Almannavarnir sendu boð um rýmingu af öryggisástæðum á þriðja tímanum í dag vegna gasmælinga. Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir í samtali við Vísi að lögreglu hafi borist boð um rýmingu frá samhæfingarmiðstöð almannavarna en boðin hafi síðar verið afturkölluð.
Þá hafi hins vegar verið of seint að hætta við.
„Þetta skotgekk en þetta er óheppilegt, en lítið annað að gera fyrir viðbragðsaðila,“ segir Lúðvík í samtali við Vísi.
Benedikt Ófeigsson, fagstjóri hjá Veðurstofunni, segir í samtali við RÚV að mælar sem voru nýverið settir upp nemi brennisteinsdíoxíð (SO2). Aðrir mælar gefa ekki vísbendingar um að gos sé að hefjast. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum tók ákvörðun um rýmingu.
Í tilkynningu frá almannavörnum kemur fram að rýmingin sé af öryggisástæðum, ekki sé um neyðarrýmingu að ræða.
Brennisteinsdíoxíð, eða brennisteinstvíildi, er litlaus lofttegund sem flest fólk finnur lykt af, ef styrkurinn nær u.þ.b. 1000 µg/m3. Brennisteinsdíoxíð hefur neikvæð áhrif á heilsu manna og hár styrkur brennisteinsdíoxíðs getur hindrað öndun, ert augu, nef og háls, valdið köfnun, hósta, öndunarsjúkdómum og óþægindum í brjósti. Ekki er ljóst hversu hár styrkur gassins er sem mælar Veðurstofunnar sýna.
Íbúum sem ekki gafst kostur á að sækja eigur sínar í gær voru í bænum en tekin hefur verið ákvörðun um að loka Suðurstrandarvegi við gatnamót Krýsuvíkurvegar og þeim íbúum sem eru í bænum hefur verið gert að yfirgefa hann. Aðstæður verða endurskoðaðar á morgun.
Athugasemdir