„Við getum snúið smæð okkar í styrk,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í aukafréttatíma RÚV daginn eftir að Grindavíkurbær var rýmdur vegna eldgosahættu. Hann sagðist stoltur af viðbrögðum landsmanna sem margir hefðu boðið Grindvíkingum aðstoð. „Við erum á svona stundum eins og lítil fjölskylda.“
En forseti Íslands er einnig meðvitaður um „vandræðin“ sem fylgt geta smæðinni. Í áramótaávarpi sínu árið 2020 sagði Guðni að af smæðinni geta hlotist „vinhygli, spilling og hvers kyns freistni“. En þá er ekki allt talið.
Annar tveggja Sigurða
Rithöfundurinn Steinunn Sigurðardóttir velti fyrir sér stéttaskiptingu á Íslandi í færslu á Facebook í síðustu viku. Þegar Steinunn gerðist blaðamaður á Alþýðublaðinu, ekki orðin átján ára, og ári síðar fréttamaður á fréttastofu útvarps, lék fólki forvitni á að vita hvort væri rétt, að hún væri dóttir Sigurðar á Loftleiðum eða Sigurðar Sigurðssonar íþróttafréttamanns. „Svarið, dóttir Sigga vörubílstjóra, kom spyrjendum í opna skjöldu,“ sagði Steinunn.
„Hverra manna ertu?“ er spurning jafníslensk og hangikjöt og kennitala. Svo viðtekin er sú venja hér á landi að kaupin á eyrinni lúti lögmálum ættartölunnar að ekki þótti annað koma til greina en að faðir Steinunnar, ungrar konu sem lét að sér kveða, væri annar tveggja Sigurða.
En hin gamalgróna spurningin „hverra manna ertu?“ tekur á sig nýja mynd um þessar mundir.
Bala Kamallakharan hefur búið á Íslandi í sautján ár. Þann tíma hefur hann unnið ötult starf í þágu íslenskrar nýsköpunar og sprotafyrirtækja, bæði sem fjárfestir og upphafsmaður ráðstefnunnar Startup Iceland. Bala lét nýverið í ljós vonbrigði sín yfir þeim móttökum sem hann hefur fengið sem innflytjandi í íslensku viðskiptalífi. Þar sem hann sat ráðstefnu á vegum Framvís, samtaka vísifjárfesta, birtist honum glæra yfir leiðandi fjárfestingasjóði í íslenska sprotageiranum. Á glæruna vantaði hins vegar báða þá sjóði sem hann stýrir. „Sú staðreynd að maður sé utanaðkomandi og innflytjandi á Íslandi blasir alltaf við,“ sagði Bala á Facebook og kvað sig ítrekað verða fyrir upplifun sem þessari.
Ekki illgirni
Í fyrrnefndum aukafréttatíma RÚV vakti forseti Íslands máls á fjölda Grindvíkinga sem væru af erlendu bergi brotnir. Hann sagði þann hóp ekki búa við sama tengslanet og meginþorra íbúa og að við þyrftum „að sinna þeim hópi líka“.
Áminningarinnar reyndist þörf. Organisti Grindavíkurkirkju vakti athygli á bágri stöðu hóps hælisleitenda frá Venesúela úr Grindavík. Mörg þeirra sungu í kór kirkjunnar en þau bjuggu nú við matar- og fjárskort á víð og dreif um landið. Þeirra á meðal var par sem dvaldi allslaust í Hvalfirði án allra nauðsynja fyrir þriggja mánaða gamalt barn sitt.
Hverra manna ert þú?
Við Íslendingar erum flest af „hverra manna“-stétt. Hér á landi rís hins vegar upp ný stétt „annarra manna“, þeirra sem aldrei eru spurð hverra manna þau séu. Þau eru fólkið sem rekur ekki ættir sínar til Jóns Arasonar svo að okkur yfirsést neyð þeirra; fólkið sem finnst ekki í nepótíska niðjatalinu svo að við gleymum afrekum þeirra. Þótt þau fái ríkisborgararétt, flaggi kennitölu, borði hangikjöt og eignist íslensk börn með bornum og barnfæddum Íslendingum tilheyra þau aldrei alveg „litlu fjölskyldunni“.
Smæðin getur af sér samheldni og samtakamátt. En hún veldur því líka að erfitt er fyrir utanaðkomandi að smjúga inn í þéttofið samfélagsnetið.
Fyrirlesarinn sem gleymdi framlagi Bala Kamallakharan til íslenska sprotasamfélagsins bað hann einlæglega afsökunar. Það er ekki illgirni sem veldur því að mörg okkar af „hverra manna“-stétt eigum til að líta framhjá samborgurum okkar sem eru „annarra manna“. Skortur á ásetningi gerir yfirsjónina þó engu betri.
„Nú erum við í þessu saman, nú sýnum við hvað í okkur býr,“ sagði forseti Íslands á RÚV. „Við ráðum ekki við ægimátt náttúruaflanna en við getum stýrt okkar eigin viðbrögðum.“
Við ráðum ekki hvernig fortíðin hefur mótað samfélag okkar og viðhorf. En við getum stýrt okkar eigin viðbrögðum við samtímanum. Um leið og við stöndum þétt við bakið á Grindvíkingum er okkur fært að segja skilið við „hverra manna“-samfélagið. Tökum forsetann á orðinu og sýnum hvað í okkur býr. Því eins og hann sagði; við erum í þessu saman. Nú – og um ókomna framtíð.
Athugasemdir (2)