Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hefur borist ný tilkynning um grunsamlegar mannaferðir karlmanns sem grunaður er um að hafa fróað sér í bíl á meðan börn voru í sjónmáli.
Tvær konur segja í samtali við Heimildina að hann hafa verið fyrir utan glugga á barnaherbergi í byrjun vikunnar, að morgni sunnudags og að morgni mánudags. Ung dóttir annarrar konunnar sem gerði móður sinni vart um manninn sagði: „Kannski er hann að leita að sínu barni“.
Afplánaði dóm í Bandaríkjunum
Vísir greindi frá því um miðjan september að foreldrar barna í Kársnesskóla í Kópavogi hafi fengið tölvupóst um að einstaklingur væri á ferð í vesturbæ Kópavogs „sem við viljum ekki að sé í kringum börnin okkar“. Skólastjórnendur höfðu ekki orðið varir við manninn en fannst þó rétt að vara við honum.
Á þessum tímapunkti hafði maðurinn endurtekið sést í bifreið sinni nálægt stöðum sem börn sækja. Hann er á fertugsaldri og sat í fangelsi í Bandaríkjunum í tæp átta ár vegna kynferðisbrots gegn 13 ára stúlku. Maðurinn lauk afplánun árið 2021 og flutti eftir það til Íslands.
Lögreglan hefur lokið rannsókn á meintu blygðunarsemisbroti mannsins í bíl hans í Kópavogi og vísað því til héraðssaksóknara sem tekur ákvörðun um hvort ákæra verður gefin út í málinu.
Aukið eftirlit í hverfinu
Nýja tilkynningin snýst um ferðir mannsins í Garðabæ í byrjun þessarrar viku. Hann var þá í bíl sínum fyrir utan sitthvora íbúðina, annars vegar klukkan níu að morgni sunnudags og hins vegar klukkan sjö að morgni mánudags.
Mæður á þessum heimilum tóku eftir manninum og skrifuðu niður bílnúmerið sem kom heim og saman við bílnúmer mannsins sem grunaður er um blygðunarsemisbrotið í Kópavogi. Í annað skiptið hafði hann ekið bifreiðinni inn í garð sem barnaherbergið vísaði að en í hitt skiptið sást hann ganga minnst fjórum sinnum framhjá glugga barnaherbergis. Samkvæmt upplýsingum frá kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur eftirlit verið aukið í hverfinu.
Athugasemdir