Friðrik og drengirnir hans er nýútkomin bók eftir Guðmund Magnússon sagnfræðing og blaðamann. Í bókinni er fjallað um ævi og störf séra Friðriks Friðrikssonar, sem hylltur hefur verið sem einn mesti æskulýðsleiðtogi Íslands, m.a. vegna aðkomu sinnar að stofnun Vals og Hauka og KFUM á Íslandi á fyrri hluta síðustu aldar.
Guðmundur greindi hins vegar frá því í viðtali í sjónvarpsþættinum Kiljunni í gær að Friðrik hafi beitt ungan dreng kynferðislegu ofbeldi, leitað á og káfað á honum. Maðurinn leitaði til Stígamóta árið 2018 þegar afmælis Friðriks var minnst með pompi og prakt.
Drengurinn sem um ræðir er nú karlmaður um áttrætt sem hafði samband við Guðmund er hann var að vinna að ævisögu séra Friðriks. Guðmundur leitaði margvíslegra heimilda við bókarskrifin, m.a. í bréf séra Friðriks og sjálfsævisögu hans. „Ég var svo hissa á því af hverju þær hefðu ekki vakið meiri umræðu – af hverju engin þeirra hefði orðið til opinberrar umræðu; um það hvernig hann til dæmis talar um drengina sína, og drengi [almennt],“ sagði Guðmundur í Kiljunni í gær.
Á horni Amtmannsstígs og Lækjargötu stendur stytta sem ber nafnið „Séra Friðrik og drengurinn“. Styttan er eftir Sigurjón Ólafsson myndhöggvara sem nam í æsku kristinfræði hjá Friðriki og var hlýtt til hans, líkt og segir á vef Listasafns Reykjavíkur.
Á stríðsárunum voru þeir báðir innlyksa í Danmörku þar sem Sigurjón gerði höfuðmynd af sr. Friðriki árið 1943 „áður en það yrði um seinan“ eins og hann komst að orði. Höfuðmyndin var til sýnis meðal annarra mannamynda Sigurjóns í Listvinasalnum 1952. „Vaknaði þá áhugi meðal gamalla nemenda sr. Friðriks á að láta reisa hinum aldna æskulýðsleiðtoga verðugt minnismerki og var Sigurjón sjálfkjörinn til verksins,“ segir á vef Listasafnsins. Valtýr Stefánsson, ritstjóri Morgunblaðsins, tók að sér fjársöfnun vegna minnismerkisins og samdi við yfirvöld, ríki og borg, um staðsetningu þess.
Friðrik hóf að sitja fyrir hjá Sigurjóni vorið 1952 og varð þá til 60 sentímetra há formynd úr leir sem listamaðurinn stækkaði til muna í Kaupmannahöfn þá um sumarið. „Fyrirmynd drengsins sem stendur við hlið sr. Friðriks var annars vegar tréstytta af dreng eftir Tove, konu Sigurjóns, hins vegar ungur sonur samstarfsmanns hans,“ segir í umfjöllun um styttuna.
Hlið við hlið
„Stelling sr. Friðriks og uppbygging verksins ræðst ekki eingöngu af aldri hans og dvínandi þrótti, heldur birtist í þeim næmur skilningur á persónu og lífsstarfi kennimannsins,“ segir þar ennfremur og er svo vitnað í orð Björns Th. Björnssonar: Með því að stilla þeim hlið við hlið, prestinum og drengnum, og tengja þá saman með einfaldri skipan handanna, tekst Sigurjóni að gefa til kynna „hvílandi, góðlátan virðuleika“ séra Friðriks og „innilegt samband hans við „drenginn, sem eru allir drengir“,“ líkt og segir í ævisögu Sigurjóns og vitnað er til á vef listasafnsins.
„Að auki er sjálft höfuð sr. Friðriks frábær mannlýsing, þar sem allir fletir andlitsins bregðast við minnstu breytingu birtunnar,“ segir á vef listasafnsins.
En skuggi hefur hins vegar fallið á manninn og styttuna frá því að viðtalið við Guðmund sagnfræðing birtist í gær. Og margir hafa velt fyrir sér hvað gera eigi við styttu af meintum barnaníðingi og dreng sem stendur á besta stað í borginni.
Heimildin beindi fyrirspurn um þetta mál til borgaryfirvalda og fékk þau svör að málið sé nýuppkomið, að margir starfsmenn séu í fríi vegna vetrarleyfa í skólum. „Við þurfum því meiri tíma til að geta svarað,“ sagði í skriflegu svari frá upplýsingafulltrúa hjá borginni.
Stytta af Sevile fjarlægð
Ekki er óþekkt að styttur af mönnum sem taldir voru skara fram úr en reyndust níðingar séu felldar. Það var m.a. gert við risastóra styttu af sjónvarpsmanninum Jimmy Savile. Styttan sú stóð í lystigarði í miðborg Glasgow en eftir að upp komst um óteljandi kynferðisbrot mannsins sem taldi fólki trú um að hann væri barnavinur mesti ákváðu forsvarsmenn garðsins að láta fjarlægja styttuna. Ýmis önnur minnismerki um Savile voru skemmd af almennum borgurum með ýmsum hætti áður en yfirvöld ákváðu að taka þau niður.
Athugasemdir (1)