Aukakosningar fóru fram í Bretlandi nýverið. Kosið var um tvö þingsæti í kjördæmum þar sem Íhaldsflokkurinn hefur löngum haft tögl og hagldir. Niðurstaða kosninganna var söguleg fylgisaukning Verkamannaflokksins sem tryggði sér bæði sætin.
Gillian Keegan, þingmaður Íhaldsflokksins og menntamálaráðherra Bretlands, þvertók hins vegar fyrir að niðurstaðan sýndi að fylgi Verkamannaflokksins „hefði aukist“. Í sjónvarpsviðtali sagði hún að ef „málið væri skoðað niður í kjölinn“ kæmi í ljós að atkvæðum Íhaldsflokksins hefði einfaldlega fækkað.
Íslensk stjórnvöld eru engir eftirbátar breskra þegar kemur að innihaldslausu orðagjálfri.
Fyrir viku var kosið um mannúðarvopnahlé á Gaza á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Í sjónvarpsviðtali í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra afstöðu íslenskra stjórnvalda til stríðs Ísraels og Hamas skýra; þau tækju „undir kröfuna um mannúðarhlé á þessum átökum“. Nokkrum klukkustundum síðar sat Ísland hins vegar hjá í atkvæðagreiðslunni. Í kjölfarið sagði Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra það þó ekki breyta „skýrri afstöðu Íslands um tafarlaust mannúðarhlé“.
Hvað er söguleg fylgisaukning? Hvað er skýr afstaða? Orðhengilsháttur stjórnmálafólks er oftast aðhlátursefni. En stundum er hann dauðans alvara.
Íslenskir flóttamenn
Guðríður Bjarnadóttir var aðeins ellefu ára þegar hún neyddist til að leggja á flótta frá heimili sínu. Árið var 1783 og flúði hún verstu hörmungar Íslandssögunnar, Skaftárelda.
Guðríður hrökklaðist ásamt foreldrum sínum suður á Álftanes. Þegar foreldrar Guðríðar dóu úr vesöld var henni komið fyrir í tukthúsinu á Arnarhóli en var þaðan „til sveitar rekin“; henni var gert að snúa aftur heim í eyðilegginguna því að sveitinni var ætlað að sjá fyrir henni.
Þegar þangað var komið þótti Guðríður efnileg og hæf til fermingar, næm og skörp til munns og handa. En ekki leið á löngu uns síga fór á ógæfuhliðina. Guðríður missti afl og tilfinningu í allri hægri hliðinni og glímdi við mál- og minnisleysi. Um jólin 1788 missti hún sjónina og á þorra 1789 tók að myndast gat á höfuðskelina en fúasár á líkamann. Guðríður lést 29. mars 1789, aðeins 17 ára að aldri.
„Fyrst afstaða íslenskra stjórnvalda til mannúðarhlés er svona skýr, hvers vegna kaus Ísland ekki með ályktuninni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna?“
Saga Guðríðar er sögð í nýrri þáttaröð um Skaftárelda á Rás 1 en í þáttunum er meðal annars greint frá viðbragðsleysi Dana við hamförunum á Íslandi.
Sagnfræðingurinn Már Jónsson rekur ófarir Guðríðar og hefur þær eftir kirkjubók séra Jóns Jónssonar, prests í Meðallandi í Vestur-Skaftafellssýslu. Már segir prestinum hafa blöskrað framganga danskra embættismanna sem „voru að senda þessa krakka og þetta fólk aftur heim í ekki neitt“. Hann segir fólk hafa „orðið illa haldið af sjúkdómum sem, eins og í tilviki þessarar stúlku Guðríðar, taka sig upp og svo bara deyr hún.“
Kerfisvæðing kærleikans
Fyrst afstaða íslenskra stjórnvalda til mannúðarhlés er svona skýr, hvers vegna kaus Ísland ekki með ályktuninni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna?
Utanríkisráðherra sagði ástæðuna orðalag; hann hefði viljað að í ályktuninni yrðu hryðjuverk Hamas jafnframt fordæmd.
Séra Jón í Meðallandi upplifði hörmulegar afleiðingar Skaftáreldanna og gerði sitt besta til að hjálpa þeim mörgu sem áttu um sárt að binda. Í kirkjubók sinni hótar hann dönskum embættismönnum að þeir muni fá endurgoldið í helvíti fyrir það hvernig þeir komu fram við fólk sem flúið hafði „eldsneyðin“ en var sent aftur heim við illan aðbúnað.
En þótt illa hafi farið fyrir Guðríði Bjarnadóttur og fleirum telur Már Jónsson „að menn hafi viljað vel og hafi sjálfsagt verið að reyna að vanda sig“.
Góður ásetningur er virðingarverður. Velvilji Dana gat þó verið banvænn.
Guðríður Bjarnadóttir var ekki fórnarlamb Skaftárelda. Guðríður Bjarnadóttir var fórnarlamb formsatriða. Þegar Guðríður var send, án nokkurs tillits til aðstæðna, á sína sveit eingöngu vegna þess að þannig virkaði kerfið, voru örlög hennar ráðin.
Líklegt er að utanríkisráðherra, eins og danskir embættismenn fyrrum, vilji vel og reyni að vanda sig. En kerfisvæðing kærleikans leiðir oft til grimmilegrar niðurstöðu.
Auðvitað á að fordæma ódæði Hamas. En að láta formsatriði eins og orðalag koma í veg fyrir stuðning við vopnahlé og mannúðaraðstoð er smánarlegt.
„Sagan mun dæma okkur,“ sagði Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, um leið og hann hvatti þjóðir heims til að styðja mannúðarhlé í átökunum á Gaza.
Nú þegar 240 ár eru liðin frá upphafi Skaftárelda dæmum við hart kerfiskærleik danskra embættismanna í garð fórnarlamba hamfaranna. Ólíklegt er að sagan felli mildari dóm yfir kerfiskærleik Íslendinga árið 2023.
takk