„Þetta er sannarlega starfsmaður RÚV og okkur finnst þetta ótrúlega leiðinlegt. Við hörmum þetta mjög,“ segir Heiðar Örn Sigurfinnsson, fréttastjóri RÚV.
Myndband úr öryggismyndavél hjá húseiganda í Grindavík sem þurfti að yfirgefa heimili sitt sýnir að ljósmyndari RÚV reynir að komast inn í læst húsið og virðist leita að lyklum í blómapotti eftir að hann kemst að raun um að útidyrnar eru læstar.
Húseigandinn deildi myndbandinu á Facebook fyrir um klukkustund og hefur það vakið gríðarlega athygli. Hún skrifar með færslunni: „Nú er ég reið þetta er ekki í lagi, fréttamenn hafa ekki leyfi til að fara inná heimilið mitt! RUV skammist ykkar, set inn myndband þið eigið að láta heimilin okkar vera í Grindavíkurbær. Grindvíkingar, kíkið á myndavélarnar og sjáið hvort fréttamenn eru að reyna að komast inn.“
Heiðar Örn segir þetta ekki dæmi um vinnubrögð sem RÚV ástundi. „Við erum búin að yfirfara vinnuferla, búin að tala við ljósmyndara og búin að tala við húseiganda og biðja hana afsökunar.“
En hver ber ábyrgð?
„Við erum ekki búin að fara yfir það, allan ferilinn frá a til ö og ræða við alla. Við eigum eftir að fara betur yfir allt málið.“
Spurður hvaða áhrif þetta hafi fyrir RÚV segir Heiðar Örn: „Þetta er klárlega álitshnekkir.“
Uppfært klukkan. 16:08 með tilkynningu sem Heiðar Örn sendi frá sér:
Starfsmaður RÚV sást í dag á öryggismyndavél reyna að komast inn í yfirgefið hús og leita að lyklum að læstum dyrum. Fréttastofa RÚV harmar þetta atvik og biður íbúa hússins og alla Grindvíkinga innilegrar afsökunar á því. Fréttamenn RÚV hafa kappkostað að fjalla um atburðina í Grindavík af virðingu fyrir íbúum og eigum þeirra, og vinnubrögðin sem sjást á myndskeiðinu eru ekki í anda vinnureglna eða þess anda sem fréttastofan starfar í. Við höfum rekið atvikið til misskilnings og óðagots á vettvangi, en munum í kjölfarið fara yfir verkferla okkar og vinnureglur og brýna fyrir öllum þeim sem fara á vettvang að virða einkalíf og eigur Grindvíkinga, og valda þeim ekki meiri óþægindum eða sorg en þeir upplifa fyrir.
Athugasemdir (2)