Ég heiti Ralph og við erum stödd í Háskóla Íslands í Reykjavík. Ég er hér í meistaranámi í íslenskri miðaldafræði. Hvers vegna? Það er löng saga en ég hef alltaf haft áhuga á þessu. Ég settist í helgan stein fyrir átján mánuðum síðan. Við hvað starfaði ég? Það er önnur löng saga. Ég starfaði mest allan ferilinn minn í háskólum en mest megnis í stjórnunarstörfum. Að fara aftur að læra og að koma til Íslands var eftirlaunagjöf frá mér til mín.
Þetta var augljóslega mjög dýr ákvörðun, ég lifi á lífeyrinum mínum og þarf að huga að hverju penní. Þetta var líka stór ákvörðun, að flytjast búferlum á milli landa. Ég hef aldrei gert það áður. Ég hafði komið hingað nokkrum sinnum sem túristi en aldrei búið hérna. Ég kunni enga nútímaíslensku áður en ég flutti hingað en ég er að reyna læra hana, með erfiðum, ásamt forníslenskunni, sem er hluti af náminu. Ég flutti hingað í ágúst. Jafnvel þó mikill fjöldi Íslendinga tali ensku finnst mér það kurteisi að reyna að minnsta kosti að læra íslensku, þótt það sé krefjandi.
Í grunnnáminu mínu var mín aðaláhersla á enska miðaldasögu. Þar var einhver vísun í víkinga og Skandinavíu, og Ísland, en alltaf í ensku samhengi. Það sem heillaði mig við íslenska miðaldafræði, hvar á ég að byrja? Auðvitað bókmenntirnar og þar eru Íslendingasögurnar auðvitað fremstar. Annað sem heillaði mig við Ísland, og er einstakt við Ísland, að ég held, í það minnsta í evrópsku samhengi, að þá var Ísland numið frekar seint og það sem meira er, það var enginn annar hérna fyrir. Ólíkt Englendingum, Frökkum og Hollendingum sem gerðu sér nýlendu úr Norður-Ameríku þar sem fyrir var menning og annað fólk. Það er auðvitað saga af írskum prestum sem voru hérna en þeir voru fáir og fóru. Ísland var og er líka strjálbýlt, sem er einstakt, meira að segja í nútímanum. Fyrir hundrað og fimmtíu árum var Reykjavík fremur lítil, hún er núna allt önnur, meira eins og aðrar evrópskar borgir. Hún er kannski ekki stór miðað við aðrar höfuðborgir, ég viðurkenni það, en hún er stærri en litli bærinn sem ég ólst upp í og þannig er hún stór fyrir mér. Ég er farinn að röfla, er það ekki? Það er einn af mínum slæmu siðum. Ég tala of mikið.
Efst í huga mér þessa dagana eru fréttir sem berast frá Mið-Austurlöndum. Fyrir það voru það fréttir af innrásinni og stríðinu í Úkraínu. Ég er nógu gamall til að muna fyrri deilur í Mið-Austurlöndum, eins og Yom Kippur stríðið og öðru eins. Ég er nógu gamall að þegar ég ólst upp voru Sovétríkin stórveldi en ekki Kína.
Ég veit ekki hvort ég fylgist meira með fréttum núna verandi á eftirlaunum, en ég reyni mitt besta að halda í við þær. Ísland stendur sig vel þegar kemur að því að þýða íslenskar fréttir yfir á ensku eins og RÚV og Grapevine. Ég reyni að fylgjast með stjórnmálum og menningu á Íslandi eins og um kvennaverkfallið, sem var stór viðburður. Ég var mjög heillaður af þeirri staðreynd að rektor Háskólans studdi það opinberlega. Ég er ekki viss um að það hefði gerst í Bretlandi. Þar eru vissulega kvennahreyfingar og mikið af sömu vandamálunum en ekkert kvennaverkfall.
Ég hef lesið frásagnir um tímabilið í kringum það þegar Vigdís Finnbogadóttir var kjörin fyrsti kvenforsetinn. Ég reyni að einblína ekki bara á slæmu fréttinar utan úr heimi eða hryllinginn sem á sér stað annars staðar. Það er tilhneiging til þess að sumir atburðir detta út af radarnum af því að það er bara svo og svo mikið pláss í blöðum og fréttatímum. Þar gæti ég nefnt það sem er að gerast í Yemen eða Kongó. Nú er ég farinn að röfla. Svarar þetta spurningunni þinni?
Ég reyni að minna sjálfan mig á, sérstaklega þegar ég er í prófatörn, hversu heppinn ég er að búa í þeim hluta Evrópu þar sem ríkir friður, ég meina Bretland er ekki fullkomið, það er í raun margt slæmt í gangi þar. Kannski líka á Íslandi? Það er þó mín tilfinning að Ísland sé jafnara og öruggara en til dæmis Bretland. Mikið af fólkinu sem er með mér í námi er frá Bandaríkjunum og þeirra tilfinning og reynsla af glæpum til dæmis er allt önnur en í Bretlandi. Ég er mjög heppinn en í hvert skipti sem ég kveiki á fréttunum eru þær slæmar. Svarar það spurningunni þinni?
Eitt augnablik sem breytti lífi mínu? Þessi er erfið. Það sem er augljósast fyrir flestum að nefna er að gifta sig og eignast börn en því miður þá gerðist það aldrei í mínu tilfelli. Auðvitað er það nýlegasta sem breytti lífi mínu að koma hingað. Án þess að drekkja þér í lífssögunni minni þá get ég sagt þér að eftir fyrstu gráðuna mína vann ég í fimm ár við gagnaöflun, það var í samhengi menntunar, en ekki það sem ég vildi gera en var samt vinna. Þetta var snemma á áttunda áratugnum og atvinnuleysi í Bretlandi var mikið. Ég tók ákvörðun um að gefa vinnuna upp á bátinn og fara aftur í skóla. Ég eyddi öllum mínum sparnaði í að fara aftur að læra.
Á persónulegri nótum þá dó faðir minn árið 2014. Móðir mín er enn á lífi, hún er 96 ára. Þegar annað foreldri þitt deyr, ég meina hann var 87 ára en samt, það hefur áhrif. Annað slíkt augnablik var þegar einn af mínum nánustu vinum dó ungur, aðeins fertugur og skildi eftir sig eiginkonu og tvö börn. Hann dó mjög snögglega, hann var ekki búinn að vera lengi veikur, eða í það minnsta vissum við ekki að hann hefði verið lengi veikur. Svarar þetta spurningunni þinni?
Ólíkt mörgum sem tjá sig á netinu um málefni sem þeir vita bara brot af.