„Bið, endalaus bið,“ syngur Svala Björgvins nú í viðtækjum landsmanna. Það er minna en mánuður til jóla. Sumir bíða þess að þau komi, aðrir bíða þess að þau líði.
Svala er þó ekki ein um að finnast „hver dagur svo lengi að líða“ og leiðast „skelfing að þurfa að bíða“.
Öll bíðum við eftir einhverju. Stóra tækifærinu, strætó, svari við tölvupósti, hamingjunni, boði í atvinnuviðtal, að röðin komi að okkur við kassann í Bónus, niðurstöðu úr læknisskoðun, nýju seríunni af The Crown, að lífið hefjist. Oft er biðin óhugnanlega keimlík biðinni eftir Godot í leikriti Samuels Beckett þar sem segir: „Ekkert gerist, enginn kemur, enginn fer, þetta er hræðilegt“ – eða eins og Svala orðar það: Hún „bara styttist ei neitt“.
Ekki er þó öll bið eins.
Meðan við bíðum
Í Grindavík er að finna lítið bakarí þar sem þrjár kynslóðir sömu fjölskyldu hafa staðið vaktina af elju og eldmóði í tuttugu og átta ár. En nú hafa hrærivélarnar hljóðnað.
„Að láta bíða eftir sér eru forn forréttindi þess sem hefur valdið,“ ritaði franski hugsuðurinn Roland Barthes og segir þann láta bíða eftir sér sem sé elskaður en þann mæta snemma sem elski. Annar franskur andans maður, félagsfræðingurinn Pierre Bourdieu, segir yfirvöld nota bið sem stjórntæki. Völdum sé viðhaldið með því að „láta fólk bíða“ – bíða eftir þjónustu, eyðublöðum, svörum og niðurstöðu.
Náttúruöflin sýna nú vald sitt. Bið lamar heilt bæjarfélag. Hvar, hvenær, hve lengi mun gjósa?
Mannkynið hefur lengi leitast við að brjótast undan ægivaldi biðar. Epiktetos, grískur þræll og einn af fyrstu stóuspekingunum, taldi sig hafa fundið leið til að losna undan óvissu í lífinu. Hann sagði að ef við skiptum tilverunni í það sem við hefðum stjórn á annars vegar og það sem við hefðum ekki stjórn á hins vegar, einblíndum á hið fyrra og hunsuðum hitt, öðluðumst við eilífa yfirvegun.
„Mannkynið hefur lengi leitast við að brjótast undan ægivaldi biðar“
Hætt er við að hinn almenni Grindvíkingur, sem nú bíður þess að sjá hvort hann fái að snúa aftur heim, segði málið flóknara en svo. En þótt stóuspekin hafi ekki leyst mannkynið undan þeirri tilfinningu að lífið sé biðstofa geta orð annars forgöngumanns hennar hjálpað okkur að skilja hismið frá kjarnanum.
„Meðan við bíðum líður lífið hjá,“ er haft eftir Seneca.
Þótt engar utanaðkomandi hindranir séu í veginum verður líf okkar margra bið að bráð. Meðan beðið er eftir rétta andartakinu sláum við á frest að hefjast handa, láta draumana rætast, fara í frí eða taka upp ný áhugamál. Frammi fyrir ægivaldi náttúrunnar virðist biðstaða Grindvíkinga því tröllaukin.
Víðir Reynisson, sviðsstjóri Almannavarna, sagði í vikunni ólíklegt að jól yrðu haldin með hefðbundnum hætti í Grindavík í ár. Ilminn af jólabakstri mun ekki leggja frá litla fjölskyldubakaríinu Hérastubbi við Gerðavelli. Stóuspekingur kynni að segja lítið við því að gera. En slíkt er ekki annað en uppgjöf.
Það er í eðli mannsins að bíða. En ef við lifum meðan við bíðum er til einhvers unnið. Þótt „bið, endalaus bið“ standi í vegi fyrir að jólasmákökur Hérastubbs fylli hillur bakarísins fylgir hér uppskriftin að kökunum með góðfúslegu leyfi sem við getum öll bakað og notið meðan við bíðum með Grindvíkingum eftir að fá að vita örlög sín.
Súkkulaðibitakökur Hérastubbs – með jólakveðju
120 g sykur
100 g púðursykur
120 g smjörlíki
1 egg
80 g súkkulaðibitar
240 g hveiti
1,5 tsk. matarsódi
1 tsk. vanilludropar
Setjið sykur, púðursykur og smjörlíki í hrærivél og hrærið. Bætið við eggi og vanilludropum og hrærið. Bætið þurrefnunum saman við og hrærið uns deigið helst vel saman. Rúllið deigið í hæfilega pylsu. Skerið pylsuna í 1 cm þykkar sneiðar, raðið þeim á plötu og bakið í ofni við 180 gráður í 6–8 mínútur.
Athugasemdir (2)