Bygging varnargarða við orkuverið í Svartsengi á Reykjanesi er alfarið á forræði almannavarna og samkvæmt nýjum lögum um varnir mikilvægra innviða vegna jarðhræringanna er ekki gert ráð fyrir beinni kostnaðarhlutdeild HS Orku í byggingu þeirra. „Aftur á móti hefur fyrirtækið varið umtalsverðum tíma og fjármunum í undirbúningsvinnu vegna mögulegra varna í Svartsengi,“ segir Birna Lárusdóttir, upplýsingafulltrúi fyrirtækisins.
Til að fjármagna varnir innviða, m.a. varnargarða við HS Orku, sem Bláa lónið verður einnig innan, verður lagður sérstakur skattur á húseigendur í landinu. Gjaldtaka hefst á næsta ári og mun standa í þrjú ár. Skatturinn mun nema 0,008 prósentum af brunabótamati fasteigna. Svo dæmi séu nefnd mun gjaldið nema 4.800 krónum á ári af íbúð með brunabótamat að fjárhæð 60 milljónir króna og 8.000 krónur á ári af íbúð með brunabótamat að fjárhæð 100 milljónir.
„Þegar óvissustigi var lýst yfir af almannavörnum hófum við að flytja jarðefni inn í Svartsengi í þeim tilgangi að fergja lagnir og borholur, til að verja þá innviði fyrir hraunrennsli, og eiga efni tiltækt í mögulega varnargarða,“ segir Birna um þann kostnað sem HS Orka hefur þegar lagt í vegna jarðhræringanna. Þegar hættustigi var svo lýst yfir af almannavörnum tók ríkið verkefnið yfir og það var ekki lengur á forræði HS Orku. „Við höfum ekki komið að málinu síðan að öðru leyti en því að við bjóðum fram alla okkar sérþekkingu, mannskap og tæki til að þessar framkvæmdir megi takast sem best.“
Hún segir að „sem betur fer“ séu ekki fordæmi fyrir þeim kringumstæðum sem nú eru á Reykjanesinu. „Þátttaka fyrirtækisins í kostnaði hefur ekki komið til umræðu af hálfu ríkisins. En við munum að sjálfsögðu taka samtalið ef eftir því verður leitað. Við skorumst ekki undan ábyrgð í því.“
Spurð um skýringar á því að HS Orka, sem er einkafyrirtæki, taki ekki þátt í kostnaði við að byggja varnargarða sem munu líklega kosta yfir 2,5 milljarða króna, bendir Birna á að HS Orka sé fyrirtæki í almannaþjónustu.
Í greinargerð með frumvarpinu um varnir mikilvægra innviða segir: „Meðal frumskyldna ríkisvaldsins er að vernda mikilvæga innviði samfélagsins og aðra almannahagsmuni fyrir hugsanlegu tjóni af völdum náttúruvár og sambærilegra atburða.“
Birna segir að ef starfsemi orkuversins í Svartsengi leggist af, tímabundið eða til lengri tíma, og ekki verður hægt að halda úti þjónustu, „er ljóst að miklir fjármunir yrðu að renna úr opinberum sjóðum til að byggja þá þjónustu upp á nýjan leik. Slíkt yrði margfalt dýrara fyrir þjóðarbúið en bygging varnargarða“.
Brestur í rekstri Svartsengis geti auk þess leitt til stórtjóns á fasteignum heimila og fyrirtækja í nærsamfélagi fyrirtækisins. „Fyrst og síðast mun garðurinn verja þjóðhagslega mikilvæga innviði,“ segir hún. „Þessir innviðir veita heitu og köldu vatni til 30.000 manna byggðar á Suðurnesjum; heimila, fyrirtækja og alþjóðaflugvallarins í Keflavík, og framleiðir jafnframt raforku inn á meginflutningskerfi þjóðarinnar sem nýtist um allt land.“
Í þessu sambandi vill Birna jafnframt benda á að Ísland hefur skuldbundið sig í varnarsamningum til að útvega heitt og kalt vatn til varnarliðsins. Það sé líka liður í þjóðaröryggi Íslands að tryggja rekstur Keflavíkurflugvallar. „Aðgangur að heitu og köldu vatni er rekstri vallarins bráðnauðsynlegur.“
Verulegt verðmæti virkjunar
Í greinargerð með frumvarpi ríkisstjórnarinnar um varnir mikilvægra innviða er dregið fram hvaða áhrif og kostnað það myndi hafa í för með sér ef orkuverið í Svartsengi yrði óstarfhæft.
Þar segir: „Ljóst er að verulegt tjón getur hlotist af því ef starfsemi orkuversins í Svartsengi leggst af. Fjárhagslegt verðmæti virkjunarinnar er verulegt, bókfært virði hennar er um 24 milljarðar kr. En gróflega áætlað endurstofnvirði er um 70 milljarðar kr. Fyrir utan fjárhagslegt virði innviða á svæðinu verður mjög vandasamt og kostnaðarsamt að koma á varaafli. Fyrirliggjandi upplýsingar benda til að kostnaður við kaup á neyðarkyndistöðvum sem duga fyrir lágmarksupphitun fyrir öll Suðurnes og annan nauðsynlegan búnað sé um tveir milljarðar kr. Neyðarkyndistöðvarnar ganga fyrir olíu og gæti olíukostnaður numið 800 til 1.500 milljónum kr. á mánuði, auk annars rekstrarkostnaðar. Umræddur búnaður er ekki til á landinu og óvíst er á þessum tímapunkti hvort hann sé laus til afhendingar annars staðar í heiminum. Jafnframt er ljóst að umhverfisáhrif af rekstri kyndistöðvar af þessu tagi yrðu veruleg.“
Tvö félög eiga HS Orku
Eigendur HS Orku eru tveir: Jarðvarmi slhf. og sjóðir í stýringu hjá breska fyrirtækinu Ancala Partners LLP. Eignarhlutur hvors um sig er 50%.
Það eignarhald hefur verið við lýði frá árinu 2019. Þá keypti Jarðvarmi, sem er félag í eigu 14 íslenskra lífeyrissjóða, öll hlutabréf í HS Orku sem það átti ekki fyrir og seldi síðan helming þeirra til Ancala fyrir um 37 milljarða króna á þávirði.
Áður en að það var gert tók Jarðvarmi þó 30 prósent hlut HS Orku í Bláa lóninu út úr orkufyrirtækinu og seldi til nýs félags í eigu íslenskra lífeyrissjóða, Blávarma slhf, á 15 milljarða króna. Sú sala, sem var tilfærsla á hlut HS Orku í Bláa lóninu úr einum lífeyrissjóðsvasa í annan án þess að peningar skiptu um hendur, gerði það að verkum að HS Orka bókfærði 9,8 milljarða króna hagnað á árinu 2019. Þar er að uppistöðu um að ræða muninn á bókfærðu virði hlutarins í Bláa lóninu og þess sem hann var seldur á.
Á síðustu árum, frá 2020 og út árið 2022, hafa átt sér stað nokkuð umfangsmikil endurkaup á bréfum í HS Orku sem hafa samanlagt skilað um 10,7 milljörðum króna til hluthafa félagsins.
Athugasemdir (2)