Borgarráð samþykkti á fundi sínum í dag að stytta af Séra Friðriki Friðrikssyni sem staðsett er á horni Lækjargötu og Amtmannsstígs verði tekin niður. Verkið verður fært í listaverkageymslu á vegum Listasafns Reykjavíkur.
Í bókinni Séra Friðrik og drengirnir hans eftir Guðmund Magnússon sagnfræðing og blaðamann koma fram ásakanir á hendur Friðriki um kynferðislegt áreiti og ofbeldi sem hann er sagður hafa beitt drengi. Þá hafa fleiri frásagnir af brotum Friðriks litið dagsins ljós í kjölfarið, meðal annars í Heimildinni.
Sigurjón Ólafsson, einn af fremstu myndhöggvurum þjóðarinnar, skapaði minnismerkið og var það reist árið 1955 í næsta nágrenni við þáverandi höfuðstöðvar KFUM og KFUK, að tilstuðlan gamalla nemenda séra Friðriks.
„Í ljósi ásakana sem fram hafa komið um að séra Friðrik hafi beitt drengi kynferðislegu áreiti eða ofbeldi, samþykkti borgarráð þann 9. nóvember síðastliðinn, að leita umsagna KFUM og KFUK annars vegar og Listasafns Reykjavíkur hins vegar, um hvort taka ætti minnismerkið af stalli,“ segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Umsagnirnar liggja nú fyrir og hníga í sömu átt, það er að minnismerkið verði tekið niður. Umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar verður falið að koma með tillögur að frágangi svæðisins í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur.
Áminning um það sem miður fer í samfélaginu
Forsvarsfólk Listasafns Reykjavíkur sagði í umsögn sinni að minnismerkið um séra Friðrik sé ein áhugaverðasta standmynd Sigurjóns. Í áranna rás hafi margir farið lofsamlegum orðum um listaverkið en að í ljósi nýrra upplýsinga og umræðu hafi merking verksins breyst. „Upplifun einstaklinga af listaverkum er mótuð af þeim tíma sem menn lifa og reynsluheimi hvers og eins,“ segir í umsögninni.
„Þannig getur listaverk sem eitt sinn var minnisvarði og upphafning orðið að áminningu um það sem miður fer í samfélaginu. Fátt bendir til þess að þeir sem líta minningu séra Friðriks jákvæðum augum kjósi að verkið verði að slíku minnismerki auk þess sem fá samfélög reisa sér minnisvarða um eigin skömm.“
Í umsögn KFUM og KFUK segir meðal annars að allt hafi sinn tíma. „Þegar styttur senda önnur skilaboð út í samfélagið en þeim var upphaflega ætlað þá er eðlilegt að borgaryfirvöld skoði að gera breytingar,“ segir í umsögninni. „Hlutverk okkar er að valdefla börn og ungmenni og gefa þeim gott veganesti út í lífið. Á þeirri mikilvægu vegferð hefur stytta af stofnanda félagsins lítið vægi.“
Sem slíkt sé ég það vera peningana virði.