Fyrrverandi aðstoðarmaður Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegsráðherra, Gunnar Atli Gunnarsson, mun setjast í stjórn laxeldisfyrirtækisins Arctic Fish á Ísafirði. Tillaga um þetta liggur til samþykktar á hluthafafundi norska eignarhaldsfélags Arctic Fish AS sem heldur utan um hlutabréfin í ísfirska laxeldisfyrirtækinu. Tillagan er birt í norsku kauphöllinni.
Eini tilgangur fundarins er að skipa nýja stjórn yfir félagið. Ef tillagan verður samþykkt þá verður Gunnar Atli eini íslenski stjórnarmaður félagsins en fyrir var enginn Íslendingur í stjórn þess. Fundurinn fer fram á fimmtudaginn 2. nóvember.
Síldarvinnslan með þriðjungshlut
Síldarvinnslan, sem meðal annars er í eigu útgerðarfélagsins Samherja sem Kristján Þór var stjórnarformaður hjá á sínum tíma, er stærsti íslenski hluthafi Arctic Fish. Norski laxeldisrisinn Mowi, stærsta laxeldisfyrirtæki í heimi, er hins vegar stærsti norski hluthafinn og fer Mowi með meirihluta í félaginu.
Athugasemdir (1)