Björg Eva Erlendsdóttir framkvæmdastjóri Landverndar fagnar í grein 23. nóvember að Landsvirkjun, ráðuneyti orkumála (URN) og Orkustofnun hafi fengið fyrirtækið Implement til að greina möguleika til bættrar orkunýtingar. Undir það taka allir sem hyggja og vinna að fullum orkuskiptum og umhverfismálum.
Björg Eva minnir á að greiningin gerir ráð fyrir allt að 8% betri orkunýtingu við núverandi raforkunotkun eða 1.500 GWst á ári af rúmum 20.000 GWst.
Til þess að fyllla í myndina er rétt að geta þess að samkvæmt greiningunni er unnt að spara 356 Gwst á ári með núverandi tækni (t.d. LED-tækni og snjalltækni) og nokkrum kostnaði sem skilar sér vegna orkusparnaðar. Bættri orkunýtingu sem nemur 897 GWst væri náð til viðbótar með meiri framkvæmdum, aðgerðum og fé, til dæmis með nýtingu glatorku í iðnaði til framleiðslu á raforku eða heitu vatni. Implement telur að 24% af þessum orkusparnaði gæti náðst á fimm árum og 53% á næsta áratugi. Orkan sem verður til reiðu er dýrmætur skerfur til orkuskipta fyrir árin fram til 2040, þegar full orkuskipti eiga að vera í höfn.
Björg Eva minnir á að Landvernd hafi réttilega bent á orkusparnað. Það hafa aðrir gert, til dæmis ráðherrar, Orkustofnun, Samorka, Orkusetrið og Landsnet. Orkunýting hefur líka smitast inn í þingmál og orkustefnu stjórnvalda. Ég vil svo minna á skýrslu URN, Staða og áskoranir í orkumálum, sem varð verulegt umræðuefni eftir útkomuna í mars 2021. Þar er sérstakur kafli (nr. 5, á bls. 94 til 102) um orkunýtni og sparnað. Hann er úttekt með sjö undirköflum og endar á mörgum álitamálum og ábendingum til stjórnvalda, m.a. þessar:
„Mörg verkefni eru á áætlun sem koma til með að draga úr tapi á raforku í framleiðslu, dreifingu og flutningi. Þessi verkefni þurfa að fá forgang á næstu árum, ekki síst vegna þess að það virðist ein fljótvirkasta leiðin til að auka framboð á raforku.“
„Nýting glatvarma við ýmis konar framleiðslu er líka mikilvægur þáttur í betri orkunýtingu. Hér á landi er byrjað að huga að þessum málum í stóru málmiðjuverunum og farsælt að flýta vinnunni.“
„Hvatt er til frekari ílvilnana fyrir almenning og fyrirtæki vegna orkuskipta. Full ástæða er til að endurskoða núverandi ívilnanir og fleiri kosti í þeim efnum.“
Auk þessarar nýútkomnu skýrslu Implement eru á döfinni allnokkrar greiningar, skýrslur, lagafrumvörp og stefnuskjöl er varða orkumálin í vinnslu. Þau eiga að birtast á næstu vikum, mánuðum eða misserum og miða að fullum orkuskiptum innan 16 ára.
Athugasemdir