekki hann varla Ísland eða heiminn. Þegar bókin kom út var Gyrðir 22 ára gamall og veröld ljóðsins hafði opnast fyrir honum og í kjölfar útgáfu þessarar frumraunar sagði hann í viðtali að ljóðlistin væri tilraun til að „gera stundarhughrif að einhverju varanlegu“.
Asil Al Masri, sautján ára palestínsk stúlka sem slasaðist alvarlega í loftárás Ísraelshers þann 17. október sagði nýlega
að heimur hennar, sem áður hafði verið varanlegur, hefði „rifnað í sundur“ við árásina en nær öll fjölskyldan hennar dó í árásinni.
„Skilaboð okkar til umheimsins eru skýr,“ stendur á blaðsíðu 29 í ljóðabók Lindu Vilhjálmsdóttur sem ber heitið frelsi og kom út árið 2015. Í næstu ljóðlínu segir:
„þó að lóðin sé skráð á krakkana
er okkur eftir sem áður
frjálst að framselja moldina“.
Misnotkun á frelsi
Bókin er í þremur hlutum I, II og III, ásamt eins konar formála og fjallar um frelsi út frá margföldum skilningi þess orðs. Soffía Auður Birgisdóttir sagði í umfjöllun sinni um bókina árið 2017 að „frelsi er eitt þessara stóru orða – kannski það stærsta – sem ekki verður skilgreint í eitt skipti fyrir öll því merking þess breytist í sífellu eftir því í hvaða samhengi það er notað (misnotað), hvar og hvenær.“
Í formála frelsi segir ljóðmælandi okkur að við höfum „margfaldað allt“ milli himins og jarðar en bætir svo við: „nema gæskuna“. Í lok formálans segir ljóðmælandi okkur að við höfum „margfaldað frelsið til að grafa okkur lifandi“ og bætir svo við: „í túninu heima“.
Í fyrsta hluta bókarinnar er fjallað um frelsi sem Íslendingar kannast við, frelsið í „náðugum dögum í sólstól með vínglas“. Ljóðmælandinn spyr samt hvað hafi orðið um „garðyrkjumeistarann mjúkmála sem lofaði gullregni, grillveislum og séreignasælu með okkar nánustu“. Í góðærinu þótti kannski frelsi í því að græða á daginn og grilla á kvöldin. Frelsið bjó í þankagangi sem við höfðum tileinkað okkur: Kaupthinking eða kaupþankagangur. Þankagangur sem bauð okkur „hræbillegt gasgrill og girðingaefni á raðgreiðslum“, þankagangur sem sagði okkur frjáls til að framselja moldina, jörðina, loftslagið, þó svo að komandi kynslóðir eigi hana. Frelsið er skilgreint út frá þeim sem hrifsa það og fá að ákveða hverjum það er beint gegn.
Í öðrum hluta bókarinnar tekur frelsi á sig aðrar „óhugnanlegar mótmyndir“ eins og Soffía Auður orðaði það, skilgreiningar á frelsi á hernumdum svæðum Palestínu. Linda Vilhjálms skrifar um það hvernig ljóð um Palestínu rötuðu í ljóðabókina um frelsi í greininni: „Við Grátmúrinn“ sem má finna aftar í blaðinu.
Strokleður og pennar
Á Borgarbókasafninu í Grófinni segir starfsmaður að það séu til tveir titlar, tvær bækur þar sem palestínsk ljóð eru þýdd á íslensku, hann réttir mér aðra þeirra, YAHYA HASSAN, frumraun palestínska-danska skáldsins, eða ríkisfangslausi Palestínumaðurinn með danska vegabréfið, Yahya Hassan, eins og hann lýsti sér sjálfur, sem seldist í 120 þúsund eintökum. Þegar hann var tilnefndur til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2020 sagði í rökstuðningnum: „Hann hefur orðið – ljóðið – í sínu valdi,“ þrátt fyrir valdaleysið sem kom fram í bókum hans. Og að í verkum hans tengdi hann ofbeldið í nærumhverfi sínum við ofbeldið í heiminum, að í textanum væri ekki langt frá Árósum til Gaza. Yahya Hassan lést árið 2020 aðeins 24 ára gamall.
Hina bókina var ég þegar með í fanginu: Ekkert nema strokleður eftir palestínska-íslenska skáldið Mazen Maarouf en ljóð hans hafa verið þýdd á um tug tungumála.
Tvö palestínsk skáld í Grófinni, fullur salur í Eldborg fyrir Hillary Clinton sem vill ekki vopnahlé. Fullvalda og frjáls Harpa lýst í gulum og bláum fánalitum en aldrei í rauðum, grænum, hvítum og svörtum.
„Skilaboð okkar til umheimsins eru skýr. “
Ekki fleiri orð sem hvítþvo helvíti á jörðu
Skilaboð skáldsins Anne Boyer, sem sagði upp starfi sínu sem ritstjóri ljóða hjá The New York Times, voru skýr, að hún gæti ekki fjallað um ljóð á sama vettvangi og þeir sem nýttu frelsi sitt til þess að slá skynsamlegum og rökréttum tón yfir órökrétta þjáningu annarra og venja þannig almenning við henni. Hún hætti vegna þess að tímaritið tók með þessu afstöðu með Ísrael og á móti Palestínu með orðnotkun sinni.
„Ekki fleiri orð sem hvítþvo helvíti á jörðu. Ekki fleiri lygar úr munni stríðs áróðursvélar,“ skrifaði hún og bætti við:
„Ef þessi uppsögn myndar gjá í fréttum, á stærð við ljóð, þá er það hið sanna form samtímans.“
Orðnotkun utanríkisráðherra Íslands, Bjarna Benediktssonar, vakti athygli þegar hann sagði að árás Ísraelshers á Jabalia flóttamannabúðirnar hefðu verið réttlætanlegar því það væri hægt að „réttlæta árás gegn hryðjuverkamönnum“. Stuttu áður hafði hann tekið ákvörðun fyrir Íslands hönd að sitja hjá í atkvæðagreiðslu um tafarlaust vopnahlé af mannúðarástæðum á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.
„Tvö palestínsk skáld í Grófinni, fullur salur í Eldborg fyrir Hillary Clinton sem vill ekki vopnahlé. Fullvalda og frjáls Harpa lýst í gulum og bláum fánalitum en aldrei í rauðum, grænum, hvítum og svörtum “
Einn þeirra sem bjó í Jabalia flóttamannabúðunum þegar þær voru sprengdar var palestínska skáldið Mosab Abu Toha. Hann lýsti áhrifum sprengjunnar og eyðileggingarinnar fyrir fjölmiðlum um heim allan.
„Ég hljóp út á götu og sá hryllilegasta blóðbað og eyðileggingu sem augu mín hafa nokkurn tíma litið,“skrifaði hann fyrir tímaritið Spectator 3. nóvember. Skilaboð hans til umheimsins voru skýr enda var hann handtekinn í kjölfar þeirra og vistaður í fangabúðum Ísraelshers þar sem hann var yfirheyrður og beittur ofbeldi.
„Síðan að Jabalia var sprengd fyrst hefur verið undarleg þögn á götunum: það eru engin börn að leik,“ skrifaði hann til umheimsins. Á Íslandi spilaði Breiðablik fótboltaleik við félagslið frá Ísrael í beinni útsendingu. Þjálfari liðsins, fjölmiðlafulltrúi og fyrirliði sögðu leikinn snúast um fótbolta á blaðamannafundi.
„Skilaboð okkar til umheimsins eru skýr. “
Skilaboð Bjarna voru skýr þegar hann sagði við Alþingi, þjóðina og umheiminn, að honum þætti „halla á málstað Ísraela“, í umræðu þingsins um að samþykkja Palestínu sem sjálfstætt ríki árið 2011. Hann sagði að forsætisráðherra Ísrael, Netanjahú, væri að „berjast fyrir friði“ og að deilan hefði frá upphafi snúist um „tilvist Ísraelsríkis“ sem öfgaöfl í Palestínu væru að byggja upp „kjarnorkuvopnagetu“ til að „afmá Ísraelsríki af yfirborði jarðar“. Hann sat hjá í atkvæðagreiðslunni um sjálfstæði Palestínu.
Árið 2004, ári eftir að Bandaríkin réðust inn í Írak, skrifaði Robin Tolmach Lakoff, prófessor emeritus í málvísindum við Berkeley-háskóla, grein í The New York Times um mátt orða á stríðstímum. Sprengjur og byssukúlur væru ekki einu tólin sem notuð væru í stríði, orð væru vopn. Tungumál stríðs, eins og hún orðaði það, væri notað til að sannfæra hermenn um að drepa annað fólk væri ekki bara ásættanlegt heldur líka virðingarvert. Til þess að sannfæra þá og almenning um það þyrfti að nota tungumálið til að mála upp hina sem óvini, með öðrum orðum, nota tungumálið til að afmennska andstæðing sinn nógu mikið til að hermenn og almenningur fyndu ekki lengur til með honum. „Rökstuðningurinn er: Þau eru í raun ekki mennsk, svo þau munu ekki upplifa sársaukann.“
Athugasemdir (1)