Síðastliðið vor fól Alþingi heilbrigðisráðherra að láta framkvæma skoðanakönnun um viðhorf heilbrigðisstarfsmanna, sjúklinga og almennings til dánaraðstoðar. Gallup sá um framkvæmd könnunarinnar og voru niðurstöðurnar birtar á vef Alþingis 8. júní sl.
Spurt var annars vegar um almenna afstöðu þátttakenda til dánaraðstoðar með svohljóðandi spurningu:
Á heildina litið, hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) ert þú því að dánaraðstoð verði leyfð á Íslandi? þar sem svarmöguleikarnir voru:
-
Alfarið hlynnt(ur)
-
Mjög hlynnt(ur)
-
Frekar hlynnt(ur)
-
Hvorki hlynnt(ur) né andvíg(ur)
-
Frekar andvíg(ur)
-
Mjög andvíg(ur)
-
Alfarið andvíg(ur)
Hins vegar var spurt um viðhorf þátttakenda til mismunandi leiða við framkvæmd dánaraðstoðar en spurningin var svohljóðandi:
Ef dánaraðstoð yrði leyfð á Íslandi, hver eftirtalinna leiða við dánaraðstoð myndi hugnast þér best?
-
Læknir gefur sjúklingi lyf í æð
-
Sjúklingur innbyrðir sjálfur lyf sem læknir útvegar
-
Læknir skrifar upp á lyf sem sjúklingurinn sækir í apótek og innbyrðir sjálfur
-
Mér hugnast engin ofantalinna leiða
Í þessari grein verður einblínt á afstöðu almennings til lögleiðingar dánaraðstoðar á Íslandi. Stærð úrtaks könnunarinnar var 1.694 einstaklingar af landinu öllu, 18 ára og eldri, og voru þeir valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Gallup. Fjöldi svarenda var 862 og svarhlutfall því 50,9%. Könnunin var framkvæmd á tímabilinu 19. apríl til 2. maí 2023.
Mikill stuðningur frá árinu 2015
Meirihluti svarenda eða 75,6% segist alfarið, mjög eða frekar hlynntur því að dánaraðstoð verði leyfð á Íslandi. Séu þessar niðurstöður bornar saman við eldri kannanir má sjá svipaðar tölur. Í könnun um dánaraðstoð sem Siðmennt lét framkvæma árið 2015 var stuðningurinn 74.5%. Könnun sem Maskína framkvæmdi fyrir Lífsvirðingu í nóvember 2019 sýndi að stuðningur Íslendinga við dánaraðstoð var 77.7% og þegar könnunin var endurtekin árið 2022 kom svipaður stuðningur í ljós eða 76,2%. Samanburðartölurnar má sjá í grafinu hér fyrir neðan.
Stuðningur almennings við dánaraðstoð er svipaður í öðrum Evrópulöndum. Sem dæmi þá styðja 84% Breta dánaraðstoð á meðan hlutfallið er 75,6% í Frakklandi, 70% í Noregi og 85% í Finnlandi, til að nefna bara nokkur Evrópulönd. Þessa má geta að dánaraðstoð hefur þegar verið leyfð í Hollandi, Belgíu, Lúxemborg, Þýskalandi, Sviss, Austurríki, Portúgal og Spáni. Þar að auki er verið að þróa löggjöf í Bretlandi, Írlandi og Ítalíu.
Viðhorf almennings til mismunandi leiða við dánaraðstoð
Þegar spurt var hvaða leið hugnaðist svarendum best ef dánaraðstoð yrði leyfð á Íslandi svaraði meirihluti eða 53,1% að læknir gefi sjúklingi lyf í æð, 26,1% að sjúklingur innbyrði sjálfur lyf sem læknir útvegar og 9,1% að læknir skrifi upp á lyf sem sjúklingurinn sækir í apótek og innbyrðir sjálfur. 11,7% svöruðu að þeim hugnaðist engin ofangreindra leiða. Aðrar kannanir hafa sýnt svipaðar niðurstöður. Í grafinu hér fyrir neðan má sjá niðurstöður kannana sem Maskína framkvæmdi fyrir Lífsvirðingu 2019 og 2022 en spurningarnar um mismunandi leiðir við dánaraðstoð voru eins orðaðar og í könnun heilbrigðisráðherra.
Hvenær tekur Alþingi dánaraðstoð til umræðu?
Þó að þessi afgerandi stuðningur Íslendinga við dánaraðstoð sé ánægjulegur má velta fyrir sér hvenær Alþingi muni taka tillit til vilja þjóðarinnar. Hann ætti að endurspeglast á Alþingi þar sem kjörnir fulltrúar hennar sitja. Hvenær ætla Alþingismenn að blanda sér fyrir alvöru í umræðuna um dánaraðstoð?
Greinarhöfundar er formaður Lífsvirðingar, félags sem berst fyrir lögleiðingu á réttinum til dánaraðstoðar á Íslandi.
Athugasemdir